Lögreglumenn hjá embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra ætlar að fylgjast sérstaklega með ástandi á ljósabúnaði ökutækja, notkun öryggisbelta og farsíma við akstur í komandi viku, 18. – 24. nóvember.

Því miður er alltaf eitthvað um að ljósabúnaður sé ekki eins og hann á að vera, getur það verið af þeirri einföldu ástæðu að eitthvað sé bilað eða skipta þurfi um perur og svo hins vegar bara sú einfalda ástæða að ökumenn átta sig ekki á því hvernig kveikja eigi á ljósabúnaðinum í samræmi við gildandi reglur og þarfir hverju sinni.

Margir halda að þetta bara gerist allt sjálfvirkt en svo er ekki og því ættu allir ökumenn að kynna sér með hvaða hætti kveikja skuli á ljósum á þeirri bifreið sem þeir eru á hverju sinni. Allt of algengt er að einungis sé kveikt á dagljósum ökutækja sem mörg hver hafa þá þann galla að engin ljós eru tendruð aftan á sem getur skapað stórhættu fyrir aðra vegfarendur.

Lögreglan hvetur alla ökumenn til að fara yfir ljósabúnað ökutækja sinna og tryggja að hann sé í lagi og virki og þá einnig að þeir kunni að nota hann rétt.

Varðandi notkun öryggisbelta þarf engin að velkjast í vafa um nauðsyn þess og spenna ávalt beltin, margsannað er að þau bjarga mannslífum og minnka áverka lendi menn í óhöppum eða slysum. Þrátt fyrir það er of stór hluti ökumanna sem og farþega sem nota ekki þennan sjálfsagða öryggisbúnað.

Að vera við stjórn ökutækis krefst fullrar einbeitingar og það að vera með símann í höndunum við slíkar aðstæður skapar öllum stórhættu svo venjum okkur af því í eitt skipti fyrir öll.