Dómsmálaráðherra hefur skipað þriggja manna sifjalaganefnd til þess að vinna að endurskoðun á barnalögum og hjúskaparlögum og hefur nefndin þegar tekið til starfa. Umfangsmikil verkefni eru fram undan í tengslum við endurskoðun umræddra laga en auk þess mun fara fram úttekt á áhrifum skiptrar búsetu barna hér á landi. Er gert ráð fyrir að úttektin muni nýtast nefndinni við endurskoðun á barnalögum.

Nefndin skal skila ráðherra drögum að lagafrumvörpum fyrir 1. september 2024, annars vegar drögum að frumvarpi til breytinga á barnalögum og eftir atvikum breytingum á öðrum lögum, og hins vegar drögum að frumvarpi til breytinga á hjúskaparlögum og eftir atvikum breytingum á öðrum lögum.

Fyrirætlanir um endurskoðun barnalaga og hjúskaparlaga hafa verið lagðar fram í samráðsgátt stjórnvalda og eru allir, sem vilja koma ábendingum eða athugasemdum á framfæri sem gætu gagnast í endurskoðuninni, hvattir til þess að senda umsögn. Annars vegar vegna endurskoðunar barnalaga og hins vegar vegna endurskoðunar hjúskaparlaga.

Sifjalaganefnd er þannig skipuð:

Hrefna Friðriksdóttir, formaður, án tilnefningar
Valborg Þ. Snævarr, tilnefnd af Lögmannafélagi Íslands. (Sigurður G. Guðjónsson til vara).
Óskar Sturluson, tilnefndur af Sýslumannaráði. (Arndís Soffía Sigurðardóttir til vara).

Auk þess hefur ráðherra falið Gyðu Hjartardóttur, félagsráðgjafa MA, að gera áðurnefnda úttekt á áhrifum skiptrar búsetu barns.

Heildarendurskoðun á barnalögum í Samráðsgátt

Heildarendurskoðun á hjúskaparlögum í Samráðsgátt

Barnalög

Í barnalögum nr. 76/2003 er m.a. fjallað um réttindi barns, foreldra barns, foreldraskyldur, forsjá, framfærslu, meðlag og umgengni.

Þegar samþykktar voru breytingar á barnalögum á Alþingi þann 15. apríl 2021 var kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði að ákvæði barnalaga og framkvæmd þeirra skyldi endurskoðuð innan þriggja ára frá samþykkt laganna og einnig tekið fram að dómsmálaráðherra skuli kynna niðurstöður endurskoðunarinnar eigi síðar en á haustþingi 2024.

Umræddar breytingar á barnalögum tóku gildi þann 1. janúar 2022, en með breytingunum var foreldrum t.a.m. gert heimilt að semja um skipta búsetu barns. Við meðferð frumvarpsins hjá Alþingi tók allsherjar- og menntamálanefnd það fram í nefndaráliti sínu að ekki lægi alveg fyrir hvaða áhrif fyrirkomulag um skipta búsetu og framkvæmd þess hefði á kynin og ólíka hópa og í þeim efnum var vísað til umfjöllunar um fyrirkomulag á útreikningi barnabóta í tengslum við skipta búsetu. Meiri hluti nefndarinnar taldi mikilvægt að innan þriggja ára frá samþykkt frumvarpsins færi fram endurskoðun, einkum á fyrirkomulagi um skipta búsetu og framkvæmd þess, eins og með útreikning barnabóta, en að fleiri atriði þyrfti að taka til endurskoðunar, m.a. í ljósi laga um kynrænt sjálfræði og atriða sem snúa að framfærslu og meðlagi.

Hjúskaparlög

Í hjúskaparlögum nr. 31/1993 er m.a. fjallað um hjónavígsluskilyrði, könnun á hjónavígsluskilyrðum, hjónavígslu, ógildingu hjúskapar, hjónaskilnaði, ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu sinnar, eignir hjóna, kaupmála og fjárskipti milli hjóna.

Þegar samþykktar voru breytingar á hjúskaparlögum á Alþingi þann 15. júní 2022 var kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði að ákvæði hjúskaparlaga og framkvæmd þeirra skuli endurskoðuð innan tveggja ára frá samþykkt laganna og einnig tekið fram að dómsmálaráðherra skuli kynna niðurstöður endurskoðunarinnar eigi síðar en á haustþingi 2024.

Umræddar breytingar á hjúskaparlögum tóku gildi 1. júlí 2023, en markmið frumvarpsins var m.a. að styrkja stöðu þolenda heimilisofbeldis og einfalda skilnaðarferli fyrir hjón sem væru sammála um að enda hjúskap sinn. Við meðferð frumvarpsins hjá Alþingi tók allsherjar- og menntamálanefnd það m.a. fram í nefndaráliti sínu að þörf væri á heildarendurskoðun á lögum er lúta að hjúskap til þess að stuðla að fullnægjandi réttaröryggi fyrir þolendur heimilisofbeldis. 

Mynd/aðsend