Siglufjörður er einkennilegur staður sem þúsundir manns stoltir kenna sig við. En bara örlítið brot af öllum Siglfirðingum heimsins búa þar núna.“

Þetta eru STÓR orð sem eru sögð í þessari frábæru setningu sem kom upp í netspjalli við Siglfirðinginn og vin minn Kidda Matt (Kristján Jóhann Matthíasson) hér um daginn og í framhaldi af því fékk ég bæði söguna um tilurð þessa orða og ljósmynd sem sýna að orðin stóru standa nú á krossi á leiði bróður hans.

Hins mikla Siglfirðings, Péturs Björgvins Matthíasson í gamla kirkjugarðinum í Keflavík.

(Hafið ekki áhyggjur. Sagan um orðin stóru kemur seinna í pistlinum.)

Systur og bróðir við gröf Péturs Björgvins Matthíassonar í gamla kirkjugarðinum í Keflavík. Frá vinstri: Braghildur Sif Little, Matthildur Guðmunda, Halldóra Sigurjóna, Stella María og Kristján Jóhann. Ljósmyndari: Ásgrímur Ari Little.
P.S. Hárgreiðslan á Siglfirsku systrunum á myndinni getum við að mestu leyti afsakað vegna blásturs frá hinu fræga “Keflavíkur roklogni”.

Umræðan byrjaði með því að ég var að segja Kidda frá því að ég væri að skrifa pistill með greinartitlinum: „Siglfirðingar eru eins og VÍRUS og hafa dreift sér út um allan heim

Að svo sé, er tilfinning sem hefur svo oft komið yfir mig og marga aðra þegar þeir aftur og aftur rekast á Siglfirðinga og fólk sem tengist firðinum í öllu mögulegu og ómögulegu samhengi og hjá mér bættust við spurningar þegar ég fékk skoðunar/flettinga tölur frá ritstjórn Trölla.is sem er í mínum huga frekar lítill en góður Siglfirskur/Norðlenskur miðill.

En þar kemur í ljós að um og yfir 35% allra flettinga á Trölli.is koma frá útlöndum. 

Samræmd vefmæling frá Modernus síðustu vikuna í desember 2020.

Þessi magnaða pistil titla setning er sögð í bæði gríni og alvöru og snýst alls ekki um að við Siglfirðingar lítum svo stórt á okkur sjálfa eða teljum okkur betri en aðra.
Nei…
En okkur Siglfirðingum og velunnurum fjarðarins fagra sem á sér svo sérstaka og öðruvísi sögu, finnst gaman að segja að Siglufjörður sé og verði alltaf nafli alheimsins og að Aðalgatan sé aðalgata heimsins.
Það er líka gaman að vera með endalausan rembing um að hvergi annars staðar sé betra „ LOGN“ og hef ég sjálfur tekið þátt í því og skrifað heila grein með ljósmyndum og “alles” sem sanna það.

Sjá meira um Siglfirska LOGNIÐ hér:
SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

Vetrarstilla á Sigló. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Svo er hér líka alltaf gott vetrarveður með tilheyrandi snjóþyngd og besta skíðafærið á öllu landinu, sama hvernig viðrar í rauninni og jafnvel þó að snjóflóð falli á skíðasvæðið í Skarðinu, þá er samt besta færið þar. Það er því miður bara undir snjóflóði akkúrat núna.

En Siglfirðingar nær og fjær hafa ALLIR dauðans áhyggjur af þróun mála og svo rífum við kjaft í fjölmiðlum líka og bendum á að ekki sé lengur hægt að réttlæta einangrun og óöryggi bæjarbúa með orðum frá skilningslausum „borgarbúum“ um að nú sé nóg komið af frekju og nöldri um ný/fleiri göng og betri varnargarða með ærnum tilkostnaði bara til þess eins að einhverjar örfáar hræður geti búið þarna.

Samt elska borgarbúar og aðrir að koma í heimsókn í þennan síldarsögufræga, vetrarparadísa fagra fjörð. En ég veit ekki alveg hver á að þjónusta gestina þegar engin býr þarna lengur. Það er sorglegt að það er staðreynd að þrátt fyrir opnun Héðinsfjarðargangna og t.d. þá uppbyggingu sem myndaðist kringum starfsemi fyrirtækja Róberts Guðfinnssonar þá fækkar bæjarbúum með fasta búsetu.
Sumir hafa í landsbyggðarfordómum sínum og fáfræði sagt að menntað fólk vilji ekki búa úti á landi. En það er bara helvítis lygi, því Róbert er með biðlista í vasanum með nöfnum á hámenntuðu fólki sem getur varla beðið eftir því að fá að búa og vinna á Siglufirði.

En „sumarhúsa/íbúða-íbúagestum“ fjölgar og ég kann enga skýringu á þessari þróun mála.

En eins og alltaf hefur verið, þá eru allir velkomnir á Sigló.

En snúum okkur aftur að sögunni sem býr í stórum staðhæfingum í orðunum:
„Athugið að SIGLFIRÐINGAR eru fleiri en Íslendingar.

Setningin er upprunalega sögð af Andrési lækni á Siglufirði, en hann er ekki fæddur þar, en hann varð strax eitilharður og sannur Siglfirðingur. Hann sá og upplifði þetta örugglega fljótlega eftir að hann flutti á Sigló og kannski var honum brugðið við þá staðreynd að svo margir kenna sig við þennan einangraða fjörð. Orðin ganga síðan í arf til Önnu dóttur hans sem áratugum seinna er að hjúkra fárveikum Siglfirðing suður í Keflavík og þá segir hún þetta við Pétur Matt rétt áður en hann lést.
Honum finnst þetta alveg dásamlegt og… fyndið. Síðan berst þetta á tali milli Siglfirskra systra og bróður og svo enn og aftur skömmu seinna kemur þessi dásamlega setning upp í samtali á Útfararstofu Suðurnesja.

Þannig var það ákveðið að akkúrat þessi stóru orð pössuðu sem minning og kveðjuorð til og frá Pétri Matt til umheimsins og sérstaklega til allar sem heimsækja gröfina í gamla kirkjugarðinum í Keflavík. Fallegur staður, en þar er reyndar sjaldan alvöru LOGN. En Pétri leið þrátt fyrri “logskort” ætíð vel í Keflavík en var rétt eins og ég og allir aðrir Siglfirðingar með mikla heimþrá.

Útskýringin á því af hverju Siglfirðingar eru svona óútreiknanlega margir liggur í merkilegri og einstakri sögu Siglufjarðar, sem er svo allt öðruvísi en sögur flestra annarra bæjarfélaga á Íslandi.

Siglufjörður 1931. Ljósmyndari óþekktur.

Flestir Siglfirðingar eru reyndar upprunalega aðfluttir því þessi bær byggðist hratt í byrjun síðustu aldar… mjög hratt. Það var þörf fyrir alla og allir vorum því velkomnir. Ofurtrú á fiskitegund með einkennilega hegðun, því síldin kemur og síldin fer. Kemur hvenær og hvert?
Í áratugi hvarf hún árlega, aftur og aftur en kom samt oftast til baka. En svo lét hún sig endalega hverfa. Af hverju og hvert?

Þetta eru allt stórar spurningar sem tilheyra sögu Siglufjarðar og þeim hörmungum sem dundu yfir okkur eftir að síldin hvarf. Fólk þvingaðist til að flytja burt í stórum straumum, rétt eins og fólkið í Vestmannaeyjum flúði undan eldgosi. En þeir komu flestir til baka og grófu upp og endurbyggðu bæinn sinn.

Á Sigló gerðist eitthvað annað og það er aldrei sagt að síldarhvarfið hafi verið náttúruhamfarir í líkingu við eldgos eða eitthvað annað.

Eftir síldarhvarfið tóku við nær 30 ár af niðurníðslu með rotnandi og brotnandi bryggjum og brökkum. Langt sorgarferli þegar vinir, leikfélagar og nágrannar fluttu burt, einn af öðrum. Maður vildi ekki lengur segja frá því með stolti að maður kæmi frá Siglufirði. Því þá voru sögð ljót lýsingarorð um ástandið og útlitið heima á Sigló sem engin var stoltur af. En ástandið var ekki okkur sjálfum að kenna og það muna fáir eftir því að bæjarfélagið neyddist síðan til að kaupa ónýtar eignir annarra af bönkum. Eignir sem voru nú veðsettar upp í fúnar og rotnandi rjáfur.
Þetta keyptu Siglfirðingar sjálfir til þess eins að getað tekið til í sínu eigin umhverfi og flestum hlakkaði til að fá loksins að rífa eða hreinlega kveikja í þessu síldarsögudrasli.

En sem betur fer var ýmsu bjargað og það gerðum við Siglfirðingar líka sjálfir.

Sjá meira hér um tímabilið sem fáir vilja muna eftir:
Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

Antonsbraggi brenndur. Síðasti ábúandi var Ágúst Gíslason ( Gústi guðsmaður ) Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Allur heimurinn kom á sínum tíma til Siglufjarðar í áratugi og við Siglfirðingar hræddumst hvorki útlendinga eða aðkomufólk.
Nei! Við föðmuðum allt og alla og buðum þá velkomna.

Íbúar Siglufjarðar dreifðust síðan hægt og rólega út um allt land og allan heim:
Það var ekkert annað í boði og með árunum hafa þeir fjölgað sér eins og vírus og þess vegna hittir bæði ég og þú lesandi góður, Siglfirðinga og fólk sem rekur ættir sínar þangað í öllu mögulegu samhengi. Eða svo hittir maður fólk sem tengdist þessum stað, jafnt á Íslandi sem í útlöndum gegnum sögur frá ættingjum sem voru þarna í denn. Því þessi saga var svo einstök og margt og mikið gat bara gerst á Sigló í þeirri síldarævintýrasögu sem skapaðist þar.

Sagan er auðvitað ekki bara einkamál eða einkaeign Siglfirðinga því sú atvinnuþróun og auðæfi sem sköpuðust þar er samtímis stór kafli í sögu og þróun Íslands sem sjálfstætt lýðræðisland.

Að lokum… 

…vill ég minnast góðs drengs með yfir 40 ára gamalli stuttri sögu um Siglfirðinginn Pétur Björgvin Matthíasson eða “Pétur Kokkur” eins og hann var svo oft kallaður á Sigló í denn.

Pétur Björgvin Matthíasson. Mynd úr fjölskyldualbúmi. Ljósmyndina tók Jóhann Örn Matthíasson bróðir Péturs.

Pétur var lengi vel kokkur á togurum og í einni stuttri landlegu á Sigló pöntuðu hann og nokkrir skipsfélagar leigubílatúr frá Sigló inná Akureyri hjá föður mínum Björgvini S Jónssyni sem hafði þetta sem aukastarf um tíma.

Pabbi beið eftir þeim meðan þeir skemmtu sér á Akureyri og komu allir heim í bílnum hjá honum aðfaranótt laugardags…. nema Pétur.

Seinnipart sunnudags sendir Pétur síðan neyðarskeyti frá Akureyri til pabba með orðunum að hann yrði bara að koma inneftir og sækja hann, engin rúta og skipstjórinn orðinn alveg brjálaður yfir því að kokkurinn væri ekki mættur í bæinn. Brottför sama kvöld.

Pabbi sækir hann og þegar komið er að skipshlið þá á Pétur engan aur eftir í vösunum eftir skemmtun helgarinnar. Pabbi segir þá bara, „þú borgar mér þetta þegar þú kemur næst í land vinur“.
En svo vill Pétur endilega að Björgvin vinur hans taki forláta lítið fallegt gullvasaúr sem pant.

Mörgum árum seinna erum við pabbi eitthvað að gramsa í skápum heima á Hafnartúni 6 og þá dettur þetta vasaúr í hendurnar á mér. Það hafði reyndar orðið fyrir einhverju „skemmtanahnjaski.“ Glerið brotið og lokið dottið af.

Pabbi segir mér þá þessa sögu og ég spyr: “Og hvað, borgaði hann þér aldrei túrinn?”.

Jú, jú, nokkrum vikum seinna, en þegar ég ætlaði að fara og sækja vasaúrið þá segir Pétur bara hlæjandi:

Björgvin minn, þú mátt bara henda þessu, ónýta, hræódýra kópíu vasaúradrasli sem ég fékk frá úrsmiðafrænda mínum inná Akureyri.”


Týpískt Pétur sagði pabbi og hló….“ svo hentum við sjálfu klukkuhúsinu en ég fékk að eiga gulllitað lokið sem sem mér fannst svo fallegt.

Ótrúlegt, en satt!
Ég fann lokið inn í skáp heima hjá mér hér úti í Svíþjóð um daginn…. yfir 40 árum seinna…

Vasaúralokið fallega. Ljósmyndari.: Jón Ólafur Björgvinsson.

Blessuð sé minningin um góðan dreng sem alla ævi var mikill og stoltur SIGLFIRÐINGUR.

Kristján J Matthíasson samdi textann í þessu fallega lagi til minningar um bróðir sinn.

KLETTUR (lag á Spotify)

Lagasmiðir eru:
Ari Little (Söngur) og Ómar Baldursson.

Bestu Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra

Nonni Björgvins.

Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Kristján Jóhann Matthíasson.
Aðrar myndir og sögur eru birtar með leyfi og samþyki frá ættingjum Péturs Björgvins Matthíassonar.

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“

SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS

SVON´ER Á SÍLD

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. SEINNI HLUTI (54 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

SVONA VAR Á SIGLÓ FYRIR 56 ÁRUM

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

POPPAÐ Á SIGLÓ – NÍUNDI OG SÍÐASTI HLUTI

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!