Á nýliðnu ári sóttu 26.000 gestir Síldarminjasafn Íslands heim. Um er að ræða svolitla fækkun frá fyrra ári, eða um 5%, sem skýrist af afar miklum fjölda gesta á fjölbreyttum viðburðum í húsakynnum safnsins á samnorrænni strandmenningarhátíð á síðasta ári.

Enn eru erlendir ferðamenn fleiri en innlendir gestir, eða um 60%. Þá heimsóttu um 700 nemendur á öllum skólastigum Síldarminjasafnið í skipulögðum námsheimsóknum og íbúar Fjallabyggðar eru jafnframt tíðir gestir á safninu og voru um 650 á árinu.

Augljóst er að ferðamannatímabilið er að lengjast og gestum fjölgar ár frá ári, sér í lagi yfir vetrarmánuðina því í fyrsta sinn taldi enginn mánuður ársins færri en eitt hundrað gesti.

Skipulagðar leiðsagnir um safnið voru 355 á árinu og hafa aldrei verið fleiri.