Á vetrarsólstöðum í dag mánudaginn 21. desember 2020, eru pláneturnar Júpíter og Satúrnus nær hvor annarri á himni en þær hafa verið í rúm 400 ár.
Klukkan 10:02 að morgni 21. desember eru vetrarsólstöður á norðurhveli Jarðar en sumarsólstöður á suðurhveli. Í Reykjavík rís sólin kl. 11:22 og sest 15:29 svo fullrar dagsbirtu nýtur í aðeins 4 stundir og 7 mínútur.
Eftir daginn í dag tekur sól að rísa á ný og dagur að lengjast.
Jörð er svo næst sólu klukkan 13:51 laugardaginn 2. janúar 2021.
Sólstöður eða sólhvörf er sú stund þegar sól fer lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári, sumarsólstöður á tímabilinu 20.-22. júní, þegar sólargangurinn er lengstur og vetrarsólstöður 20.-23. desember, þegar hann er stystur.
Breytileiki dagsetninganna stafar fyrst og fremst af hlaupársdögum. Nafnið sólstöður vísar til þess að sólin stendur kyrr, það er hættir að hækka eða lækka á lofti.
Heimild: Stjörnufræðivefurinn og Wikipedia