Héðinsfjörður er mér og mörgum ættingjum kær náttúruperla, hann var lengi vel falin, á milli hárra fjalla, vega, hafnar, og rafmagnslaus eyðifjörður. Ég á ættir mínar í móðurætt að rekja til Vatnsenda, sem er staðsettur austan megin við suðurenda Héðinsfjarðarvatns. Þessar sögulegu ljósmyndir, sem birtast ykkur hér neðar, segja okkur meðal annars “Slysavarnaskýlis” byggingarsögu frá 1966 og í lokin tökum við smá hjátrúar hliðarspor og endum á draugalegri sögu, sem gerist í sama skýli, en það var byggt rétt norðan við Víkurbæinn, austan og norðan við sjávarmalakambinn sem skilur að vatn og haf.
ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.



Í Héðinsfjarðar minningum mínum, með tilheyrandi endursögn úr blaðagrein frá 1972, með viðtali við síðasta bóndann í Héðinsfirði, segir Sigurður H Björnsson, fyrrverandi Víkurbóndi meðal annars:
“…. Um síðustu aldamót (1900) voru 50 manns á bæjunum Í Héðinsfirði, en ég og mitt fólk flutti þaðan 30. Júní 1951 og vorum við þá búin að vera ein í firðinum í rúmt hálft annað ár.“
“... Ég hafði talstöð fyrir Slysavarnafélagið frá 1942. Naut ég sjálfur góðs af því. Þegar ég fór, seldi ég svo félaginu húspartinn minn (Vík) fyrir sanngjarnt verð. Ekki er skemmtilegt að segja frá því, að ekki var þetta hús látið í friði, því að hver einasta rúða var brotin í því. Nú á Slysavarnafélagið skipsbrotsmannaskýli þarna og er það eina sæmilega húsnæðið, því að önnur hús hafa grotnað niður.“
Sjá meira hér:
Síðasti bóndinn í Héðinsfirði
Sigurður og allt hans fólk, er mér persónulega náskylt og kært fólk líka. Því Sigurður er systursonur, ömmu minnar, sem hét þessu fallega nafni, Mundína Valgerður Sigurðardóttir (30 ágúst 1911 – 2 ágúst 2000) og hún var rétt eins og hann fæddur á Vatnsenda í Héðinsfirði. Þrátt fyrir að Sigurður væri systursonur hennar ömmu Mundý, þá voru þau eiginlega jafnaldra. Amma var bara árinu eldri, því það voru yfir 20 ár á milli þeirra systranna. Anna Lilja Sigurðardóttir í Vík, móðir Sigurðar var fædd á Vatnsenda 1890. Hún var elst 9 systkina og Mundína amma var yngst.

Byggingar saga frá 1966 í máli og myndum
Í upphafi þessara skrifa, var það í rauninni ekki ætlun mín að skrifa um neitt annað en skemmtilega draugasögu sem afi Pétur Bald, sagði mér fyrir all löngu síðan, en hún gerist einmitt í þessu Slysavarnaskýli. Hann var lengi vel veiðivörður fyrir félagsskap velstæðra manna að sunnan, sem um 10 ára tímabil leigðu allt Héðinsfjarðarvatn. Sjálfur var ég með honum í þeirri vinnu, tvö sumur í byrjun 1970. Afi vissi að sjálfsögðu mikið um sögu fjarðarins, enda var hann giftur ömmu minni frá Vatnsenda.
Svo mundi ég skyndilega eftir því að Siglfirski sögu vinurinn minn og ljósmyndarinn Steingrímur Kristinsson, var með í sjálfboðaliða vinnuhópnum í þessari skýlis byggingar vinnu sumarið 1966. Hann tók þar allmargar skemmtilegar og fræðandi myndir sem sýna okkur að þetta var stórbrotið verkefni, þrátt fyrir að þetta hús sé ekkert sérstaklega stórt.

Þörfin fyrir Slysavarnaskýli í Héðinsfirði með virkri neyðartalstöð, er að sjálfsögðu augljós út frá einangrun fjarðarins, en útskýringin liggur einnig í ofan nefndum orðum Sigurðar í Vík, um ástandið á gamla húsinu hans, sem lengi vel var notað sem björgunarskýli fyrir nauðstadda ferðalanga og sjófarendur.
Myndirnar útskýra sig sjálfar, en vert er að hafa í huga að allt er gert með handafli. Það er sem mig minni að ljósmyndarinn Steingrímur, sem sagði mér frá þessum atburði fyrir alllöngu, að nokkrir vaskir strákar úr Björgunarsveitinni Strákar, komum á undan hinum inn í Héðinsfjörð og byrjuðu á að byggja stöðugan tré drumba grunn, áður en skip (líklega er þetta skipið Sigurður, sem Ásgrímur Sigurðsson, frá Vatnsenda, bróðir ömmu átti á sínum tíma)…kom með meiri mannafla og sjálft skýlið, sem kom í þá þegar máluðum einingum, með gluggum, hurð og þaksperrum.
Þetta er samt heljar mikið og ævintýralegt verkefni og kannski ekki af ástæðulausu að Þóður Þórðarson ( í Hrímni/ á Nesi) er með í för. Hann var al vanur svona þungaflutningum á allskyns búnaði úr bát, yfir í grýtta bratta fjöru og þaðan upp á land úti á Siglunesi.
ATH: Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.














Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Mín eigin hjátrú er ættuð úr Héðinsfirði!
ATH: Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.

Undirritaður á sér margar merkilegar minningar úr Héðinsfirði og þá sérstaklega frá tveimur sumrum með afa Pétri Bald, sem veiðivörður, þegar ég var 12-13 ára. Langtímum saman voru við einir í öllum firðinum og oftast gistum við í “Veiðihúsinu” sem líktist einna helst venjulegum sumarbústað, sem áður nefnt veiðifélag, sem leigði allt Héðinsfjarðarvatn reistu á sandfylltum grónum hól við suðaustur endann á svokölluðum Sandvöllum.
Það sem mér fannst oft barnalega óþægilegt, var að þetta veiðiskýli er augljóslega byggt ofan á gömlum grafreit, maður sér móta fyrir gömlum leiðum, bæði undir og allt í kringum húsið. Ég svaf sem sagt oft í kirkjugarði.
Einnig fékk ég oft mikla ónóta tilfinningu kringum fjárhús tóftir sem eru þarna vestan við sandhólinn. Þarna í þessum húsatóftum var heimatilbúna silunga frystikistan okkar afa, en ég fór mögrum sinnum á sumrin upp í ýmis fjallagil og sóttir snjó í stóran svarta ruslapoka. Sigurður frændi minn í Vík, nefnir einmitt sögu um einhver “óhreinindi” á þessum stað, í áðurnefndu blaðaviðtali frá 1972, sem og sögu um mögulega heimsókn frá hinum fræga Þorgeirsbola að næturlagi við Víkurbæinn.
Þegar virðulegir gestir að sunnan voru í veiðihúsinu, fluttum við afi okkur oftast yfir í Gangnamannakofann, sem sést móta fyrir á myndinni hér neðar. Þar inni var hlýtt og gott að vera, en nokkuð drungalegt, því mig minnir að það sé aðeins einn lítill gluggi á þessum bárujárnsklædda kofa. Á löngum ljúfum kvöldvökum, sagði afi mér allskyns sögur og tók stundum út úr sér tennurnar og lék þá fyrir mig heilu leikritin sem hann hafði haft hlutverk í með Leikfélagi Siglufjarðar.
Hann hélt stundum að mér nútíma barninu leiddist, því það var ekki einu sinni hægt að heyra í ferða útvarpi í þessum þrönga, þá einangraða firði.

Yfir vetrarmánuðina var nægur tími til að spjalla við ömmu Mundínu og stundum gat ég ekki gert greinarmun á því hvort hún var að tala um gamla brottflutta nágranna úr Héðinsfirði eða Huldufólk og Álfa, sem hún virtist þekkja jafn vel.
Ég var með eindæmum forvitið barn og spurði ýtarlega um allt og ekkert. Svona nálægð við eldra fólk sem ólst upp í rafmagnsleysi, þar sem fólk lifði í birtu og myrkri árstíðanna í nánum tengslum við náttúruna, hefur gefið mér mikið sögu ímyndunarafl og í dag þykir mér mjög vænt um mína eigin hjátrú. Því þegar afi eða amma, sögðu mér sögur, sem oft voru sprottnar upp úr hjátrúar sögum og þekktum örnefnum í umhverfinu í t.d. Héðinsfirði, þá sá ég þetta allt saman fyrir mér eins og bíómynd.
Því ég þekki hverja einustu þúfu og hól sem þau voru að tala um, í mörgum af þessum örnefna sögum, býr oft mikil dulin virðing fyrir náttúrunni, það fylgja oft með viðvaranir um að láta það eiga sig að hrufla við t.d. Álfa klettum og Völvuhaugum. Í skondnu draugasögunni hér í lokin er kannski ekki svo skrítið að afi Pétur, sem þekkir sig vel í sögu umhverfinu og þeirri hjátrú sem henni fylgir að við óvæntar aðstæður um miðja nótt að hjátrú virki eins og olía á eldinn. Því á örnefna heimasíðunni Snókur.is, í greina góðum kafla um Vík, segir meðal annars:

“… Hefir þar oft átt að endurbyggja, því byggðarstæði er þar fagurt, en þó frá því horfið. En norðan tóftanna hóll lítill, eða þúfa, er virðist klettur einn hulinn sverði; nefnist það: Völvuhóll, eða: Völvuhaugur (13) en býli þetta: Valva (14). Er það hér víst talið og mörgum rökum stutt, að í þúfu þessari búi eitt hinna skæðu meinvætta byggða þessara; og gjaldi þeim grimmar hefndir er hér byggja, eða nytja hið góða túnefni umhverfis. Sunnan við býli þetta gengur löng grösug dæld allt ofan úr hólum nefnist hún: Völvulaut (15). Lækur er um hana fellur: Völvulækur (16) og melhryggur suður frá henni: Völvuhryggur (17)….
… Á honum stendur nú býlið Syðri-Vík og af mörgum í hættu talið…“ Sjá meira hér: snókur.is/Vík
Skondin Slysavarnaskýlis draugasaga!

Forsaga þess að afi Pétur, neyðist til að fá sér gistingu í Slysavarnaskýlinu í Vík, snýst að mig minnir, um að hann, þá rétt tæplega sjötugur, lenti eitt sinn í miklum hrakningum, þegar hann var einn á ferð í Héðinsfirði. Það var komið fram yfir miðjan september og hafði hann beðið lengi eftir sæmilegri veðurspá til að skreppa inn eftir yfir daginn og negla hlera fyrir glugga og ganga frá Veiðihúsinu fyrir veturinn.
ATH. Þegar maður endursegir gamlar sögur, geta staðreyndir og aðrir tengdir atburðir, runnið saman í götóttum minningar myndum, ég er ekki alveg viss hvort að drauga upplifun afa í Vík, er akkúrat tengd þessari bátabrots hrakfallasögu eða hvort hún gerðist við annað tilfelli. Af nógu er að taka, en sagan verður sögð svona.
Þess má geta að það er oft mjög svo erfitt ef norðanáttin stendur inn fjörðinn að taka lendingu í fjöruborðinu vestan við ósinn. Þar fyrir utan er ekki síður erfiðara að finna gott akkeris festi fyrir báta í sandfylltum fjarðarbotnum, er það þar af, oft gert utar, í smá skjóli sem litla Víkurhóla nesið gefur.
Kallinn er sem sagt komin og harðákveðin í að ljúka þessu verki, hann rær í land, vestan við ósinn í litlum og léttum ál árabát, þrátt fyrir að það hafði bætt í norðanvindinn. Þegar hann nálgast fjöruborðið ræður hann ekki við öldurnar, sem brotna á sandfylltum kambi og árabáturinn snýst á hlið og hvolfist síðan yfir ósyntan gamla manninn. Kallinn festist undir árabátnum og rekur seint um síðir í land, en tekst loks að skríða undan bátnum og er hann þá nær dauða en lífi, ískaldur og nokkuð krambúleraður, en þó guði sé lof óbrotinn.
Hann liggur lengi algjörlega örmagna í fjöruborðinu og hugsar sitt ráð.
Hann hefur enga burði í að reyna að koma árabátum á réttan kjöl og koma sér út í trilluna og heim, allt nesti og annað farið í sjóinn, svo hann gerir það eina rétta og veður yfir ósinn og kemur sér inn í Slysavarnaskýlið í Vík.
Þar er allt til staðar, hiti til að þurrka föt, matur og talstöð, til að láta vita af sér og breyttum ferðahögum.
Það var nokkuð ljóst að hann yrði að fá hita í kroppinn og safna kröftum yfir nóttina og vonast eftir betra verðri á morgun, til að klára veiðihúsa verkið og vonandi myndi hann geta rétt við árabátinn, þegar það hafði fjarað út.
Hann er rétt við það að festa svefn, en þá er eins og það sé bankað þrisvar einhvers staðar á húsið, kallinn ríkur upp og er frekar hissa, því hann vissi ekki betur en að hann væri einn í firðinum. Hann fer út í kalda norðan rigningarsúld og kíkir snöggt kringum húsið og sér engan. Kallinn fer síðan inn aftur og ímyndar sér, að kannski var þetta bara laus loftnets snúra sem slóst í gluggalausan norður gaflinn á skýlinu.
Eftir smástund byrjar þetta dularfulla bank, bank, bank… hlóð aftur og afi ríkur út aftur og gengur nú heila hring í kringum Slysavarnaskýlið og sér ekkert sem getur valdið þessu banki… Hann sér þó eitthvað dularfullt á hreyfingu í næturrökkrinu í nálægð við rústirnar af gamla Víkurbænum. Á blautri jörðinni sér hann einnig eitthvað sem líkist útdregnum klaufhófasporum…
… þetta fær hann til að byrja að ímynda sér að sjálfur Þorgeirsboli sé mættur til að ásækja hann.

Sjá meira hér í grein í Feykir.is: Þorgeirsboli – Byggðasögumoli.
Afi var svo sem ekkert svakalega hjátrúarfullur og þegar bankið byrjaði í þriðja sinn, er hann búinn að finna sér vasaljós og ríkur hann síðan út og lýsir allt í kringum sig, þegar hann stendur sjávarmegin við skýlið.
Þegar vasaljósið beinist að húsinu, sér hann fjögur lýsandi augu og tvö kolsvört andlit með hornum, stara á sig undir húsinu.
Honum bregður alveg djöfullega, en léttir mikið þegar hann heyrði ámátlegt lamba jarm.
Það er sem sagt kind og lamb, sem hafa sótt sér skjól með því að skríða undir Slysavarnaskýlið. Hornin á þeim rákust annars lagið upp í gólf fjalirnar á skýlinu.
Afi var ekkert að erfa þessa stríðni frá þessum kolsvörtu Héðinsfjarðar mæðgum og lét þær eiga sig og svaf vel, það sem eftir var nætur og komst heim daginn eftir, reynslunni ríkari.
Örstutt merkileg viðbótar saga, frá Héðinsfjarðar frænda
Þessi frændi minn var rétt eins og ég tíður gestur í Héðinsfirði með afa sínum sem hann er skírður eftir, en þessi stutta viðbótar saga kom til mín gegnum Messegerspjall á afmælisdeginum hans.
Sem sagt, frændi frænda míns, sem var mikil fjallageit og ævintýramaður, skrapp aleinn seint í september í göngutúr frá Siglufirði og yfir Hestskarðið háa yfir til Héðinsfjarðar. Þetta átti bara að vera skemmtilegur eins dags göngutúr, en þegar hann kemur yfir skarðið, skellur á norðan rigningar stinnings kuldi og vinurinn verður strax rennandi blautur og kaldur þegar hann kemur niður að Héðinsfjarðarvatni.
Hann ákveður rétt eins og í sögunni um afa að fá sér næturgistingu í Slysavarnaskýlinu og lendir um nóttina í nákvæmlega sömu vandræðum með “draugakindur” og hornin þeirra bankandi í skýlis gólfið.

Nú er það ekki endilega þetta sem er merkilegt!
Heldur það að daginn eftir, þá treystir hann sér ekki vegna veðurs að fara heim til Sigló yfir Hestskarðið. Hann ákveður að ganga sem leið liggur austan við Héðinsfjarðarvatnið og þaðan ætlaði hann lengra inn í dalinn og síðan taka stefnuna til vesturs, upp og yfir Hólsskarð. Þetta er mun lengri leið, en léttari og auðveldari í slæmu veðri.
Þegar hann er komin rétt suður fyrir Grundarkot (rétt sunnan við núverandi austanverðan gangnamunan) sér hann skyndilega illa farið og rennandi blautt lítið tjald. Í tjaldinu liggur illa haldin, vegna kulda og vosbúðar útlenskur túristi. Frænda frændanum tekst að rífa manninn á lappir og lemja í hann hita og kjark til að vilja hreinlega lifa, hann hjálpar túristanum síðan að taka saman dótið sitt og sýna honum styðstu leið til byggða. Það var að hann færi að Vatnsenda húsarústunum og þaðan beint upp og yfir nokkuð létta skarðsleið, yfir til Ólafsfjarðar og þar á eftir biðja um hjálp í fyrsta mannabústaðnum sem hann sæi.
Ég held að það sé nokkuð ljóst að þessi hálfdauði uppgjafar túristi, var heppinn að útivistar reyndi frænda frændi minn, með góða staðarhátta kunnáttu, breytti sinni heimfarar leið. Annars hefði hann líklega fundist dauður, viku til 10 dögum seinna, þegar Siglfirskir innanbæjar bændur, nenntu að skreppa inn í Héðinsfjörð til að sækja helv… draugarollurnar sínar.
Höfundur samantektar og endurvinnsla á myndgæðum:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Teiknaðar myndir eru framleiddar með aðstoð frá Microsoft Bing AI gervigreind.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar, og örnefnasíðunni Snókur.is, vísað er í aðrar heimildir gegnum vefslóðir í greinartexta.
Hér er hægt að lesa skáldaða smá sögur, sem byggir á æviágripum afa míns:
Gleðimaðurinn og allar hans sorgir!
Sjá einnig myndasyrpu söguna:
JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN
… og hér er hjartnæm minningasaga úr Héðinsfirði:
Sunnudagspistill og „BOGNAR & BEINAR TÆR“
… og að lokum dularfull Vatnsenda skáldsaga:
Úr heilsulindinni í Héðinsfirði rennur bæði móðurást og brjóstamjólk náttúrunnar!