Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við SÁÁ með það að markmiði að veita börnum sem búa við fíknisjúkdóm aðstandenda aðgang að sálfræðiþjónustu samtakanna. Samningurinn gerir SÁÁ kleift að efla og bæta þjónustu við börnin á miklum álagstímum vegna Covid-19 faraldursins. Þá munu samtökin geta stytt bið eftir þeirri þjónustu sem þau veita.
Félagsmálaráðuneytið mun samkvæmt samningnum fjármagna eina stöðu sálfræðings, til eins árs, til þess að auka sálfræðiþjónustu til barna skjólstæðinga SÁÁ. Einnig munu foreldrar sem leggjast inn á Vog, eða fá göngudeildarþjónustu, fá kynningu á sálfræðiþjónustu barna og þeim sem eiga börn á aldrinum 8-18 ára verður boðið að skrá þau í þjónustu hjá SÁÁ. Markmiðið er að hægt verði að bjóða hverju barni upp á allt að 8 viðtöl hjá sálfræðingi. Þjónustan verður veitt bæði samhliða því sem foreldrar eru í áfengis- og vímuefnameðferð og þegar fjölskylda er á námskeiði í fjölskyldudeild.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „SÁÁ hafa um langt skeið veitt ómetanlega þjónustu til þeirra sem glímt hafa við áfengis- og fíknivandamál. Langvarandi álag og streita sem fylgir áfengis- og fíknivanda foreldra hefur sérstaklega mikil áhrif á börn sem aðstandendur. Þetta skref mun vonandi leiða til þess að okkur sem samfélagi tekst til frambúðar að taka betur utan um börn, hjálpa þeim að skilja og takast á við áhrifin sem þetta hefur á viðkomandi.“
Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Vogi og framkvæmdastjóri lækninga: „Með þessum samningi marka yfirvöld upphaf að nýrri vegferð sem er samstarf SÁÁ og Félagsmálaráðuneytis um einstaka þjónustu fyrir viðkvæman hóp barna. Mjór er til mikils vísir, og við hlökkum til samstarfsins til framtíðar.“
Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur SÁÁ: „Það er mjög ánægjulegt að barnamálaráðherra leggi til í fyrsta sinn opinbert fé til að tryggja stöðu sálfræðings fyrir börn hjá SÁÁ. Þetta er mikilvægt skref í því að tryggja samþætta þjónustu í þágu velferðar barna.“
Mynd: Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Vogi og framkvæmdastjóri lækninga, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur SÁÁ og Einar Hermansson, formaður SÁÁ skrifuðu undir samninginn rafrænt.
Aðsent.