Við erum að drukkna í Siglósögum…

Í raunheimi er oft talað um brothættar byggðir, en þær eru einnig til á veraldarvefnum stóra.
Það er í rauninni skemmtilegt og merkilegt vandamál að við séum að drukkna í Siglósögum. Svona álíka skemmtilegt, að sögulega furðulegt gatnaskipulag bæjarins er vandamál fyrir aðkomufólk, en ekki fyrir bæjarbúa sem kunna söguna á bak við þessi gatnamála furðulegheit.

Sjá meira hér:

Furðulegar götur 1. Hluti

Siglósagan er sögð út um allan bæ, í t.d. götu og húsanöfnum og ekki síst í merkilegum húsum sem hafa skipt um hlutverk og innihald. Mér er það minnistsstætt að fyrir nokkrum árum sagði athugull aðkomumaður eftir farandi:

“Það er nú meira hvað þið Siglfirðingar eruð duglegir í að segja söguna ykkar út um allan bæ, maður getur ekki einu sinni fengið smá pásu frá þessum Siglósögum, þegar maður skreppur inn á salerni á veitingahúsum og hótelum fjarðarins”

Netsögu vandamálið snýst meira um að getað ekki lengur ratað í netbirtum hluta Siglósöguheimsins og æskilegt væri að geta haft einhverskonar yfirsýn yfir allt sem til er á einum stað.

Í þessum pistlahluta, liggur sama stóra spurningin í loftinu:
Viljum við ráða einhverju um þetta sjálf?

Það ánægjulega er að það bætast stanslaust nýir söguhlutar í Siglósöguna. Eins og sjá má hér undir er það staðreynd að fæðingarstaður Íslenskar teiknimyndasögu útgáfu er Siglufjörður, nánar tiltekið í Prentsmiðju Siglufjarðar við Suðurgötu 16.

Myndasöguhátíð Siglufjarðar / Siglufjörður Comics Festival 

Það var með eindæmum gaman að fylgjast með úr fjarlægð og fá fréttir af öllum þeim viðburðum sem fylgdu hátíðinni og eiga allir þeir sem lögðu á sig mikla vinnu við gera þennan Sigósögu kafla meira sýnilegan, miklar þakkir skilið fyrir óeigingjarnt starf.

Einkaskjalasafn.is

Þetta er áhugaverð heimasíða fyrir jafnt almenna sögugrúskara og fræðimenn, gott dæmi um hversu dugleg við erum í að varðveita og skrá skrifuð og prentuð skjöl o. fl .

“…Árið 2012 var skipaður vinnuhópur til að vinna að því að útbúa samskrá yfir einkaskjalasöfn á Íslandi. Verkefni vinnuhópsins voru að safna upplýsingum um einkaskjalasöfn hjá vörslustofnunum á einn stað og bæta þannig aðgengi að heimildaflokknum. Vefurinn var opnaður 16. apríl 2015..” Sjá meira hér: Um vefinn.

Hér getur þú sem sagt fundið út á hvaða safni einkaskjöl og heimildir eru geymdar. ATH. Sjálft efnið birtist þér ekki gegnum netið og magnið af skjölum er mælt í hillusentimetrum.

Segjum sem svo að ef ráðist yrði í að gera Siglósögu vefslóðasafnsíðu í svipuðu formi, þá myndi sá listi telja fleiri þúsundir af vefslóðum. Vandamál vefsögu efnis er að það er ekki alltaf í sömu “veraldarvefs-hillunni.”
Slóðir slitna og deyja, efnið er til, en ekki sýnilegt, ef það er t.d. flutt undir annað lén, eða bara á annan stað innan sama vefsvæðis.

Í rauninni væri hægt ef vilji er fyrir hendi að stofna eigin opinn Siglósögugagnabanka í líkingu við áðurnefnt Vefsafn.is. Því þá eru allar kópíur af efninu á sama stað og hægt að leita í óslitnum slóðum í gömlum heimasíðukópíum sjálfrar heimasíðunnar. Einnig væri hægt að bjóða fólki að skrá og hlaða upp eigin ljósmyndir og sagnagögn og myndi sá gagnagrunnur skapa sig sjálfur með leitarorðum úr skráningarferli og efnislýsingum.
Allt er þetta tæknilega framkvæmanlegt nú þegar í dag og gervigreindin er duglegust í einmitt gagnabanka vinnslu og efnisleit og ekki er lengur til staðar gamalt vandamál varðandi diskapláss, því nú er allt talið í terabætum.

Sigló.is

Siglo.is stendur enn uppi, þökk sé velvild Róberts Guðfinnssonar sem á þetta lén, en rétt eins og ég sjálfur sem á oft erindi á þessa gömlu góðu heimasíðu á leið minni á Ljósmyndasafn Siglufjarðar sjá allir að þar hefur ekkert birst síðan 2018.

Nýir veflesarar geta þó enn um sinn skaplega lesið gömlu heimasíðukóðanna sem standa á bak við uppsetningu síðunnar. Erfiðleikarnir eru þó meiri þegar að leit er gerð í gömlum gagnagrunni Ljósmyndasíðunnar og þarna veit ég að Síldarminjasafn Íslands sem er formlegur eigandi myndasafnsins í dag er að vinna í úrbótum, en þetta er gríðarlega tímafrek og kostnaðarsöm vinna.

Hér hefur pistlahöfundur verulegar áhyggjur af framtíðar aðgangi að öllum þeim Siglfirska sögufjársjóði sem er enn vistaður á þessari gömlu heimasíðu, sem er reyndar ein af elstu bæjarfrétta heimasíðum landsins. Það er vissulega till „backup“ af þessu öllu, hef ég áráðanlegar heimildir fyrir, en það eitt ábyrgist ekki aðgang að öllum þeim greinum, sögum og myndum um lífið á Sigló sem hafa safnast saman þarna í gegnum öll þau ár sem síðan var virk.

Gott dæmi um hvernig maður getur enn dottið óvart inn í lestur og skoðun á gömlum greinum á siglo.is eftir hálf mislukkaða leit, sem oftar en ekki, endar í allt of víðtæku efnismagni, er að allt í einu sér maður gamla mynd/teikningu sem maður taldi sig hafa sé einhvern tímann, en ekki munað hvar, en er til í gamalli greinarseríu á siglo.is: Sem í þessu tilfelli heitir:

Gamla myndin: Jósep og Aðalbúðin. Sem Guðmundur Skarphéðinsson birti í júní 2011, með myndum og skemmtilegum og fræðandi texta eftir Siglfirska fræðimanninn Jónas Ragnarsson.

Þrátt fyrir að Aðalbúðin/Aðalbakarí sé enn bara ein hæð, þá er þetta hús í huga margra Siglfirðinga, enn miðjan á nafla alheimsins. Sjá meira hér: Aðalgata heimsins.

Stofnandi siglo.is, Steingrímur Kristinsson hefur nýlega byrjað á að færa ýmislegt af mínum skrifum á sigló.is yfir á heimildasíðuna sína og er ég honum óendanlega þakklátur, því ég hef ekki hugmynd hversu margar greinar og sögur ég hef birt þar.

Hafa ber í huga að ef að Ljósmyndasafn Siglufjarðar færist á annað lén í betra formi, stendur samt sigló.is eftir með allt sitt gamla frétta og greinar efni og vonandi vill hann Robbi okkar halda áfram að styðja aðgengi okkar að síðunni.

Það er samt ekkert sjálfgefið í því, leigan á “sörverplássi” kostar árlega dágóðan pening.

Heimildasíða Steingríms Kristinssonar

Og stærstur af öllum er Steingrímur, þegar kemur að því að safna saman Siglfirskum sögum og ljósmyndum í stafrænu formi. Aðdáun mín verður takmarkalaus þegar maður gerir sér grein fyrir gagna magninu sem safnast hefur saman á hans heimildasíðum eftir áratuga söfnun. Fyrir utan að vera stofnandi bæði Ljósmyndasafns Siglufjarðar og bæjarfrétta heimasíðunnar sigló.is hefur Steingrímur haldið til haga öðrum eigin heimasíðum og ljósmyndasíðum og er sú elsta frá 1995/96.

Heimildasíður Steingríms eru í rauninni 9 heimasíður.

Í gegnum árin hefur pistalhöfundur átt mikið og gott samstarf við þennan háaldraða stafræna ljósmynda og Siglósögu snilling. Í nýlegu spjalli á Messenger kom fram að hann er með aðgang að 5 Terabæta gagnaplássi fyrir sitt uppsafnaða efni og ég ætla ekki að reyna að skrifa þessa tölu í tölustöfum. Steingrímur er séður karl og hefur þegar tryggt að aðgengi okkar að hans mikla Siglósögugagnabanka sé nokkuð trygg eftir hans daga.

Hér er í rauninni komin góður grunnur af stafrænu Sigló-sögubyggðarsafni.
Það er samt oft erfitt fyrir ókunnuga að rata í allt það söguefni sem til er á heimildasíðum Steingríms.

Bloggheimar Leó Óla

Gott dæmi um brothættar netsögu heimasíður, er þessi Bloggheima síða Siglfirska sögumannsins Leó Ólasonar.

Hér er geymdur hafsjór af sögum, myndum og allskyns Siglfirskum fróðleik sem Leó hefur birt hér allt frá 2008, en ekki mikið síðustu 5-6 ár eða svo. Hann borgar samt samviskulega árlega leigu til eigenda lénsins, sem líklega eru einhverjir Svíar, vill hann meina í netspjalli hér um daginn. Síðan er orðin seig í fléttingum og margar ljósmyndir opnast ekki, greinilega ekki mikið lagt í viðhald og uppfærslur.

Þessu má einna helst líkjast við það að Leó hafi leigt sér sögugeymsluskúr, en leigusalinn leggur ekkert í viðhald. Margir bloggarar á þessari síðu hafa hætt að borga leiguna og hreinlega yfirgefið sitt efni. Undirritaður getur ekki séð að það sé boðið upp á að ýta á einn takka og fá “backup” af sínu Bloggefni og hreinlega flytja út úr lélegu söguleiguhúsnæði.

Sögumaðurinn Leó hefur þó endurunnið mikið af sögum úr sínum Bloggheimum og endurbirt á sigló.is, trölli.is og einnig hafa margar sögur einnig birst í Siglfirðingablaðinu.

Það er þó ánægjulegt að sjá að flettinga og heimsóknar teljarinn er enn í fullu gildi og greinilegt að fólk sækir enn í söguefni Leós á þessari gömlu heimasíðu:

Tölur uppfærðar: 31.8.2024.
Fléttingar í dag: 637. Gestir í dag: 84. Flettingar í gær: 479, Gestir í gær: 21.

Samtals fléttingar frá upphafi: 424.591

Samtals gestir: 46.438

Síldarminjasafn Íslands

Það er svo sem ekkert skrítið að 4500 mans fylgist með fréttum af gangi mála á Facebooksíðu Síldarminjasafns Íslands og á heimasíðunni sild.is er margt og mikið af síldarsöguefni, tónlist og kvikmyndum aðgengilegt fyrir alla.
Það er með eindæmum hvað Siglfirðingum og öllum sem heimsækja safnsvæðið, þykir vænt um þetta safn og hægt er að segja að þarna er ekki bara síldarsaga Siglufjarðar geymd í glæsilegum umbúðum, heldur líka bæjarsál Siglufjarðar.

Heimasíðan er mjög skemmtilega uppsett og undirritaður kemur oft í stafræna heimsókn frá Svíþjóð og er núna mikið að grúska í nýlegri áhugaverðri viðbót, sem kom til safnsins gegnum eftirlifandi ættingja fræðimannsins Benedikts Sigurðssonar. Sjá meira hér: Söltunarstöðvar á Siglufirði.

Heildarásýnd safnsins er ólýsanlega falleg og tilkoma minnisvarða um framlag síldarstúlkanna er dásamleg viðbót, sem og Salthúsið og Síldarkaffi í sama húsi.

Síldarminjasafnið er gott dæmi um kraftinn, dugnaðinn og viljann í að bjarga Siglósöguverðmætum, þeirri uppbyggingarsögu og þakklæti fyrir þá elju megum við aldrei gleyma. Það er sorglegt að nú þurfa faglærðir starfsmenn, enn og aftur, að leggja tíma og fjármuni í að verja safnið fyrir veðri og vatni. Hér verður að koma til sögunnar meiri sameiginleg ábyrgð bæði ríkis og bæjar.

Hafa ber i huga að safnið er aðallega Síldarminja iðnaðarsafn og ekki endilega samtímis byggðasafn, en hér fer samfara móttöku á 30.000 árlegum gestum einnig fram allskyns fræðsla og menningarsamvinna.

Það er aðdáunarvert að sjá hversu sterk hefð er fyrir því að heimsækja eldra fólkið í firðinum og hafa með þeim myndakvöld og spyrja um allt sem það veit um horfinn tíma sem sést í okkar gamla og stórkostlega Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Pistlahöfundur vill gjarnan hafa meiri fókus á ljósmyndasafnið, en að sjálfsögðu er það háð bæði tíma fagfólks og fjármagni safnsins til að sinna þessu verkefni.

Á heimasíðu safnsins stendur eftirfarandi texti varðandi þetta verkefni:

“Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins telur nær 200,000 ljósmyndir… og þar leynast frábærar heimildir um horfna tíma og allt það sem áður var. Það eru ekki bara staðarhættir, húsbyggingar eða þekkt andlit sem marka söguna og lifa í ljósmyndunum – heldur má líka greina þjóðfélagsandann, tískuna, rómantíkina, vinnuna, ástina, erfiðið og ævintýrin...
… Þá er jafnframt horft til þess að hanna nýjan ljósmyndavef til að auka möguleika til miðlunar á ljósmyndasafninu og þeim fjársjóði sem þar leynist og tryggja þar með aðgengi almennings að safnkostinum

Þar til nýr ljósmyndavefur lítur dagsins ljós má skoða hluta myndefnis úr safnkostinum hér . “

Það er einlæg ósk mín að hinir fjölmörgu vildarvinir fjarðarins fagra, gætu sameinast um að styðja fjárhagslega við þetta mikla verkefni, sem mun veita okkur ómælda ánægju í að skoða og deila sögum um það sem sést á myndunum og ekki síst sjá horfin hversdagsleika í þessum 200.000 ljósmyndum.

Því eins og áður er nefnt er orðið virkilega erfitt að leita að myndum í þeim gamla gagnagrunni sem er á sigló.is. Það var einnig upprunaleg ætlun fyrrverandi eigenda safnsins, Róberts Guðfinnssonar og Steingríms Kristinssonar að þessi mikli ljósmyndafjársjóður kæmist í hendurnar á sögufagfólki og það fólk er svo sannarlega til staðar á Síldarminjasafni Ísland.

Snókur.is

Þessi gamla góða og fræðandi heimasíða, er enn í nokkuð góðu lagi, einhverjar smá villur koma þó upp varðandi “Adoble Flash player” sem vill ekki sýna okkur sumar kortamyndir. Gott dæmi um elju og áhugamennsku í að safna örnafnaheimildum og kunnáttu um nærumhverfi okkar sem hefði getað týnst, ef ekki væru til áhugasögusafnarar og vilja þeirra að sitja yfir gömlum rykugum skjölum og koma þeim til okkar í stafrænu formi.

Hér eru geymd gríðarleg söguverðmæti og tryggja verður að þau séu okkur öllum aðgengileg um alla framtíð og núverandi ábyrgðaraðilar síðunnar, sem mig minnir að sé í dag, sjálft bæjarfélagið, Fjallabyggð. Fær hér smá áminningu um að það kannski er vert að nú þegar, kíkja betur á ýmislegt varðandi t.d. viðhald o.fl.

Hér hefur pistlahöfundur oft sótt innblástur úr örnefnanöfnum, við skrif á ýmsum þjóðsagnakendum smásögum sem hafa birst á trölli.is. Fyrir fjallgöngufólk, ferðamenn og ekki síst leiðsögumenn eru örnefni nyrst á Tröllaskaga áhugavert umtalsefni. Stórkostleg staðarnöfn, með sögu á bak við það sem þú sérð í umhverfinu er skemmtilegt umræðuefni fyrir okkur öll, eins og t.d. AfglapaskarðÁlfhóll, Illviðrishnjúkur, Bangsagjá o.fl.

Byggðarsagan okkar býr og leynist í svo mörgum ólíkum þáttum, jafnt í örnöfnum, barnæskuleikjum og hversdagsstörfum…

Siglfirðingablaðið / Siglfirðingafélagið

Átthagafélagið okkar í Reykjavík og nágrenni hefur ætið verið með öfluga starfsemi og hér er gott dæmi um heimasíðu sem ekki virðist vera mikið í notkun lengur, en allt eldra félagssöguefni og myndir frá 2012 – 2018 er enn til staðar í læsilegu formi á Siglfirðingafélagið.is. Rétt eins og svo mörg önnur félög veit maður ekki alveg í hvorn stafræna fótinn maður á að stíga eftir að Facebook æðið þægilega kom til sögunnar.

Facebooksíða Siglfirðingafélagsins er með 2.400 fylgjendur (sem líklega eru fleiri en skráðir meðlimir) og þar er mikið rætt um Siglfirskar sögur og ljósmyndir, einfaldlega vegna þess að þar er auðvelt að birta efni og ná samdægurs út til meðlimi félagsins.

Félagið hefur í áratugi gefið út fréttablað og þar er hafsjór af Siglfirskum sögum og myndum. Pistlahöfundur bíður oft spenntur eftir pakka frá ritstjóranum Gunnar Trausta og eftir eigin lestur kem ég blaðinu áfram í hendur Siglfirðinga sem búa víðs vegar um Svíðþjóð. Vandamál dagsins er að prentun er dýr og póstdreifing líka og hér getur pistlahöfundur mælt með því að eftir að dreifingu blaðsins til innanfélagsfólks, sé blaðið sent til annarra í stafrænu PDF formati. Þetta var stundum gert hér áður fyrr og fann ég t.d. stóra 84 bls. 50 ára afmælisrit Siglfirðingafélagsins á Sigló.is. Sjá blaðið hér: 50 ára afmælisrit, 2 tbl. 24 árg. Nr 50. 11 október 2011.pdf , en hér er mjög auðvelt að fletta sig í gegnum blaðið frá forsíðu til bls. 84.

Þrátt fyrir að flest öll eintök af Siglfirðingablaðinu sér aðgengileg á timarit.is finnst mörgum eldri borgurum lesning og leit þar frekar erfið. Það væri kannski ekkert stórmál að safna eldri blöðum í pdf formati undir eigin flík í t.d. Greinar á trölli.is. Flest öll skjátæki birta pdf skjöl án nokkurra vandræða í dag og veit ég fyrir víst að mörgum myndi finnast það gaman að fletta í mörgum gömlum Siglósögum og myndum sem þarna hafa birst í áratugi.

Mæli með því að stjórn Siglfirðingafélagsins gefi sér tíma í að ræða stafræna söguvarðvörslu og aðgegi að strafænu efni félagasins, nú og í framtíðinni.

Safnasíða Þórs Jóhannssonar

Gamli góði bekkjarbróðir minn Þór Jóhannsson er þekktur Siglfirskur safnari og það er með eindæmum skemmtilegt að fletta sig í gegnum mikið af þeim 3700 ljósmyndum sem eru á flickr safnsíðunni hans. Þór hefur safnað mörgu sem enginn af okkur hefði lagt mikið gildi í að spara í denn. Allskyns bæklingar og límmiðar, bíó og leikfélagsprógrömm sem segja mikla Siglósögu. Revíu og árshátíðartextar t.d. gefa okkur líka innsýn í bæjarlífið og sýna okkur hæfileika og vilja Siglfirðinga í að skemmta sjálfum sér og öðrum.

Hér er gott dæmi um hvað þarna er hægt finna og skoða:

Smelltu á aðra hvora myndina og hún birtist þér stærri. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Hjálpræðishershúsið er eitt af mörgum sögufrægum Siglfirskum húsum sem hafa fengið nýtt hlutverk í bæjarsögunni. Sjá meira hér: Herhúsið Á Siglufirði.

Steingrímur Kristins hjálpaði Þór við uppsetningu síðunnar og von mín er stór að að Þór bæti í fleiri myndum og köflum í sitt stórkostlega stafræna safn og kannski hugsi pínu út í hvað verður um hans safn eftir hans daga.


Ljósmyndadellubærinn Siglufjörður

Af einhverri merkilegri ástæðu, sem kannski er ekki til nein ein sérstök útskýring á, hefur bæði áhugamanna og atvinnuljósmyndun, átt stórt hlutverk í að varðveita Siglósögunna. Minn eigin áhugi kom úr ljósmyndadellu ættingja i föðurætt og kennslu frá ýmsum ljósmynda reynsluboltum fjarðarins í fjölbreytilegu æskulýðstarfi í okkar gamla góða Æskó.

Hér áður fyrr birtust einnig margar myndir í fjölbreytilegri bæjarblaðaútgáfu og bæjarbúar fóru oft í skemmti heimsóknir hjá Kristfinni Guðjónssyni á Ljósmyndastofu Siglufjarðar. Sjá meira hér: GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / Myndasyrpusaga, 2200 mans hefur flett þessari myndasyrpusögu á trölli.is.

Þegar kemur að mest lesnu greinum mínum á trölli.is standa samantektir á myndasyrpusögum út og sýndir hversu mikla ánægju almenningur hefur af gömlum góðum bæjarsögu ljósmyndum.

Dæmi 1: (3.300 fléttingar)

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.


Dæmi 2: (3.200 fléttingar)

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 myndir)

Listi yfir góða Siglfirska ljósmyndara yrði langur og hefur pistlahöfundur nokkrar áhyggjur af vitneskju um að bæði núlifandi aldraðir ljósmyndarar og ættingar látinna, hafa kannski ekki tæknikunnáttu í innskönnun á sögulegum pappírsmyndum , slidesmyndum eða filmum og kvikmyndaefni. Hér væri æskilegt að fólk geti sótt sér ráð um eigin stafræna varðvörslu og jafnvel fengið aðstoð við að koma efninu á framfæri á t.d. youtube.com, en þar er til dágóður slatti af ýmsu Siglfirsku sögulegu myndefni.

Á Akureyri er til einkarekin þjónusta sem hjálpar fólki gegn greiðslu, að ná saman sínum ævi- og ættarsögum o.fl. og fá þá notendur að lokum sögupakka á usb minni.
Sjá meira hér: Sagnalist.is/ Sagan mín

Gott dæmi um að saga bæjar getur orðið að peningum, er þessi usb minnislykill sem var seldur til styrktar Skíðafélagi Siglufjarðar. Ekkert mál að setja 5 sjónvarpsþætti í góðum gæðum á fyrirferðarlítið minni.
En bara á þeim örfáu árum sem liðin eru frá þessum atburði, hefur gagna geymsla færst mikið yfir í veraldarvefsský og hraðinn á netinu hefur aukist gríðarlega. Það tók t.d. bara nokkrar mínútur fyrir undirritaðan við snjallsímaskipti að fá rúmlega 9000 ljósmyndir frá iCloud. Nokkuð ljóst að framtíð gagnabanka af ýmsu tagi er í veraldarvefsskýjum, einfaldlega vegna þess að okkur þykir þetta bæði þægilegt og einfalt.

Varðandi ljósmyndadellu nútímans sem við lifum í dag, er kannski áhugavert fyrir lesendur að vita eftirfarandi:
Bara á t.d. Facebook, hleður heimurinn upp 350 miljón myndum á dag. Samanlagt er áætlað að 1,8 milljarðar ljósmynda birtist og deilist á veraldarvefnum á hverju degi ársins. Yfir 99,9 % af þeim ljósmyndum, hafa líklega akkúrat EKKERT sögulegt varðvörslu gildi. Heimild: Fotosidan.se

Það má einnig að minna á, að heima á Sigló er einnig til stórmerkilegt ljósmyndavélasögusafn. Sjá meira hér: Saga Fotografica

Þegar kemur að því að deyfa Sigló heimþrá, er gaman að fylgjast með Facebook vinum sem taka mikið af myndum, meira og minna daglega í sínum göngutúrum víðs vegar um fjörðinn fagra.

Nefna verður þó sérstaklega, að áhugaljósmyndarinn Björn Valdimarsson heldur úti heimasíðu þar sem hann birtir skemmtilegar Fjallabyggðar hversdagsleika ljósmyndir. Einstaklega skemmtilega uppsett heimasíða hjá honum og ein af þessum síðum sem ekki mega hverfa ásýnd okkar í framtíðinni.

Heimasíða: Björn Valdimarsson

Að lokum…

Lesendur geta séð þessa samantekt í tveimur birtingar hlutum, sem tilraun til að benda á brothættar Sigló sögubyggðir veraldarvefsins og vonandi getur fyrst og fremst hver og einn sem les, tekið ábyrgð á sínu söguefni. Pistlahöfundur bendir einnig á þörfina fyrir sameiginlega ábyrgð á gagnasöfnum og varðvörslu gagna fyrir ókomna framtíð. Einnig er hægt líka að sjá þessa samantekt sem tilraun til að safna saman á sama stað og benda á, bæði núlifandi og á nú þegar “dauðar” og brothættar heimasíður, þar sem Siglfirskt söguefni er að finna. Samanlagt eru yfir 80 vefssíðuslóðir sýnilegar í þessum tveggja hluta pistli.

Samt er þetta að sjálfsögðu, engan veginn tæmandi lýsing og upptalning á öllu Siglósögu tengdu efni veraldarvefsins. Það er samt ekki hægt að segja annað, en að við Siglfirðingar erum söguríkt fólk.

Siglfirsk frásagnarhefð og sögu varðveisla. 1 hluti

Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í greinartexta.