Undanfarnar vikur hafa nokkrir selir (af tegundinni landselir) verið áberandi á Siglufirði. Einn og tveir hafa legið á ísjökum og láta aðfallið og útfallið fleyta sér fram og aftur um grunnsævið á Leirum – stundum stutt frá þjóðveginum og glatt marga ferðamenn. 

Fleiri selir hafast að staðaldri við í fjörunni sunnan við Evangersrústir í austanverðum firðinum í uþb 10 mínútna göngufæri frá enda vegarins við Skútuárbrú. Þar flatmaga þeir á steinum og klöppum við fjöruna og hægt hefur verið að ganga að þeim sem vísum sérstaklega ef sól er á lofti. Fyrir um viku voru þar átta spakir selir sem göngufólk gat virt fyrir sér og myndað.

Ástæða er til að vekja athygli á þessu og hvetja fólk til að bregða sér í selaskoðun – og ekki síst með börnum sínum – og hafa kíki og myndavél með.

Einnig er vert að benda á almennar siðareglur um selaskoðun sem Selasetrið á Hvammstanga kynnir á vefsíðu sinni.

https://selasetur.is/is/selir-vid-island/

Texti og myndir: ÖK