Rétt í þessu lauk fundi almannavarna með viðbragðsaðilum vegna óveðursins sem mun skella á Norðanlands í fyrramálið.

Lægðin sem gengur upp að landinu svipar til lægðar sem gekk inn á land í september 2012 og olli miklum fjárskaða. Í samanburði við lægðina í desember 2019 er ekki eins mikill vindur í veðrinu.

Úrkomumagnið verður hins vega óhemju mikið samkv. spám. Líklega slydda við sjó en snjókoma til fjalla. Appelsínugular viðvaranir munu áfram gilda en sett hefur verið á rauð veðurviðvörun á Norðurlandi eystra frá klukkan 13-20 á morgun sunnudag. Það eru því líkur á að almannavarnir lýsi yfir óvissustigi eða hættustigi almannavarna á Norðausturlandi.

Starfsmenn þjónustumiðstöðvar Fjallabyggðar munu verða í viðbragðsstöðu í fyrramálið vegna óveðurs og eru eigendur báta í höfnum Fjallabyggðar hvattir til að fara yfir landfestar báta sinna. Haft hefur verið samband við tengiliði í Hornbrekku, sjúkrahúsinu/Skálarhlíð og heimilinu Lindargötu 2, m.t.t. ef rafmagn fer af og þá eru ferðaþjónustuaðilar beðnir um að koma viðvörunum til ferðamanna.

Fastlega er gert ráð fyrir rafmagnstruflunum á Norðausturlandi vegna álags á dreifikerfi. Vegagerðin mun loka helstu fjallvegum og vegum og verður það líklega gert fyrr heldur í síðasta áhlaupi fyrir tveimur vikum til þess að forða því að ferðamenn fari af stað.

Þegar hefur verið ákveðið að Aðgerðarstjórnir almannavarna á Akureyri og Húsavík muni verða virkjaðar á meðan óveðrið gengur yfir og vettvangsstjórn fyrir Tröllaskaga verður einnig virkjuð ef þörf krefur og verður hún þá staðsett á lögreglustöðinni á Siglufirði.

Lágmarks mannskapur verður í varðskipinu Freyju til þess að verja skipið fyrir veðri. Til skoðunar er að senda varðskipið Þór norður fyrir land á meðan lægðin gengur yfir.