Umsvif í hagkerfinu eru mun meiri nú en í fyrstu bylgju heimsfaraldursins. Neysla Íslendinga innanlands er nú svipuð og á sama tíma í fyrra en í fyrstu bylgju faraldursins dróst hún saman um 20%. Umferð á höfuðborgarsvæðinu hefur minnkað töluvert sem líklega endurspeglar aukna fjarvinnu.

Neysla Íslendinga sterkari en í fyrstu bylgju

Gögn um kortaveltu sýna mjög ólíka neysluhegðun Íslendinga í fyrstu og þriðju bylgju faraldursins. Í fyrstu bylgju faraldursins dróst neysla Íslendinga innanlands saman um 20% um tíma. Talið er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 9-14 milljarða króna vegna minni einkaneyslu í samkomubanninu í mars-maí. Að sama skapi óx hún milli ára um nærri sömu fjárhæð vikurnar eftir að slakað var á samkomutakmörkunum í sumar.

Heldur dró úr kortaveltu þegar leið á október og seint í mánuðinum dróst hún lítillega saman miðað við sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er þó engan veginn af sömu stærðargráðu og hann var í fyrstu bylgjunni í vor. Tölur um kortaveltu í þriðju bylgjunni á myndinni hér að neðan ná til 24. október en í vikunni þar á undan dróst kortavelta Íslendinga innanlands saman um 1% á nafnvirði miðað við sama tíma í fyrra. Þegar jafn langt var liðið af fyrstu bylgjunni mældist samdrátturinn þá 21% á nafnvirði.

Færri neysluflokkar verða nú fyrir miklum áhrifum af fjölgun smita

Í fyrstu bylgju faraldursins drógust kaup saman í flestum neysluflokkum en jukust í fáeinum flokkum verslunar, þ.m.t. dagvöru og raftækjum. Í september urðu mun færri neysluflokkar fyrir miklum neikvæðum áhrifum af fjölgun smita eins og sést á myndinni hér að neðan. Kaup á þjónustu, svo sem veitingum og afþreyingu, hafa vissulega orðið fyrir áhrifum af fjölgun smita og sóttvarnaaðgerðum upp á síðkastið en samdrátturinn í september var mun minni en í fyrstu bylgjunni. Á sama tíma hefur vöxtur orðið í m.a. raftækja- og fataverslun.

Umferð á höfuðborgarsvæðinu er um 20% minni en fyrir faraldurinn

Frá því faraldurinn hófst hafa tíðindi af fjölda smita og sóttvarnaraðgerðum haft mikil áhrif á umferð. Þetta skýrist ekki síst af aukinni fjarvinnu, minni hreyfanleika vegna sóttvarnaaðgerða og minni efnahagsumsvifum. Í fyrstu bylgju faraldursins dróst umferð á höfuðborgarsvæðinu þegar mest lét um 40% saman miðað við fyrra ár. Þegar núverandi bylgja faraldursins hófst í september dróst umferð ekki jafn mikið saman til að byrja með en snögg umskipti urðu í byrjun október þegar hertar aðgerðir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sést á mynd hér að neðan, en upphafspunktur fyrstu og þriðju bylgju faraldursins er þar valinn á þeim tímapunkti sem nýgengi smita á landsvísu fór yfir 50 í hvorri bylgju fyrir sig.

Umferð á höfuðborgarsvæðinu er nú um 20% minni en í venjulegu árferði og er samdrátturinn svipaður og hann var þegar jafn langur tími var liðinn af fyrstu bylgjunni. Vísbendingar eru um að umferð dragist meira saman á virkum dögum en um helgar sem styður þá kenningu að samdráttur í umferð sé nú að miklu leyti vegna aukinnar fjarvinnu.

Skoða á vef Stjórnarráðsins