Íslandsmót neðri deildanna í blaki lauk um helgina. BF liðin í 3. deildunum stóðu í ströngu og árangur þeirra í vetur var mjög góður.
Strákarnir gerðu sér lítið fyrir og urðu deildarmeistarar í 3.deild karla, þar sem liðið endaði með 38 stig en Haukar A urðu í 2.sæti með 33 stig.

Um helgina spilaði liðið fimm leiki og unnust þeir allir, þar af fjórir 2-0 og einn 2-1.

Stelpurnar spiluðu í A-úrslitunum í 3.deild kvenna en í þeim úrslitunum spiluðu sex efstu lið deildarinnar að lokinni túrneringunni sem var í janúar. Stelpurnar spiluðu fimm leiki og unnu þær einn leik (2-0) en töpuðu fjórum (tveimur þeirra 2-1 og tveimur 2-0) og enduðu í 5.sæti í deildinni. A-úrslitin í deildinni voru mjög spennandi og margir leikir voru hnífjafnir. Að lokum voru það Haukastelpurnar sem urðu deildarmeistarar.

Næst á dagskrá hjá Blakfélagi Fjallabyggðar er Skautamótið sem fram fer á Akureyri í lok mars og svo Öldungamót BLÍ sem fram fer í Keflavík 25.-27.apríl.

 

Frétt og myndir: Blakfélag Fjallabyggðar