Undirritaður sendi skipulags- og umhverfisnefnd bréf fyrr í sumar til að vekja athygli á hinu fjölbreytilega og mikla fuglalífi í Siglufirði og ekki síst á Leirutanga, innan sjálfra kaupstaðarmarkanna – sem líta má á sem mjög óvenjulegt á landsvísu. Sjá fyrri umfjöllun:  https://trolli.is/hljomar-nokkud-undarlega-ad-baejarrad-aetli-ser-ad-bjoda-ut-alla-duntekju/ 
Ekki átti ég von á nokkurri fjölmiðlaumræðu um þetta – en málið varð opinbert og því þarf að útskýra það ögn betur.

Með bréfinu vildi ég benda á margskonar sjónarmið sem bæjarstjórnendum þætti e.t.v. nokkur akkur í að sjá og vita af, m.a. um hinn mikla fuglafjölda sem felur svo í sér að auðvelt er að reikna út tekjumöguleika við dúnhirðu. Um þessi mál hefur ekki verið rætt opinberlega fyrr.

Ég vildi sem sagt koma á framfæri þeirri þekkingu sem ég tel mig hafa á þessum málum og því að bæjarstjórnendur mættu kannski hlusta á sjónarmið fuglaáhugamanna í heimabyggð – þeirra sem lengi hafa látið sér annt um þessi mál og bera umfram aðra ábyrgð á þróun þeirra. Þar er ekki stafkrókur um að ég sækist sérstaklega eða framvegis eftir dúntekju þar – þótt því sé haldið fram í Morgunblaðinu 17. júlí s.l.

Við slíkar bréfaskriftir, þar sem einstaklingar reyna að koma á framfæri sjónarmiðum sem skipta máli fyrir samfélag okkar, erum við vön því í svarbréfi að bæjarstjórnendur sýni að þeir kunni að meta áhugann á málefnum, þátttöku í lýðræðislegri umræðu og annað slíkt.

Bréf mitt, stílað á skipulagsnefnd, var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 7. júlí og án þess að tekin væri efnisleg afstaða til innihalds þess var gerð einföld bókun um að nú skuli bjóða út alla dúntekju í landi Fjallabyggðar og að unnið sé á Leirutanga eftir gildandi skipulagi. Afrit bókunarinnar var mér sent í tölvupósti.

Því er haldið fram í umræðu um þetta mál að “fjárhagslegur hagnaður Fjallabyggðar af núverandi samkomulagi [sé] enginn”. Hér vil ég aftur á móti benda á að þeir þrír eða fjórir aðilar, allir heimamenn, sem annast hafa varplöndin í firðinum í 20-30 ár hafa greitt sína skatta og skyldur (sennilega upp á milljónir króna) af því sem þeir sjálfir komu á fót. Einn þeirra bauð á sínum tíma að bæjarfélagið fengi 50% af dúntekjum sínum en því var hafnað.

Að lokum vil ég taka fram að mér finnst eðlilegt að bjóða út eftirlit og umhirðu á fuglasvæði Leirutanga. Sjálfum dettur mér þó ekki í hug að sækjast eftir því eða fara að keppa um það við aðra. En vil í mestu vinsemd bjóða fram ráðgjöf um það hvernig best verður farið að því að þróa varplandið í þágu bæjarbúa. Annað vakti ekki fyrir mér með fyrrgreindu bréfi. (Trúi sem sé á lýðræðislega og opna umræðu).
Leyfi mér einnig að benda á aðra (allir heimamenn) sem reynslu og þekkingu hafa á fyrrgreindum málum: Ólafur Guðmundsson, Ingvar Hreinsson, Rögnvaldur Gottskálksson og síðast en ekki síst Sigurður Ægisson, höfundur fuglabóka.

Örlygur Kristfinnsson 

Sjá fyrri fréttir á Trölla varðandi þetta málefni:

HLJÓMAR NOKKUÐ UNDARLEGA AÐ BÆJARRÁÐ ÆTLI SÉR “AÐ BJÓÐA ÚT ALLA DÚNTEKJU”

SVAR VIÐ BRÉFI ÖRLYGS KRISTFINNSSONAR VEGNA DÚNTEKJU Í FJALLABYGGÐ