Trausti Breiðfjörð Magnússon fæddist á Kúvíkum í Árneshreppi. Sonur Magnúsar Hannibalssonar og Guðfinnu Guðmundsdóttur. Hann ólst að mestu upp á Gjögri.
Trausti giftist Huldu Jónsdóttur frá Seljanesi 11. janúar 1951 og bjuggu þau sér heimili í Djúpavík 1951 en þangað hafði Trausti flutt með foreldrum símum nokkrum árum áður.
Trausti var sjómaður og sigldi á England öll stríðsárin. Hann varð m.a. skipstjóri á Erni ST 105 og á flóabátnum Hörpu ST. Hann vann við síldarverksmiðjuna í Djúpavík auk fleiri starfa tengdum sjó, vélum og búskap.
Hann var farsæll í sínum störfum og vann björgunarafrek árið 1949 við skerið Barm utan við Reykjarfjörð. Þá fór hann á flóabátnum Hörpu ST 105 og náði að bjarga bát sem fór yfir grynningarnar á Barmi og náðist að bjarga öllum.
Árið 1959 varð Trausti vitavörður á Sauðanesvita við Siglufjörð og bjuggu þau Hulda þar til 1998 eða í 39 ár. Þá fluttu þau til Reykjavíkur.
Þau eignuðust fimm börn, Sólveigu sem nú er látin, Huldu Margréti, Magnús Hannibal, Vilborgu og Jón Trausta, fyrir átti Hulda soninn Braga.
Trausti fékk lungnabólgu og inflúensu í apríl og garnaflækju í kjölfarið. Af ótrúlegri eljusemi hefur hann náð sér á strik með góðum stuðningi fagfólks, ættingja og eigin dugnaði. Hann hefur verið á endurhæfingardeild aldraðra á Landakoti síðan 30. maí og væri útskrifaður ef heimahjúkrun væri til staðar.
Galdurinn á bak við langlífið verður seint leystur en þess má geta að þau hjón Hulda og Trausti eru elstu núlifandi hjón á landinu svo þau hafa titil að verja.
Trausti hélt upp á 99 ára afmælið sitt á Hótel Djúpavík á síðasta ári til vonar og vara ef hann næði ekki 100 árunum. Trausti hét því að koma að ári ef hann yrði á lífi og hyggst því fara til Djúpavíkur og halda upp á þennan merka áfanga á næstu dögum.
Sjá grein sem birt var á Sigló.is um Huldu og Trausta árið 2014. Eru samtals 189 ára gömul
Trölli.is óskar Trausta innilega til hamingju með tímamótin
Frétt: aðsend
Myndir: einkaeign og Kristín Sigurjónsdóttir