Því miður kom upp bilun í farsímasendi Símans á Siglufirði á sunnudag sem stóð yfir í sjö klukkustundir. Við bilun sem þessa sem hefur áhrif á stóru svæði eða í heilu byggðarlagi hefði viðbragðsáætlun Símans átt að hrökkva í gang þar sem samskiptum við viðskiptavini, samstarfs- og viðbragðsaðila er sinnt. Slík viðbrögð eru hluti af vinnubrögðum Símans og hafa verið um langt árabil, því miður brugðust þau ferli á sunnudag þannig að samskipti Símans út á við um áhrif og stöðu bilunarinnar urðu engin.
Vegna mannlegra mistaka fóru skilaboð um áhrif og alvaraleika bilunarinnar ekki áfram innanhúss hjá Símanum til þeirra sem hefðu átt að virkja viðbragðsáætlun sem orsakaði þetta samskiptaleysi. Aðeins tæknifólk var kallað til sem gat greint bilunina sjálfa og að lokum, eftir að hafa sent varahlut norður komið farsímasambandi í samt lag.
Síminn vill biðja íbúa Siglufjarðar innilegrar afsökunar á þessu samskiptaleysi og hversu langan tíma bilunin stóð yfir. „Við brugðumst trausti viðskiptavina okkar og þurfum að standa okkur betur þegar að mikið liggur við. Það er og verður okkar keppikefli.“ segir Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans.