Verkefni forsætisráðuneytisins á árinu 2022 voru fjölbreytt að vanda eins og sjá má í fréttaannál ráðuneytisins.

Í upphafi árs voru enn í gildi ýmsar sóttvarnaráðstafanir vegna COVID-19 faraldursins en þeim var öllum aflétt í lok febrúar. Nefnd sem forsætisráðherra skipaði skilaði í október skýrslu um áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í faraldrinum. Meginniðurstöður nefndarinnar voru þær að áfallastjórnun hafi í heild sinni gengið afar vel.

Innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar setti mark sitt á árið en Ísland hefur veitt Úkraínu margvíslegan fjárhagslegan stuðning auk þess að taka á móti fjölda flóttafólks. Til að auka samvinnu og samhæfingu í málefnum innflytjenda var sett á fót ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks.

Málefni Úkraínu höfðu einnig mikil áhrif á allt alþjóðastarf á árinu en Ísland hefur tekið virkan þátt í aðgerðum með bandalagsþjóðum sínum til stuðnings Úkraínu. Alþjóðastarf komst aftur í eðlilegt horf eftir að heimsfaraldrinum lauk og sótti forsætisráðherra ýmsa fundi erlendis, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins auk norræns samstarfs. Þá sótti forsætisráðherra Finnlands Ísland heim á árinu og fyrsta opinbera heimsókn íslensks forsætisráðherra til Grænlands í 24 ár fór fram.    

Vinna við grænbók um mannréttindi hófst á árinu en haldnir voru opnir samráðsfundir um landið þar sem almenningi gafst kostur á að ræða stöðu mannréttinda á Íslandi, áskoranir og tækifæri. Ísland hækkaði um fimm sæti á Regnbogakorti ILGA þar sem staða hinsegin fólks í Evrópu er borin saman milli landa. Er Ísland komið í topp tíu en á árinu var einnig samþykkt fyrsta aðgerðaáætlunin í málefnum hinsegin fólks.

Meðal annarra verkefna ráðuneytisins á árinu má nefna stofnun Sjálfbærs Íslands, nýja ráðherranefnd um íslenska tungu, upplýsingastefnu stjórnvalda og vinnu gegn áhrifum hatursorðræðu.

Fréttaannáll forsætisráðuneytisins 2022

Mynd/Golli