Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri Rarik ræddi við okkur á Trölla í dag.

Í því samtali kom meðal annars fram að hann man vel eftir 1991 og 1995 sem voru stærstu hamfarirnar hingað til. Þetta núna er miklu verra veður og erfiðara.

Varðandi rafmagnsrofið núna kom fram að alvarleg bilun varð á línu Landsnets frá Akureyri til Dalvíkur, og mun taka einhverja daga að gera við þar.

Önnur bilun varð við Dalvík á leiðinni til Ólafsfjarðar.

Einnig varð bilun í Skeiðsfossvirkjun, en það litla sem fékkst þaðan í dag til Siglufjarðar var sett inn á hitaveitudælur og fjarskipta-endurvarpa eins og Tetra kerfið – sem lögregla, björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar þurfa mjög nauðsynlega á að halda – og farsímanetið.

Seinnipartinn í dag voru tvær vélar komnar í gang í Skeiðsfossi, sú þriðja var enn biluð en unnið að viðgerð á henni.

Skeiðsfossvirkjun fer langt með að duga Siglufirði ef allt er keyrt á fullum afköstum.

Verið er að smala saman varaafli til að tengja inn á Dalvík og Ólafsfjörð. Vararafstöðvar koma sumar að sunnan, en nú er vonast til að bilun finnist við Sauðárkrók, þannig að þegar sú bilun hefur verið lagfærð losna tvær varavélar þar, sem fara þá inn á Dalvík og Ólafsfjörð.

Rarik í samstarfi við Landsnet eru núna að undirbúa viðgerð varðandi Dalvík, sem mun taka einhverja daga, en leggja áherslu á að ljúka eins fljótt og hægt er viðgerð við Sauðárkrók, til að losa varavélar sem þar eru, svo hægt verði að setja þær upp á Dalvík og Ólafsfirði, þar til búið er að gera við stóru bilunina á línu Landsnets milli Akureyrar og Dalvíkur.

Varðskip er á leiðinni með litla varastöð, en hugsanlega verður hægt að tengja aðalrafala varðskipsins, sem eru u.þ.b. 2 MW, inn á kerfið. Það getur þó verið vandkvæðum bundið, því allar vélar þurfa að ganga nákvæmlega í takt.

Hvammstangi hefur verið rafmagnslaus síðan um hádegi í gær, þriðjudag.

Farið var á snjóbíl í 9 klukkustundir til að leita að biluninni.

Ekki er vitað alveg fyrir víst hvað er bilað nema að spennuvirkið í Hrútatungu í Hrútafirði er allt ísað og í seltu og þar með óvirkt og nú er allt orðið frosið. Búið er að fá þrjá bíla til að smúla og hreinsa saltið af spennuvirkinu, en það hefur gengið illa. Ekki er vitað til þess að spennistöðvar hafi brunnið yfir á svæðinu.

[ Þess má geta til fróðleiks að selta (saltupplausn) leiðir rafmagn mjög vel, þannig að þegar hún liggur á háspennu- eða tengivirkjum í nógu miklu magni fer allt að leiða saman sem veldur skammhlaupi og í kjölfarið straumrofi ]

Um kl. 17:00 í dag, þegar viðtalið var tekið, var slökkvibíll á leið til Hrútatungu, en aðstæður eru mjög erfiðar út af frosti, því fyrst þarf að bræða ísingu til að hægt sé að skola seltuna af.

Verið er að reyna að tengja Hvammstanga við 19 kílóvolta dreifikerfi frá Laxárvatni. Viðbótar mannskapur er kominn frá Suðurlandi til að hægt sé að dreifa mannskap á stærra svæði.

Nú eru nærri 65% af kerfi Rarik komin í jarðstrengi, þannig að tjón Rarik er minna í þessu óveðri en var 1991 og 1995, en truflanir meiri vegna bilana í línum Landsnets.

Staðan 11. des. kl. 19:30