Ágúst var fremur svalur mánuður. Hiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 en nær allsstaðar undir meðallagi síðustu tíu ára, einna síst austanlands. Úrkoma var meiri en í meðallagi norðan- og austanlands en fremur sólríkt var á vesturhluta landsins.

Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í ágúst var 10,4 stig, 0,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -1,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 9,6 stig, -0,3 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990, og -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 9,7 stig og 10,2 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2018

 

Ágúst var í svalara lagi á landinu öllu. Hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár voru að mestu neikvæð. Að tiltölu var hlýjast á Austurlandi en kaldast á Norðurlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,2 stig á Seley, en neikvætt hitavik var mest -1,6 stig á Gjögurflugvelli.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Lómagnúp 11,1 stig en lægstur 2,4 stig á Brúarjökli. Í byggð var meðalhitinn lægstur 7,3 stig á Gjögurflugvelli.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,8 stig á Reykjum í Fnjóskadal þ. 12. Mesta frost í mánuðinum mældist -5,9 stig á Brúarjökli þ. 30. Í byggð mældist mesta frostið -4,5 stig á Torfum þ. 30.

Úrkoma
Úrkoma var undir meðallagi á vestanverðu landinu en yfir meðallagi norðan- og austanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 48,1 mm sem er um 78% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 53,3 mm og er það 56% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 25,1 mm og 91,0 mm á Höfn.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 10 í Reykjavík, 2 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 12 daga mánaðarins, 5 fleiri en í meðalári.

 

Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 185, sem er 30 fleiri en að meðallagi í ágúst. Á Akureyri mældust 117 sólskinsstundir, 19 færri en í meðalári.

 

Vindur
Vindur á landsvísu var um 0,2 m/s undir meðallagi. Austanáttir voru ríkjandi og norðanáttir voru algengari en þær suðlægu. Skýstrókar ollu miklu tjóni á bænum Norðurhjáleigu í Álftaveri þ. 24.

 

Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1004,6 hPa og er það 4,0 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1016,2 hPa í Grímsey þ. 4. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 985,9 hPa í Surtsey þ. 17.

 

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)
Sumarið var hlýtt á Austurlandi. Á sunnan- og vestanverðu landinu var fremur svalt og sérlega sólarlítið. Heildarúrkoma og úrkomudagafjöldi var vel yfir meðallagi á Norðurlandi.

Meðalhiti í Reykjavík var 9,9 stig sem er jafnt meðaltali áranna 1961 til 1990 en -1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þessir þrír mánuðir hafa ekki verið eins kaldir í Reykjavík síðan árið 1993. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja 10,6 stig, 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,1 stigi undir meðalhita síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist 198,8 mm sem er 20% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 160,4 mm sem er 68 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 9 fleiri en í meðalári í Reykjavík og 14 fleiri á Akureyri.

Sólskinsstundir mældust 345 í Reykjavík, 140 færri en að meðaltali 1961 til 1990 og um 235 stundum færri en síðustu tíu ár. Mánuðirnir þrír hafa ekki verið eins sólarlitlir í Reykjavík síðan árið 1984. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 431 sem er 39 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 55 stundum færra en að jafnaði í sömu mánuðum síðustu tíu ára.

 

Fyrstu átta mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins var 5,5 stig, sem er 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 40.sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 5,3 stig, sem er 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 14. sæti á lista 138 ára.

Úrkoma hefur verið 37% umfram meðallag í Reykjavík og 33% umfram meðallag á Akureyri.

 

Heimild: vedur.is
Mynd: pixabay.com