Laufskálaréttarhelgin tókst vel til að sögn Lögreglunnar á Norðurlandi vestra og var mikill fjöldi hesta og manna saman kominn í Skagafirðinum þar sem veðrið lék við viðstadda.

Fóru réttirnar vel fram sem og viðburðir tengdir helginni. Á áttunda tug ökumanna voru stöðvaðir fyrir ýmiss umferðarlagabrot og var þar of hraður akstur mest áberandi.

Þrjú fíkniefnamál komu upp á helginni en um var að ræða talsvert magn fíkniefna er talið er að hafi verið ætluð til sölu á svæðinu. Þau efni komust því ekki í umferð og er það vel. Naut lögreglan aðstoðar fíkniefnaleitarhunds og þjálfara lögreglunnar á Austurlandi en fjöldi lögreglumanna stóð vaktina um helgina.

Mikill mannfjöldi var samankominn í Laufskálarétt

Fyrri part vikunnar lagði lögreglan á Norðurlandi vestra hald á umtalsvert magn fíkniefna. Þar var um að ræða bæði kannabisefni og örvandi efna sem talin eru hafa verið ætluð til sölu. Þá voru, í vikunni sem leið, sex ökumenn kærðir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana og -fíkniefna.

Lögreglan minnir enn og aftur á fíkniefnasímann 800-5005, sem er gjaldfrjálst símanúmer, þar sem unnt er að koma á framfæri ábendingum um fíkniefnamál.