Um það leyti sem fréttavefurinn trolli.is fór í loftið keypti Trölli nýja vefmyndavél til að hafa á Siglufirði fyrir vefinn. Undirritaður tók niður gamla myndavél á sama stað, sem hafði þjónað vefnum siglo.is um árabil en var úr sér gengin, og setti upp þá nýju. Vélin er eign Trölla og viðhald á vélinni er unnið í sjálfboðavinnu.

Velviljaðir aðilar leggja til hýsingu fyrir myndavélina og tengingu við internetið, og ber að þakka það.

Eins og þeim fjölmörgu sem heimsækja vefinn trolli.is er flestum kunnugt, hefur verið ólag á vefmyndavélinni á Siglufirði að undanförnu.

Nú lítur út fyrir að vélin sé komin í lag.

Það má segja að máltækið: “oft veltir lítil þúfa þungu hlassi” eigi hér vel við, því þrátt fyrir mikla leit hjá netsérfræðingum bæði norðan og sunnan heiða, ítrekaðar endurræsingar á ýmsum búnaði o.fl. gekk illa að finna orsök vandans.

Það var svo um miðjan júlí þegar undirritaður fór upp í húsnæðið sem vélin er staðsett á ofan við bæinn, til að leita að bilun, að í ljós kom smávægileg tæring í tengi á lítilli netsnúru sem tengir myndavélina við internetið. Skipt var um snúruna og hefur myndavélin verið í lagi síðan.

Netsnúra svipuð þeirri sem skipt var um

Skjáskot frá myndavélinni fimmtudagskvöldið 22. júlí 2021:

Gunnar Smári Helgason