Forsíðumyndin er af listaverki sem hangir í Byggðarsafninu í Edshultshall en það er eftir mjög svo frægan sjálflærðan listmálara  sem bjó þarna í nágrenninu og hann notar sama sterka litaval eins og Hebbi Málari .En hann hét Albin Amelin f. 1902, d. 1975.
En Albin var mest þekktur fyrir að mála verkafólk við vinnu. Hér er hægt að lesa meira um Albin á Wikipedia.


HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 3 HLUTI.

Þessi þriðji hluti sögunnar er meira einhverskonar ferðasaga með mikið af ljósmyndum, við förum saman í minningargöngutúr með Tore Gustafsson í litla sjávarþorpinu Edshultshall.

En þemað í þessum lokakafla er það sama: síldarsaga, vinátta, listaverk og ljósmyndir.

Lokakaflinn kemur eftri viku, en það er myndasyrpa með ljósmyndum af verkum Hebba málara, þau hafa borist mér á ýmsan máta og þar fyrir utan hefur mér verið boðið í heimsóknir út um allan bæ af fólki sem vill sýna okkur þessi glæsilegu mörg hver mjög svo Siglfirsku verk.

Og hápunktur þessa heimsóka var heimboð í hús Hebba og Gunndóru á Hólavegi 10. Sú upplifun var líkust því að hafa lent inn í tímavél…..allt eins og það var í denn og litaval málarameistarans eru vægast sagt sterk og enginn veggur er eins á litinn.

Minningarmyndirnar í þessum hluta koma úr hausnum á bæði Tore og mér og leiða okkur inn í allskyns hliðaspor. Eitt af þessum hliðarsporum er skrýtin samnorræn saga um málverk af sjómönnum og grátandi börnum og lygilegum ógæfusögum kringum þær en þessi fjölda framleiddu verk seldust í milljóna upplagi á sjöunda áratugnum.

Tore sér auðvitað sína sögu með sænskum augum og hann saknar síns gamla lifandi bæjarfélags, því allt hefur breyst svo mikið í Edshultshall sem er nú orðið „sumarbústaðarþorp“ þar sem örfá gamalmenni búa, engin börn eða sjómenn sjáanlegir og öll þjónusta er horfin líka.

Ég geng við hlið hans með myndavélina og sé þetta allt með mínum Sænsk/Siglfirsku augum, tengi söguna og það sem ég sé við það sem ég fæddist inní á Sigló og það sem ég sé þar í dag og það slær mig einnig hvað við eigum okkur líka sögu þrátt fyrir að vera fæddir í ólíkum löndum og mikinn aldursmun.

Tore Gustafsson og stóra verbúðin á bakvið hann sem tilheyrði Rudolf og Dollar í bakgrunninum. Þetta hús er upphaflega 1/2 hlaða sem var keypt og flutt frá bóndabæ í nágrenninu. Í öðrum hluta var lítil verslun og þar var seld Íslandssíld o.fl. Litla verbúðarhúsið við hliðina heitir Rudolf og skútan hans Tore liggur bundin við bryggjuna þar fyrir framan.

 

En við erum báðir fæddir inní síldarævintýrissöguna, hann í upphafinu og ég í lokin.

Inní verbúðinni hans Tore er þessi skemmtilegi “Bátabar” sem hann smíðaði sjálfur.

 

“Kuttrarna LL 491 RUDOLF och LL 195 DOLLAR i Edshultshall” Ljósmyndari: Henrik Lundhag. Digitalmuseum.se

 

Og Tore kann sína sögu….. og hefur alla ævi haft mikinn áhuga á öllu sem tengist sögu og náttúru Íslands.

Heima hjá Tore og Ulla hanga 6 st. fallegar litprentaðar myndir sem fjalla um Landsnámssögu Íslands í stigaganginum, þessi í miðjunni á myndinni hér fyrir ofan gæti vel verið Þormóður Rammi að horfa yfir landnámsvæðið sitt á Siglufirði.

 

Í samanburði á milli Sigló og næstum allra sjávarþorpa sem ég hef heimsótt hér á vesturströndinni síðustu 30 árinn þá tek ég alltaf eftir því hversu mikið af gömlum  tréhúsum, bryggjum og brökkum standa enn. Á Sigló er þetta meira og minna allt horfið….. því að eftir að síldin hvarf þar var ekkert hlutverk fyrir þessi mannvirki og veður, vindur, haf og ís börðu þetta allt sundur og saman og þar fyrir utan vantaði allt viðhald líka því enginn vildi heldur lengur eiga neitt af þessum síldarævintýrisafgangi .

Nema kannski söltunarstöðin hans afa Nonna, það steinsteypuhús stendur enn og var til sem hlutafélag lengi eftir síldarhrun.  Jón og Þórður í “Hraðfrystihúsinu Hrímnir HF” voru nokkuð séðir karlar, því já….. þarna var ekki bara söltuð síld, þetta var frystihús líka.

Sjá grein um þessa hörmungarsögu um það sem við kannski ekki viljum muna:

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

Hér úti höfðu menn meiri fjölbreytni og möguleika á að falla inní eitthvað annað lífsviðurværi en það tók sinn tíma hér úti líka að rétta úr kútnum og get ég nefnt að það  þurfti t.d. að skipta út mörgum vélum í niðurlagningarverksmiðjunum sem allar voru stilltar á að flaka stóra feita íslenska síld.

Og hér göngum við saman um heimahaga Tore, Rudolfs og Dollars og minnumst liðins tíma sem samt er alveg ótrúlega SJÁANLEGUR hér í Edhultshall á margan hátt.

Hér er önnur greinarsería þar sem við göngum um mína heimahaga á Sigló en þar eru birtar um 250 gamlar ljósmyndir.

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga.

 

Það var ekki ólíkt þeirri upplifun að koma í Síldarminjasafnið þegar við Tore skoðuðum gamla verbúðarbrakkan, mín augu festust við þessa heimatilbúnu “lyftuhjóli” undir rjáfrum og þarna var líka númerað timbur sem var notað til að breyta dekkinu á fraktskútunum í reknetasíldveiðiskútur í denn.

 

Hér í þessu húsi voru líka geymd hin sérhönnuðu “Íslandsreknet,” en þessi reknet voru sterkari, með stærri möskvum og lengri en önnur reknet sem notuð voru við síldveiðar.

Og hér er hægt að fræðast meira um reknetaveiðar Svíana með því að skoða farandsýninguna På väg mot Island” sem var sett upp utandyra við Síldarminjasafn Íslands sumarið 2018 en hún er þarna á sama stað í sumar líka.

Og til viðbótar er hér hægt að sjá hljóðlaust myndband sem fylgdi farandsýningunni með samansafni af ljósmyndum og stuttum kvikmyndum úr einkaeign sem sýna undirbúning fyrir þriggja mánaðar útilegu við Ísland , reknetaveiðar, söltun og lífið um borð og að lokum fullt af flottum myndum frá Siglufirði.
Hljóðlaust myndband um reknetaveiðar sjómanna frá vesturströnd Svíþjóðar

“Skólaskútan” og sýningargripurinn Westkust liggur í heimahöfn sinni í Edshultshall. Glæsileg þriggja mastra skúta.

 

Öllu er hér meira og minna vel við haldið og margt og mikið er í eigu erfingja fraktbáta/síldveiðisjómanna og þetta eru auðæfi þar sem allir vita að mikil og áhættusöm vinna liggur á bak við allt sem þeir skildu eftir sig.

En eitt stórt hús stingur í augun og Tore hlær við þegar ég bendi á þetta hús og svo segir hann með alvöru svip: „Ja það skrýtna við þetta allt er að moldríkur mublumilli eða erfingjar hans eiga þetta ljóta hús……sumir eru svo ríkir að þeir kannski bara eru búnir að gleyma að þeir eiga hús HÉR“

Í öllum minni bæjarfélögum eru til lítil Byggðarsöfn sem eru alfarið rekin af eldra áhugafólki og hér er lítið safn til húsa í gamla Barnaskólanum. Salurinn minnir mig á gamla Sjómannaheimilið við Suðurgötuna, ljósmyndir og minningar á öllum veggjum og lítið svið fyrir skemmtanir. Hér eru myndir frá Sigló og á einum vegg eru bara myndir af frakt-skútu-síldveiðibátum, en héðan úr bara þessu eina litla 300 manna þorpi fóru 9 bátar á síldveiðar við Ísland.

Uppi á sviðinu í litla Byggðarsafninu hangir þetta fallega listaverk af sjómönnum að þvo humartínur eins og altaristafla.

 

Það var óvenju hvasst þennan annars fallega júlídag og rétt áður en við komum á Byggðarsagnið eftir að Tore brá sér frá smá stund til að sækja lyklana þá hafði ég spurt hann hvort að það geti nú ekki verið erfitt stundum með innsiglinguna hér í skerjagarðinum. Nei, ekki svo segir þessi gamli reyndi skipstjóri, það eru allar siglingarleiðir vel merktar með vitum og öðru en jú hér áður fyrri gátu hættulegir sviptivindar hreinlega hent stórum bátum uppá skerin og mikið rétt við finnum strax mynd af einu slíku sjósslysi.

Gamall minni stálfraktbátur uppá skeri við innsiglinguna í Edshultshall. Ljósmyndari óþekktur.

 

Fraktskútusíldveiðireknetabátar í langri röð, allir fóru þeir á Íslandsmið.

 

Þessi mynd er líklega frá 1937. Ljósmyndari Óþekktur.

 

Sænskir síldveiðibátar í landlegu á Siglufirði 1937. Ljósmyndari óþekktur.

 

En nú dettum við báðir inní hliðarspor þegar við sjáum merkilegan minnisvarða sem er höggvin á steinhellu í Lerwik á Setlandseyjum 21 maí 1948.

Tore hafði aldrei séð þetta áður en þessi „minningarsteinn“ sýnir  fjölbreytnina í notkun á þessum fraktbátum sem voru í rauninni vörubílar skerjagarðsins stærri hluta ársins á sínum tíma.

Þarna er Rudolf LL 491 breytt í síldveiðibát strax í maí og þeir skreppa í stuttan túr þegar fréttist af síld úti við Setlandseyjar. Það skal líka tekið fram að þegar Tore bendir á að nöfnin á mönnunum sem fóru í þennan túr að bara 2-3 af þeim geta reiknast sem alvöru sjómenn og hinir eru landkrabbar sem fara með sem „síldarsöltunarstúlkur“ og þeir eru t.d. heyrnalaus skósmiður, barnaskólakennari og skrifstofublók sem vilja gjarnan drýgja tekjurnar með síldveiðum.

Sama áhöfn fór síðan líklega aftur á síldveiðar á Grímseyjarsundi eftir stutta heimkomu í júní en yfirleitt var farið af stað til Íslands stuttu eftir Jónsmessu.

Að þessi uppfyllingar áhöfn og „söltunarstúlkur“ séu allir karlmenn snýst líklega um að það þótti kannski ekki boðlegt dömum að búa og vinna um borð í skítugum veltandi dalli í 3 mánuði. En það fóru samt nokkrar konur í þessa túra, mest sem kokkar.

Árið 1948 voru samanlagt saltaðar 198 tunnur af síld um borð í Rudolf LL 491 við Setlandseyjar.

 

Nú skreppum við með Tore og konunni hans elskulegu, henni Ullu, í annað Byggðarsafn og samkomuhús þarna rétt hjá sem heitir ”Hälleviksstrands Främjande“.

Þegar við komum er verið að sýna gamalt handbragð við að spinna „hampa reipi“ fyrir utan húsið.

Hér er verið að “spinna” saman hampa kaðal.

 

Það var seld “Prima Íslandssíld” með pækli í svona 5 kg dósum beint úr tunnum frá Rudolf og fl.bátum.

 

Eftir kaffi og heimabakað sætabrauð hjá þessum indælu uppáklæddu konum í Byggðarsafninu, þá dettum við hvert í sitt hliðarspor. Ulla finnur sér fína bók að glugga í, Tore leggur sig allan fram við að sjarma dömurnar og ég sjálfur festist í skrýtnum pælíngum þegar ég sé þetta „klassíska málverk“ hér undir.

Tore og dömurnar fínu í Hälleviksstrand.

 

 

HLIÐARSPOR: Fjöldaframleidd málverk valda vandræðum í Norður Evrópu.

Já þetta er svolítið mögnuð saga en þegar ég sá og tók þessa mynd af sjóara málverkinu í Hälleviksstrand en hann hef ég líka séð á Fisherman friends pakka og þá minntist ég þess líka að hafa séð verk með grátandi börnum út um allt og eitt slíkt er einmitt til á æskuheimili mínu á Hafnartúni 6.

Þessi málverk, (sjómenn og grátandi börn í ólíkum útgáfum) voru seld af faraldssölufólki út um alla Norður Evrópu og bara í Svíþjóð voru seld um 1.3 miljónir af þessum grenjandi börnum og þar sem og annars staðar mynduðust skoðanir sem voru látnar í ljós í virtum dagblöðum um að þetta væri mannvonska hjá listamanninum Giovanni Bragolin. Að verða ríkur á að vera vondur við börn var bara ekkert annað en barnaníðingsháttur og tilfinningaklám sagði einn frægur sjálfskipaður sérfræðingur í barnauppeldi.

En ekkert slær það sem gerðist í Englandi 1985 þegar The Sun birti bullgrein, sem þeir síðan sáu eftir seinna um að slökkviliðsmenn vildu meina að það væru álög á þessum tára málverkum, því hvarvetna sem þeir slökktu bruna í húsum brann allt nema þessi tárablautu listaverk.

Sem sagt,  þessi hræðulegu listaverk gátu ekki brunnið.

Akkúrat þessi grátandi strákur er til heima á Sigló, greininni á myndinni er frá 24 okt. 1985.

 

Það urðu mikil og löng skrif um þetta og allskyns munmælasögur mynduðust og að lokum bauð The Sun lesendum sínum að senda inn þessi verk og það bárust 2.500 til þeirra og síðan var kveikt í þessu öllu til þess eins að sýna og sanna að máluð tár geta víst brunnið eins og allt annað.

Listamaðurinn sjálfur sem bjó á Ítalíu en hann notaði stundum dulnefnið G. Bragolin en hét í rauninni Bruno Amadio, f. 1911 i Venedig, d. 1981 vissi ekkert af þessu fjaðrafoki og sá aldrei krónu sjálfur.
Umboðsmaður hans hafði svikið hann með falskri undirskrif um leyfi á þessari fjöldaframleiðslu.

Og sannleikurinn var að blessuð börnin grátandi voru hans minningar um vini úr barnæsku frá þeim tíma er hann bjó á barnaheimili og hans eina meining með þessum verkum var bara að minna okkur á og á kannski frekar óþægilegan máta á að:

Við höfum öll einhvern tíman verið grátandi börn!

Og ég er nokkuð viss um að hann Hebbi okkar hefði nú hlegið mikið að þessari vitleysu.

En nú er þessi góði dagur með Tore og Ulla að lokum komin og hann endar með kvöldverðarboði í gamla fína húsinu sem hann Oskar skipstjóri byggði í sömu götu og hús Frans bróður hans.

Pönnusteiktur norskur lax í aðalrétt og að sjálfsögðu er síld í forrétt og þeir kunna svo sannarlega að fara með síld Svíarnir.

Forréttur: “Hönökaka” (sérstakt skerjagarðsbrauð) með smjöri, MATJE – síld, rækjur og kavíarhrogn. MUMS!

 

Þessi saga byrjaði á listaverki og þá verður hún líka að enda á einu slíku.

Þetta er smá svona: „Finndu fimm villur í listaverkinu.“

En þetta risastóra verk kom sem gjöf frá góðu fólki til Síldarminjasafnsins í fyrra og er smá áminning til okkar allra að listamenn eru ekki alltaf að mála veruleikan nákvæmlega eins og hann er, við ljósmyndarar erum miklu meira í því. En þetta listaverk er reyndar málað út frá ljósmynd úti í Þýskalandi.

“Málverkið sýnir miklar stæður af síldartunnum sem bíða útflutnings.”

 

Já einmitt…. aðalmarkmið verksins er að sýna tunnur sem bíða útflutnings og stoltan “síldarkóng” sem heitir Vigfús Friðjónsson og sonur hans Orri er með á myndinni.

Þess má til gamans geta að Orri var bekkjabróðir foreldra minna og í barnæsku léku þeir sér saman pabbi, Orri og Emil Pétursson við að taka ljósmyndir og framkalla sjálfir með heimtilbúnum ljósalampa. Það er til slatti af slíkum ljósmyndum í dánarbúi foreldra minna.

P.S. Villurnar verður þú lesandi góður að finna sjálfur. En hér finnur þú meira um þessa góðu gjöf til Síldarminjasafnsins.

Lifið heil og kær kveðja.

Nonni Björgvins

Aðrar sögulegar greinar og ljósmyndasyrpur eftir sama greinarhöfund er hægt að finna á siglo.is. og trolli.is.
Sjá lista hér undir:

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 HLUTI.

SÍLDARSAGA FRÁ 1943: SILFUR HAFSINS Í KLONEDYKE NORÐURSINS

SÍLDARSAGA: UMSKIPUNARTÚR VIÐ ÍSLAND 1946

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

SIGLFIRSK ÞAKKLÆTISKVEÐJA FRÁ ÚTLANDINU

FLUGSAMGÖNGU FRAMFARA SAGAN SEM HVARF ! “LANDIÐ ÞAR SEM ALLT ER Í HÁALOFT – INU”

DRAUMAR Í SÍLDARDÓSUM

SKANDINAVÍSK LANDLEGA Í MÁLI OG MYNDUM

Á LEIÐ TIL ÍSLANDS

100 ÁRA AFMÆLI! GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA, 7 HLUTI, SIGLFIRSKT ! 80 MYNDIR,GREINASERÍA

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI! 1 HLUTI

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI 2 HLUTI

FERÐASAGA: SIGLFIRSK SÍLDARSAGA Í SMÖGEN OG KUNGSHAMN. 25 MYNDIR

MINNINGAR UM SÍLDVEIÐAR VIÐ ÍSLAND 1946-48.

SAGAN UM SVANINN! SÍLDVEIÐAR, LANDLEGA OG SLAGSMÁL O.FL. Á SIGLÓ 1935

DE SEGLADE FRÅN TJÖRN…….TIL SIGLÓ. (50 MYNDIR)

PÅ VÄG MOT ISLAND…. Á HEIMASLÓÐUM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA! 

SIGLFIRÐINGAR, SÍLD OG SAKAMÁLASÖGUR Í FJÄLLBACKA

STÓRKOSTLEG KVIKMYND FRÁ 1954 FUNDIN

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / SÆNSK MYNDASYRPA FRÁ 1945

SIGLUFJORDUR ER NAFLI ALHEIMSINS OG SILLENS CLONDYKE (MYNDIR OG MYNDBAND)

 

LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TRÖLLI.IS FINNUR ÞÚ HÉR.

Aðrar heimildir um síldveiðar Svía og Norðmanna við Ísland:

DRIVGARNSFISKET VID ISLAND PÅ 1900-TALET

BOHUSLÄN VAR LANDETS SILLCENTRUM

SILDEFISKET VED ISLAND (DEL 1) NORSK SÍÐA.

SILDEFISKET VED ISLAND (DEL 2)

ÞÝÐING, TEXTI OG LJÓSMYNDIR:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
AÐRAR LJÓSMYNDIR ERU BIRTAR MEÐ LEYFI FRÁ LJÓSMYNDASAFNI SIGLUFJARÐAR OG FRÁ BYGGÐARSAFNINU Í EDSHULTSHALL O.FL.