Verslunarmannahelgin er mér og mörgum öðrum mikil heimþráahelgi. Þetta fyrirbæri er krónískur sjúkdómur, en akkúrat þessa helgi er stór möguleiki á tímabundinni pásu frá sálrænum verkjum sem fylgja heimþrársýkingunni. Þeir sem geta, vilja ferðast til sinna barnæsku heimahaga og vita auðvitað að samsjúklingar þeirrar eru að hugsa það sama.
Stórar líkur á því að maður hitti óvænt gamla vini á vappi niðrí bæ.
Þessi heim-þrá er ekki ólík grágulum þrá-anum sem gat stundum komið í síldina í tunnunum í Sigló-síld í denn, maður þarf að henda þessu til hliðar…eða skera þetta úr flökunum. Bara kindum og hestum inní Fljótum fannst þessi þráasíld góð.
SIGLÓ SÍLD! ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS VERKSTJÓRA. 60 MYNDIR
Persónulega hef ég engan áhuga á útihátíðum, er að vinna við löggæslu alla daga sumarsins á einhverskonar risa útihátíð í skemmtigarðinum Liseberg í Gautaborg. 15 – 30 þúsund manns koma daglega i þennan tívolígarð sem á 100 ára afmæli í ár.
Nei, mig langar að fara heim til Sigló í rólegheit í logni og miðnætursólarblíðu. Hitta fólk á förnum vegi, spjalla og rifja upp sögur um gömul barnæskuprakkarstrik.
Er til einhver önnur lausn við heimþráaverkjum en að koma á staðinn?
Sigló vefmyndavélin á trölli.is er aðgengileg allan sólarhringinn og alltaf gaman að sjá bærjarlífið. “LIVE”
Persónulega finnst mér ljósmynda og sögunördinum líka óskaplega gaman að skoða myndir frá Siglfirskum vinum og vandamönnum, úr þeirra göngutúrum um fjörðinn fagra.
Kíki oft vandlega í bakgrunninn á myndunum og hugsa… ja hérna, það er búið að breyta þessari þúfu.
Nei sjáðu, segi ég við sjálfan mig, hvað það er búið að gera húsið við Suðurgötuna sem hún Bidda mín Björns átti í minni barnæsku, flott og fallegt.
Tala nú ekki um spenningin við að sjá myndir frá vinnsluferlinu kringum sköpunarsögu minnislistaverksins um þátt síldarstúlknanna í okkar sameiginlegu Siglufjarðar Íslandssögu og við skulum ekki gleyma stóru orðunum á leiðinu hans Péturs Matt:
Athugið! Siglfirðingar eru fleiri en Íslendingar
Sunnudagspistill: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“
Þetta verkur bæði upp miklar heimþrárhugsanir og ákafa löngun til að vera á Sigló, einmitt þessa helgi og sjá allar þessar jákvæðu breytingar með eigin augum, en það róar mína Siglfirsku sál að fylgjast með, lesa fréttir og fleira á trölli.is og vera þannig með á nótunum um allt sem er að gerast í spjalli við vini gegnum netið.
Stjáni frændi er oft að birta myndir af kertaljósi á svölunum sínum á Laugarveginum sem hreyfist ekki i blankalogninu á Sigló. Vinir hans í rokinu fyrir sunnan trúa ekki á að það sé til svona mikið hávaðalaust logn. En ég trúi honum alveg, það var jafnmikið ef ekki meira logn á svölunum á húsinu beint fyrir neðan.
Talandi um það hús, Hafnartún 6, æskuheimili mitt, þá minnist ég þess að Gautaborgar synir mínir, urðu alveg gáttaðir á því að við systkinin ætluðum að selja þessa frábæru íbúð, með svona ótrúlega fallegri fjalla- og sjávarsýn út um risastóra stofuglugga.
Ég þurfti að róa þá niður og benda þeim á, að það er ekki endilega útsýnið sem selur hús á Sigló.
Það eru allir með svona fallegt útsýni.
Minnist síðustu sumardrengja daga minna heima á Sigló með móður minni í þessu mömmuhúsi, ég gleymdi mér stundum og talaði óvart sænsku við hana og henni fannst frekar skrítið að eiga útlenskan son, barnabörn og barnabarnabörn. Mér fannst hún eldast alllt of fljótt og einkennilegt að hún gæti ekki séð það sem ég sá, þegar ég sagði henni frá því að ég væri að fara út og taka myndir af furðulegum götum út um allan bæ.
Hún sá ekkert skrítið við það að t.d. Hafnartúnið þar sem hún bjó byrjaði skyndilega í endanum á annari götu.
Hvað þá að það væri eitthvað athugunarvert við að Hávegurinn væri í þremur hlutum uppí fjalli…🧐 hmm. Ég fór síðan út í göngutúr með myndavél um mína ástkæru heima haga og kom svo aftur heim til elsku mömmu, með sögur og myndir í maganum í fjóra greinarhluta um “Furðulegar götur Siglufjarðar.”
Þetta er með eindæmum skemmtilegt og sér Siglfirskt sögulegt skipulagsrugl, ef þú nennir að sjá þetta þannig.
Furðulegar götur 1. Hluti
Það er samt alltaf sorglegt að láta frá sér foreldra og barnæskuhús… svolítið svona:
“Nú er horfið Norðurland, nú á ég hvergi heima.“
Stafrænn göngutúr um heimahaga!
Hér um daginn í blíðskaparveðri skrapp ég í skemmtilegan stafrænan göngutúr í lófanum á frænda mínum, honum Vilmundi Ægi Eðvarðssyni. Nettengingin á norðurhjara veraldar er það góð að vídósamtalið gegnum Messenger hvorki slitnaði eða hakkaði allan þann tíma sem Ægir labbaði með mig um bæinn.
Dásamlegt að getað heilsað skrítnum rakara í Kommahöllinni, séð breytingar á húsalitum og fl. kringum Torgið. Síðan fórum við frændurnir og kíktum á þróun mála í gömlum sögufrægum “Gettó Billa- og hótellsbakgarði.”
En þar gerðist ýmislegt í denn sem ekki má segja frá.
Svo hittum við Hálfdán hótelstjóra og hann fór með okkur í góðan fræðslutúr um allar breytingar sem er verið að vinna í í bakgarðinum sem og í gamla danssalnum á Hótel Siglunes.
Þar á eftir skoðuðum við skurði fyrir jarðvegskipti við undirbúningsvinnu, fyrir nýjar götur á gamla malarvellinum, en úr þessum skrurðum komu ekki upp neinar KÁ-ESS fornminjar.
Ekki einu sinni gamlir markmannshanskar sem ég tíndi þarna í malardrullsvaðinu á síðustu öld.
KÁ-ESS! ALDUR OG FYRRI STÖRF. 40 MYNDIR OG SKOPTEIKNINGAR
Svo löbbuðum við út Hvanneyrarbrautina og þar bað ég Ægir að sýna mér meira frá þessu fallega húsi og garði sem stendur á horninu á Túngötu og Hvanneyrarbraut (sem er líka sundurslitin gata) Frændi settist síðan með mig á fallegum bekk í garðinum með útsýni út fjörðinn. Þetta er svona lygasögubekkur fyrir gamla karla sem taka í nefið og segjar sjóarasögur sagði ég úr lófanum á frænda og stundi yfir fegurð fjarðarins.
Allt í einu birtist þýski Siglfirðingurinn Helmut, sem á þennan garð og vinur hans í þjóðlegum lopapeysum og tókum við spjall saman og svo missti ég út mér að ég hafði vísst haft akkúrat þennan garð í huga í einni af mínum smásögum.
STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND
Ég mundi ekki hvað þessi saga mín hét, en ég lofaði Helmut að ég myndi senda Ægi frænda slóð á söguna. Frændi svaraði um hæl að hann ætlaði að skreppa heim og prenta söguna út á pappír.
Takk 🙏 kæri frændi, þetta er líklega fyrsta í skiptið sem smásaga eftir mig er birt á pappír. Næst þegar við hittumst, þá syngjum við saman Stuðmannalagið, Ofboðslega frægur… og svo tek ég í höndina á þér.
Siglufjörður er í dag síldarsögu- listsköpunnar og menningarvörslu fjörður!
Síldin lét sig hverfa… en skildi eftir sig merkilega og einstaka sögu bæjar !
Þannig sé ég Siglufjörð í dag, kannski er það þannig að fjarlægðin geri fjöllin blá og mig meira heimþráa skrítinn?
En þetta er allt svo augljóst þegar maður sér fréttir og myndir á netinu undanfarnar vikur og það sjá þetta allir hver með sínu nefi hvort sem það eru ferða- eða heimþráafólk sem kemur heim á Sigló.
Allt bæjarumhverfið, fjöllin og fjörðurinn segja í rauninni söguna sjálf, þessi saga liggur hreinlega í loftinu sem þú andar að Þér.
Allir taka þátt í að fegra bæinn, laga og gera upp hús. Samkomuhús og önnur hýbýli fá nýtt innihald og aðalmarkmiðið í kannski 5-6 húsum er einmitt listsköpun. Þátttakan er mikil í að skapa þetta fallega sameigilega Siglufjarðarlistaverk, jafnt heimafólk sem aðfluttir, sem vonandi rétt eins og Helmut sagði, finna að maður verður strax Siglfirðingur, hvort sem maður sé fæddur hér eða ekki, eða bara venjulegur tímabundinn sumarhúsaeigandi.
Þetta botnar í gamalli hefð sem kemur úr síldarsögunni, það var þörf fyrir alla og allir eru þar með hjartanlega velkomnir.
Það er líka mikil samstaða um að halda sögunni lifandi, svo óendanlega margir sem leggja hönd á plóg, flest allir í óeigingjarni sjálfboðavinnu.
Sögu og greina skrif mín eru líka sprottin upp úr heimþrá
Að ég í minni vinnuþreytu mundi ekki nafnið á minni eigin smásögu, er kannski ekki svo skrítið, því eftir að ég kvaddi Helmut og yfirgaf lófann á frænda sem bar mig í þessum stafræna Siglósumarblíðu göngutúr. Fór ég inná trölli.is og leitaði að sögunni og svo sló það mig allt í einu að ég er að nálgast 150 birtingar af sögum, greinum og myndasögusyrpum.
Til gamans má geta að vefmiðillinn trölli.is var setur í loftið 1 maj 2018.
Í samalögðu greinasafni Trölla er í dag hægt að lesa 270 tímalausar fræðandi sögur og greinar, þær innihalda líka fleiri hundruð ljósmyndir.
Að ógleymdum þeim óteljandi fjölda af sögum og ljósmyndum sem til eru á gömlu góðu sigló.is, heimasíðunni, heimildasíðum Steingríms Kristins og að sjálfsögðu á Síldarminjasafni Íslands, svo eitthvað sé nefnt.
Í rauninni er mér saman hvort 1 eða 1000 lesa mínar greinar, mikilvægast er að þeir sem lesa njóti þess.
En flettingar á þessum litla vefmiðli eru miklu miklu fleiri en fólki grunar í öllu þessari vefsíðuhafi sem alnetið er.
Það gleður mig t.d. mikið að sagan um Haförninn með 70 ljósmyndum Steingríms Kristinssonar, margar hverjar framkallaðar um borð í þessu merkilega Siglfirska skipi, sé að nálgast 4.000 flettingar och um 940 deilingar.
HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.
Að skrifa sögur og pistla er árátta sem hefur búið lengi í minni heimþrá, það hjálpar að dreyma sig til baka inn í ljúfa barnæsku í fögrum firði.
Þetta snýst einnig um viljan til að ekki gleyma neinu og að skrá og skrifa og grúska í heimildum og gömlum ljósmyndum er mér hvíld frá hversdagsleika lífsins og löngum vinnudögum.
Að aðrir þekki og sjái sjálfan sig í því sem ég skrifa er ekkert skrítið fyrir mig, manneskjur eiga sér alltaf miklu meira sameiginlegt en við höldum. Jafnvel þegar við erum í stíði við hvort annað erum við samt venjulegt fólk, sem á sér sögu sem er vert að muna og verja.
Okkur ber einnig öllum skylda till að bera söguna áfram í hendur næstu kynslóða, því sá sem ekki þekkir sína eigin sögu og veit ekki hvaðan hann/hún kemur, veit þá ekki heldur hvert hann/hún er að fara í framtíðinni.
Það er mér huggun í harmi í að komast ekki heim, að um svona heimþráarhelgar t.d eins og þessa verslunarmannahelgi, hvað það er gaman að sjá að ýmsar sögur og myndasyrpusögur hér á trölli.is fara aftur og aftur af stað.
Siglfirðingar og aðrir velunnarar fjarðarinns hittast og eru að segja hvor öðrum Siglóminningasögur og þá segir kannski einhver:
Bíddu aðeins!
Ég held sveimérþá að Nonni Björgvins eða einhver annar sögukarl/kerling, hafi birt eitthvað bull og myndir um þetta….
… Eða voru það Gunnar Trausti hennar Binnu á Túninu og vinkonur hans sem skrifuðu eitthvað um þetta í Siglfirðingablaðið?
Ha! Eruð þið Siglfirðingar með eiginn prentaða blaðaútgáfu líka?
Það hálfa væri nú nóg af þessu endalausa sögukjaftæði frá ykkur.
Halló halló Hafnarfjörður!… Hvaða læti eru þetta?
Við eru reyndar með eigin útvarpstöð líka, FM Trölli, gleymdi ég að nefna.
Nei, hættu nú alveg… eigin útvarpsstöð… til hvers???
Æi… Okkur finnst þetta gaman og svo erum við líka svo vön við gera hlutina bara sjálf.
En svona eru sögur um lífið á Sigló, sagðar, sendar og útvarpað út um allan heim.
Pétur Pan er Siglfirskur mömmurass!
Snipp, snapp, snut!
Nu är sagan slut.
Sárar heimþráa og Siglósaknaðar kveðjur til ykkar alla.
Nonni Björgvins.
Kveðið á sandi
Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland
nú á ég hvergi heima.
Kristján Jónsson fjallaskáld / texti lánaður frá Snerpa.is
Pistlahöfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðuljósmynd:
Þórarinn Hannesson
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON