Þrjár vinkonur sem kalla sig Barónessurnar hafa sent frá sér YouTube myndband þar sem þær syngja saman úr sóttkví lag sem ber íslenska titilinn: “Þann dag”. Lagið er nú þegar komið í spilun á FM Trölla.

Lagið er úr kvikmyndinni Moana, en íslenska textann samdi ein þeirra vinkvenna, Inga Auðbjörg K. Straumland, en auk hennar syngja mágkonur hennar, systurnar Lísa Margrét Gunnarsdóttir og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir. Inga er gift Helga Hrafni Gunnarssyni, sem er bróðir þeirra Arndísar og Lísu. Þess má geta að Lísa á einmitt afmæli í dag, 6. maí. Trölli.is sendir henni heillaóskir í tilefni dagsins.

Þær stöllur komu fram í viðtali á FM Trölla í þættinum Tíu Dropar sem var á dagskrá 26. apríl. Viðtalið, sem tekið var á fjarfundi milli Frakklands, Íslands og Kanaríeyja, má heyra á trolli.is/fm-trolli og byrjar rétt fyrir mínútu 83 í þættinum frá 26. apríl.

Lagið var sungið úr sóttkví, tekið upp á farsíma á Íslandi og í Frakklandi, en pabbi og tengdapabbi þeirra, Gunnar Smári Helgason hljóðblandaði á Kanarí.

Textann og nánari upplýsingar um höfunda má finna undir myndbandinu á YouTube.