Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis er að hefjast tilraunaverkefni sem snýst um notkun á stafrænum lausnum til að auka aðgengi framhaldsskólanemenda að stoðþjónustu, einkum geðheilbrigðisþjónustu.
Menntaskólinn á Tröllaskaga er einn sex skóla sem taka þátt í verkefninu sem verður unnið á tveimur árum. Það snýst um að tengja saman sérfræðinga, svo sem náms- og starfsráðgjafa og sálfræðinga með fjarþjónustukerfinu Köruconnect. Þess er vænst að verkefnið auki aðgengi nemenda að stuðningi og ráðgjöf, auðveldi starfsmönnum að greina þarfir þeirra og að rýna veitta þjónustu eftirá.
Innleiðing Köruconnect hefst síðar í þessum mánuði og greiðir ráðuneytið kostnað við uppsetningu kerfisins og notkun þann tíma sem tilraunin varir. Skólinn þróar notkun sína sjálfur í takt við þarfir nemenda.
Hinir skólarnir sem taka þátt í verkefninu eru Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólarnir á Akranesi og í Ármúla, Menntaskólinn í Hamrahlíð og Verkmenntaskólinn á Akureyri.
Mynd/Gísli Kristinsson