Stígur…..Gata…..Vegur….Braut….STRÆTI ? Götur geta haft hin ýmsu nöfn og það verður að viðurkennast að þeir sem gáfu Mjóstræti sitt nafn hafa haft húmorinn í lagi. Sjá forsíðumynd hér fyrir ofan.
Þessi gata er stutt og mjó og í dag stendur bara eitt hús við þetta STRÆTI.

Í þessu þriðja hluta skulum við kíkja á eina af lengstu götum Siglufjarðar, en það er sjálf Hvanneyrarbrautin 2 – 80 og byrjunin á henni er algjör brandari. Skrítnar hliðargötur eru þarna líka og Hvanneyrarbrautin er enginn “bein og breið BRAUT”.

Ofan við einn hlutann af Hvanneyrarbrautinni er furðuleg gata sem heitir Vallargata, sumir kalla þessa götu “Sést-Varlagata” og aðrir segja að hún sé “Varla-gata”. En þetta er alls ekki nein ómerkileg gata, það eru falleg hús sem fela sig þarna og örugglega gott fólk sem á heima í þessari götu.

En við skulum byrja á því að kíkja á gamalt skipulagskort frá 1969 sem ég lofaði ykkur að þið fenguð að sjá í síðasta kafla. Þetta er kort sem Guðmundur Gauti Sveinsson bjargaði frá bráðum “Öskuhaugadauða” fyrir löngu síðan. Guði sé lof fyrir að það sé ennþá til ungt fólk í þessum bæ sem hefur vit á að bjarga sögulegum heimildum sem snerta okkur öll.

ATH. Þið sem komið hingað á trölli.is beint gegnum Facebook getið lent í vandræðum með að stækka myndirnar í snjallsímanum ykkar. Þá skulið þið smella á þrjá     punkta efst í horninu til hægri og velja síðan “Open in Safari” eða koma beint inn á trölla.is á annan hátt.

 

Skipulagskort frá “Teiknistofu Skipulagsins” 1969. Bærinn vex í suður átt og Leirutangi hefur stækkað mikið og fengið nýtt hlutverk. Hvanneyrarbrautin er líka teiknuð þarna sem “Bein Breið-gata” alla leið út í BAKKA.

 

Það er alltaf svo auðvelt að vera gáfaður eftir á, við getum kannski í flissað og hlegið af þessum framtíðarhugmyndum sem sköpuðust hjá fólkinu sem bjó þarna á þessum tíma. En síldin var ekki formlega búin að tilkynna að hún væri farin og vonin um að hún væri bara í sumarleyfi og að hún kæmi nú fljótlega aftur lifði enn…….. og bærinn gat eiginlega vegna landsskorts bara vaxið í suður átt.

Beint inn í þekkt snjóflóðasvæði…….. meira að segja ég sjálfur vissi í minni barnæsku að þetta var stórhættulegt svæði. Man eftir minnst tveimur snjóflóðum sem féllu á húsin við Suðurgötu og ekki síst eftir stóra flóðinu sem tók Leikskálahúsið og hænsnahúsið hans Óskars 1973.

 

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Myndin er eign Ljósmyndasafns Siglufjarðar. Svæðið sem um ræðir er það sem átti að verða Miðtún.

 

“Ég var 11 ára gamall þegar þetta snjóflóð féll og þetta flóð tók ekki bara með sér “æsku minnar drauma hús” heldur líka hænsnahúsið hans Óskars, og við guttarnir vorum settir í það þarfa verk að tína upp stórslasaðar hænur í strigapoka sem hlupu blóðugar í hvítum snjónum út um allt tún.

Man einnig eftir því að ég og nokkur önnur glæpabörn sem vorum geymd þarna tókum einn daginn öll bíldekkin sem voru til þarna sem leikföng og létum þau rúlla niður stíginn samtímis og beint á rautt stórt hlið sem var þarna niður frá og brutum það í spað og flúðum síðan allir eins og stríðsfangar suður að Steinaflötum, fóstrunum til mikillar armæðu og vandræða.”

Hér er slóð á grein með umfjöllun og mörgum myndum um ljósmyndaáhuga Siglfirðinga og leiki barna o.fl.

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

 

Varðandi framtíðaráform nútímans getum við svo sem ekki grobbað okkur af því að vera alltaf sammála um hvernig fjörðurinn fagri á að vaxa og dafna. Hér neðar er slóð á skipulagsskýrslu frá 2015 þar sem plön um “samvist”  Útivistar- tjaldsvæðis, Griðlandi fugla, athafnarsvæði, verslun og þjónusta……….. og  STEYPUSTÖÐVAR er kynnt fyrir bæjarbúum. Það er nú reyndar tekið fram í þessari skýrslu að Steypustöðin ætli að færa sig um set. En ef hún gerir það ekki þá á ég erfitt með að trúa því að sambúð túrista, fugla og steinsteypuiðnaðar fari vel saman.

Þetta er álíka vitlaust eins og að sýna túristum fallega hvali og drepa þá samtímis.

SKIPULAGSLÝSING Breyting á aðalskipulagi og deiliskipulag LEIRUTANGI – SIGLUFIRÐI, FJALLABYGGÐ Útivistar- og tjaldsvæði, griðland fugla, athafnasvæði, verslun og þjónusta 4. mars 2015 

 

Moldarrok við steypustöðina í framtíðar GRIÐLANDI FUGLA OG TÚRISTA.

 

Á þessu korti sjáum við suðurbæ framtíðarinnar. Norðurtún – Miðtún, glæsilega íþróttaaðstöðu ofan á Langeyrarsvæðinu og síðan Suðurtúns göturnar.

 

Þó svo að þetta líti allt saman glæsilega út á kortinu hér fyrir ofan þá er ég þakklátur snjóflóðahættunni og síldarhvarfinu fyrir að ekkert varð út þessu. Því þá hefðum við ekki þessa náttúruperlu við bæjardyrnar sem við höfum í dag. Og betra verður þetta þegar sunnar dregur með skógræktinni og fallegri náttúru í Hólsdal og Skarðsdal. Þegar sumir voru að skipuleggja byggingarsvæði þá voru aðrir, eins og t.d. Jóhann Þorvaldsson skólastjórinn okkar góði að “þvinga” okkur blessuð börnin að gróðursetja tré í sumarskólanum í áratugi.

Ég er honum eilíft þakklátur í dag.

 

Á þessum kortahluta sést “Suður Hávegur og Mið Hávegur samtenging, vantar tengingu við Norður Háveg. Hverfisgötupartarnir tengjast saman í Skriðustígsbrekkunni. En það sem er kannski mest athyglisvert á þessu korti er að gert er ráð fyrir “BARNASKÓLA” á Jónstúninu við Hverfisgötuna.

 

Það sem er líka athyglisvert á kortinu hér fyrir ofan er að Hafnargatan og Hafnartúnið er “EIN” gata og heitir Hafnarstræti. Snorragatan er í dag eins og hún er teiknuð þarna og síðan er það kannski ekkert svo skrítið að gert sé ráð fyrir Barnaskóla á Jónstúninu fyrir ofan Hverfisgötuna.
Því það er augljóst að samkvæmt þessu skipulagskorti munu öll framtíðar börn bæjarins verða framleidd í Suðurbænum.

Hvanneyrarbraut 1 hluti

 

Hér í þessum BOTNLANGA byrjar Hvanneyrarbrautin, í stuttri brekku rétt fyrir ofan gatnamótin Suðurgata, Aðalgata og Túngata. Hvíta húsið er Hvanneyrarbraut 2.

 

Það er hin mesti misskilningur að halda að þú hafir beygt inn á byrjunarreit lengstu götu bæjarins, ef þú sérð ekki botnlangaskiltið þá lendir maður í miklum vandræðum, botnlanginn endar skyndilega og þú sérð í afturendann á húsum sem standa við Eyrargötuna en hún tengist ekki heldur Hvanneyrarbrautinni, endar bara í steinsteypuvegg hjá öðrum hluta Hvanneyrarbrautarinnar.

Hvað gera Danir nú ? Hmm…. Jú, þú verður að bakka út úr þessum botnlanga og út og upp Suðurgötubrekkuna, beygja síðan til hægri inn á Lindargötuna og þá fyrst sérðu annan hluta Hvanneyrarbrautarinnar.

 

í þessum byrjunar botnlanga Hvanneyrarbrautarinnar eru þrjú hús sem tilheyra henni. en það er 2, 3 B, 5 B og 6.

 

Þetta er svo furðulegt götuskipulag að við verðum að kíkja á mynd frá  Kortasjá hjá Fjallabyggð.is til þess að skilja þetta.

 

Á þessari mynd má sjá fyrsta og annan hluta Hvanneyrarbrautarinnar.

Hvanneyrarbraut 2 Hluti

 

Hér á gatnamótum Suðurgötu, Lindargötu og Hólavegs byrjar annar hluti Hvanneyrarbrautarinnar.

 

Hér á myndinni fyrir ofan er horft í norður á mið hluta Hvanneyrarbrautarinnar. Til vinstri sést nýi leikskólinn, en hann er skrifaður á Hólaveg 2 og þar fyrir ofan er gamli gagnfræðiskólinn en það sést næstum ekki neitt í nein hús sem standa við hina dularfullu Vallargötu.

En hún er þarna klemmd á milli Gaggó og Hvanneyrarbrautar.

Vallargata

 

Hérna er hún þessi stutta furðulega huldugata, malbikuð og fín.

 

Á þessari mynd sjást hús sem eru skrifuð á Þormóðsgötuna og í bakgrunninum sést yfir á Vallargötuna.

 

Við verðum enn og aftur að kíkja á Kortasjá mynd til að ná áttum hér á þessu einkennilega svæði.

 

það er allt í belg og biðu hér á þessu svæði, erfitt að átta sig á hvaða hús tilheyra Þormóðsgötunni og verra er það með Hvanneyrarbrautina sem eiginlega verður ekki sjálfstæð og bein braut fyrr en norðan við Hlíðarveg.

 

Þegar greinarhöfundur stóð þarna á túninu norðan við Þormóðsbrekkuna í þungum þönkum um gamla stóra Bæjarfógetahúsið sem stóð þarna og…… þessi skrítna Vallargata…..víst átti hún að verða lengri eða hvað…… ?

Akkúrat þá birtist Þorsteinn Bertu Sveinsson sem ólst upp á þessum slóðum. Steini: “Jú Vallargata átti að verða lengri. þegar að foreldrar mínir keyptu húsið hér á sínum tíma var heimilisfangið Vallargata….man ekki hvaða númer. En seinna þegar Hlíðarvegurinn var malbikaður var húsið skyndilega skráð sem Hlíðarvegur 46 svo að við þyrftum nú að borga almennileg gatnagerðargjöld.

 

Ljósmyndari: Erla Svanbergsdóttir Berg – Fógetahúsið brennt árið 1998.

 

Dróst ósjálfrátt inn í minningar um liðinn tíma þegar ég hugsaði um horfin og brennd hús eins og Fógetahúsið flotta sem er nú eitt að þeim síðustu sem var brennt til ösku, það voru mörg flott en illa farin hús brennd og ég komst ekki hjá því að taka eftir auðum blettum sem eru eins og ör frá liðnum tíma í götumyndinni hingað og þangað í firðinum fagra. Hér er ekki verið að krítísera eða kenna einhverjum um. Á tímabilinu frá 1968 var þetta síldarleysisástand fyrst fyrir mig eins og að alast upp í of stórum skóm….yfirgefinn gullgrafarabær með ævintýrum í brökkum og á bryggjum, hættulegum leikjum með mörgum blóðugum slysum. Síðan varð þetta DRAUGABÆR sem enginn var stoltur yfir að búa í, allt í niðurníðslu……lengi.

Ef þið þorið og viljið rifja þetta tímabil upp þá getið þið kíkt á grein á sigló.is hér:

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

 

Hvanneyrarbraut 3 Hluti.

 

Hér á Þormóðsgötunni norðan við gamla Malarvöllinn (Sem er orðinn Grasvöllur í dag) er beygt inn á þriðja hluta Hvanneyrarbrautarinnar.

 

Gömul hliðargata við Hvanneyrarbraut er lokuð með stórhættulegu grjóti. Var líklega framlenging á Ránargötu hér áður fyrr.

 

Enn ein sérkennilegur hliðarbotnlangi sem tilheyrir Hvanneyrarbraut, horft yfir Hlíðarveg frá Sjúkrahúsinu.

 

Og Hvanneyrarbrautin endar ÚTI Í BAKKA

 

Þetta dásamlega fallega bárujárnshús sem stendur við Hvanneyrarbraut 66 hefur síðustu misseri breyst úr míglekum bárujárnsbrakka í glæsileg HÚS.

 

Það er við hæfi að enda þennan kafla hér úti Bakka í þessu húsi sem er eitt af mörgum húsum sem jafnt bæjarbúar sem og sumargestir hafa lagt mikið á sig við að endurbyggja gömul hús í algjörri niðurníðslu víðs vegar um bæinn.

Systir undirritað og fjölskylda býr beint fyrir ofan þetta hús og rétt eins og með “Húsið á Ásnum” sem ég sá birtast þegar ég sat úti á svölum hjá móður minni á Hafnartúni 6 þá vakti það forvitni mína og undrun í hvet skipti þegar ég fór í heimsókn út í Bakka hvursu ótrúlega dugleg og ötul þau voru við að leggja allan sinn frítíma í að gera upp þetta gamla slitna hús.

Eigendurnir eru Hannes Bjarnason, eiginkona hans Ingibjörg Tómasdóttir og systir Hannesar, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir og eiginmaður hennar Pétur Magnússon.

Greinarhöfundi finnst að það er minnst sagt einkennilegt “KARMA” yfir þeirri staðreynd að vera í götuskipulags göngutúr og vera allt í einu í kaffi og vínarbrauði hjá fólki sem eru afkomendur Séra Bjarna Þorsteinssonar, okkar víðsýna og framsýnta skipulagspresti.
Og það skal tekið fram að ekkert af þessari gatnamálavitleysu sem við höfum kíkt á hingað til er hægt að skrifa á Séra Bjarna sem var langafi Hannesar og Ragnheiðar.

Takk fyrir spjallið og ykkar einlæga áhuga og ást á þessu húsi og öllu sem því tengist og vonandi getur einhver lesandi gefið okkur svar við spurningu ykkar hvort að þetta hús hafið verið kallað eitthvað sérstakt.

Nefnt hefur verið Syðri Bakki eða Neðri Bakki.

 

Hannes Bjarnason og Pétur Magnússon í eldhúsinu á Hvanneyrarbraut 66.

 

Að lokum, Bakki á Siglufirði og nágrenni, það mesta sem sést á þessari mynd er nú horfið. Hér endar Hvanneyrarbrautin. Vegurinn sem liggur þarna “sikk-sakk ” upp í fjall leiðir okkur í gamla grjótnámu. ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

 

P.s. Á spjalli við systur mína í eldhúsinu á Hvanneyrarbraut 63 kom fram að litla húsið sem stóð norðan við eldhúsgluggann hjá henni sé líklega það hús sem var “original” Bakka húsið en það er nú horfið innan í rauða húsið sem stendur þarna núna, rétt eins og húsið sem Pokahöllin gleypti á sínum tíma. 

(Ábending frá lesenda: Þetta er ekki rétt, orginal Bakka húsið stóð mun norðar.)

Í fjórða og síðasta kafla þessarar greinarseríu skulum við kíkja aðeins á eyrina með sínar furðulegu einstefnugötur og fara síðan vítt og breytt um bæinn og ræða um falleg og “ljót” hús.

Til að stytta ykkur sporinn í 1 og 2 kafla eru slóðir þangað hér fyrir neðan:

FURÐULEGAR GÖTUR 1. HLUTI

FURÐULEGAR GÖTUR 2. HLUTI

Furðulegar götur 4. Hluti – Hús

Lifið heil
Kær kveðja
Nonni Björgvins

Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson