Gerð púttvallar sem Félag eldri borgara á Siglufirði stendur fyrir, hefur gengið vel í sumar.

Völlurinn stendur við Hvanneyrabraut og var fyrsta skóflustungan tekin þann 20. ágúst 2019.

Grasspretta gengur vel, enda hefur félagið fengið góðan frið til að græða upp svæðið, búist er við að hægt verði að hirða grasið kerfisbundið seinna í sumar og verði farið að spila á vellinum af fullum krafti næsta sumar.

Félag eldri borgara stendur einnig fyrir því að reisa hús við púttvöllinn og var þar reisugildi í gær eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Sveinn Snævar Þorsteinsson tók af framkvæmdunum.

Húsið verður notað undir búnað vallarins, fyrirhugað er að hafa borð og bekki á pallinum fyrir framan húsið. Einnig verða bekkir meðfram vellinum, bæði fyrir þá sem spila og þá sem vilja fylgjast með.

Kvenfélagið Von hefur ákveðið að gefa félaginu bekki í minningu látinna formanna Vonar.

Ákveðið hefur verið að gróðursetja runna meðfram vellinum við Hvanneyrabraut og fá þar gott skjól í fyllingu tímans.

Í fyrravetur hélt Ingvar A. Guðmundsson formaður Félags eldri borgara námskeið í pútti og sóttu um 30 manns námskeiðið.

Félagsstarf eldri borgara hefur ekki farið varhluta af ástandinu sem hefur skapast útaf Covid-19 í þjóðfélaginu, en stefnt er að því að hafa framhaldsnámskeið í haust og miðað við áhugann verður það eflaust vel sótt. Fer þó framkvæmdin eftir sóttvarnarreglum þegar þar að kemur.

Framkvæmdakostnaður á árinu 2019 vegna jarðvegsvinnu púttvallarins nam kr. 1.727.529 sem greiddur var af félaginu m.a. með styrk úr Samfélagssjóði SPS. Félagið leggur til fjármuni vegna geymsluhúss og annarrar aðstöðu ásamt búnaði við völlinn sem áætlað er að kosti kr. 772.471,- og Fjallabyggð styrkir félagið við framkvæmdir á gróðurlagi púttvallarins.

Sjá eldri fréttir:
PÚTTVÖLLUR Í GRENDARKYNNINGU
FYRSTA SKÓFLUSTUNGAN TEKIN AÐ NÝJUM PÚTTVELLI Á SIGLUFIRÐI
FJALLABYGGÐ STYRKIR GERÐ PÚTTVALLAR

Hægt er að smella á myndir til að sjá þær stærri

Myndir/Sveinn Snævar Þorsteinsson