Efnt verður til ýmissa viðburða á Ketilási og víðar í Fljótum. Á föstudagskvöld verða ógleymanlegir tónleikar með ljóðapönksveitinni Gertrude and the flowers, en þær flytja frumsamin lög við texta skáldkonunnar Ásdísar Óladóttur.

Á laugardag verður morgunverðarfundur þar sem fjallað verður um fornminjar í Fljótum, kvæðalög flutt og skapandi endurvinnsla í Skagafirði kynnt. Guðni Ágústsson fv. ráðherra og þingmaður ávarpar Fljótamenn og flutt verður tónlist. Íslandsmót í félagsvist fer fram á laugardeginum, en rík hefð er fyrir þeirri íþrótt í Fljótum. Að kvöldi laugardags er efnt til kvöldvöku en þar mun Guðni Ágústsson og Guðjón Ragnar Jónasson flytja gamanmál, fjöldasöngur við harmonikku undirleik og Fljótabandið leikur gömlu dansana af sinni alkunnu snilld.

Árdegis á sunnudegi er Fljótahlaupið haldið, en þar gefst þátttakendum kostur á að hlaupa rúmlega 13 km hring um Holtsdalinn eða fara í hæglætisgönguferðir með bændum og um heimahaga Bakkabræðra. Á hádegi á sunnudag býður Kvenfélag Fljótamanna upp á kjötsúpu og eftir hádegið verða Rögnvaldur Valbergsson og gestir með tónleika í Barðskirkju. Á sunnudagskvöld fara fram verðbúðartónleikar og ball á Siglufirði með Fljótakonunni Eddu Björk Jónsdóttir og Ástarpungunum.

Félagsleikar Fljótamanna eru í boði Íbúa- og átthagafélags Fljóta og rennur ágóði af hátíðinni, m.a. af söfnunarfé og sölu veitinga á morgunverðarfundi, í góð mál í Fljótum.