Það er oft erfitt að lýsa í orðum, öllu því sem er horfið ásjónu okkar, eins og t.d. fjöldanum og stærðinni á horfnum bryggjum og síldarplönum sem settu svo sterkan svip á alla strandlengjuna á Eyrinni heima á Sigló. Þegar við heimsækjum Síldarminjasafnið fáum við að sjá í máli og myndum, iðandi líf og læti á bryggjum og risastórum síldarplönum. Samtímis er erfitt að átta sig á þeim gríðarlega trévirkis fermetrafjölda sem leynist í bryggjum og síldarplönum sem ber uppi síldarvinnsluævintýrið. Eins og sjá má á þessari ljósmynd.
Í þessari myndasyrpusögu er gerð heiðarleg tilraun til að sýna lesendum stærðarhlutföllin á horfnum bryggjum, brökkum og síldarplönum, með t.d. loftmyndum, sem eru teknar eftir að síldin hvarf, en þá eru þessi svæði tóm og auðveldar okkur að fá betri heildaryfirsýn.
Eins og lesendum trölla.is er löngu orðið augljóst, þá hefur greinarhöfundur mikla ánægju af að fletta í gömlum myndum á Ljósmyndasafni Siglufjarðar og í leitarorðaflokknum „Hafnarmyndir“ eru rúmlega 2.300 ljósmyndir sem sýna okkur vel breytileika strandlengjunnar á Eyrinni, allt frá þar síðustu aldamótum.
Vissulega geta teiknuð yfirlitskort gefið okkur smá hugmyndir að vinna með, þegar við reynum að sjá þetta allt saman fyrir okkur.
Að sjálfsögðu er það þannig að þessi yfirlitsmynd er ekki að segja okkur að allar þessar bryggjur og plön hefðu verið til samtímis, en þarna eru taldar upp 42 bryggjur að meðtöldum bryggjum norðan við Eyrina, þ.e.a.s. úti í Bakka og í Hvanneyrarkróknum og síðan endar þessi upptalning suður á Anlegginu fræga.
Sagan segir að þegar sem mest var, að ef maður spásseraði og þræddi alla bryggjukanta, þá yrði þetta rúmlega 7 km langur göngutúr. En engum hefur mér vitanlega, hingað til, tekist að kasta fram tölu í fermetrum reiknað, sem leynist í þessum sögulegu risastóru trévirkis hafnarmannvirkjum. Segja má með sanni að ekkert Íslenskt hafnarsvæði, hafi breyst eins mikið og hafnarumhverfið við Eyrina á Siglufirði.
Kannski er hér von um að duglegir stærðfræðingar, geti reiknað út fermetra fjöldann út frá þessum loftljósmyndum sem hér birtast.
Sjá meira hér um Anleggið og fleiri merkilegar bryggjur:
ANLEGGIÐ! DULARFULL BRYGGJUEYJA og fl. 30 MERKILEGAR myndir
og hér: ANLEGGIÐ! Fleiri stórmerkilegar myndir
Siglfiglufjarðar Eyrin og umhvefið þar um kring, er líklega það hafnarsvæði á Íslandi sem hefur útlitslega breysts mest, með t.d. gríðarlegum landfyllingum. Allt þetta var gert til að skapa meira síldarvinnslupláss og eins og sjá má á þessari ljósmynd frá því um aldamótin 1900, var Eyrin kannski rétt rúmlega 1/3 af þeirri stærð sem hún er í dag.
Á skipulagskorti frá 1969, getum við séð framtíðardrauma Siglfirðinga, sem á þessum tíma virðast trúa því að síldin sé bara í tímabundnu sumarleyfi. Þar má sjá miklar skipulagsbreytingar varðandi hafnarsvæðið og þá sérstaklega nýja hafnaraðstöðu við Leirutanga. Næsta loftmynd er lánuð frá “Kortasjá Fjallabyggðar” og sýnir okkur hvernig strandlengjan á Eyrinni og fl. lýtur út í dag.
Loftmyndir Steingríms Kristinssonar
Í myndaalbúminu hér neðar skulum við fara í tvær flugferðir þar sem Steingrímur tekur myndir út um flugvélaglugga, myndirnar sýna okkur tómar bryggjur og síldarplön í lok 1970 og byrjun 1980. Sumar bryggjur, brakkar og síldarplön, eru þá þegar illa farnar og að hruni komnar. Við fljúgum suður-norður, byrjum við Leirutanga og endum í Hvanneyrarkróknum.
ATH. Smellið á mynd og hún birtist stærri.
Vert að hafa í huga að bryggjur eru sá hluti þar sem bátar og skip leggja til og landa sínum afla. Sjálf síldarplönin eru innan við bryggjurnar og við sjáum að sunnan við Eyrina eru bryggjurnar langar, vegna þess þar er mjög aðgrunnt og það er einnig mikil munur á sjávarhæð vegna flóðs og fjöru. Gott dæmi um þetta fyrirkomulag sést vel á þessari ljósmynd.
Síldarplön eru vissulega flest öll byggð á bryggjustaurum, en einhver hluti þeirra eru einnig á uppfyllingar landsvæðum. Þau stærstu eru vel sýnileg á myndunum, þá sérstaklega risa trévirkis plönin sem voru fyrir framan núverandi staðsetningu Sildarminjasafnsins. Vert er þó að minna á að síldarplönin á austurhlið Eyrarinnar voru einnig mjög stór, frá Hafnarbryggju og norður að Hrímnisplaninu.
Fleiri myndir sem sýna okkur horfnar bryggjur, brakka og síldarplön
ATH. Smellið á mynd og hún birtist stærri.
Og nokkrar í lit…
Margir munu eflaust spyrja sjálfan sig og aðra, þegar maður skoðar þessar merkilegu ljósmyndaminningar.
Var ekki hægt að bjarga og varðveita meira af þessu bryggjuumhverfi?
Hluti af svarinu sést í sjálfum myndunum, þar sem óblíð veðrátta með mikilli snjóþyngd, hafís o.fl. hreinlega mylur niður bryggjur, brakka og síldarplön.
Sjá meira hér um snjóþyngd, hafís o.fl.
Snjóþungi – snjóflóð – hafís o.fl. 50 myndir
Síðan er vert að muna að eftir síldarhvarfið, þá eru þessar eignir ekki í eigu eða á ábyrgð bæjarfélagsins. Allt skilið eftir í óljósu eingarhaldi og þrotabúum. Þegar að trémannvirkjum er ekki haldið við þá rotnar, grotnar og brotnar þetta allt saman hægt og rólega. Í Siglfirska orðinu “brakki” liggur þetta augljósa, að við erum að tala um “vinnuskúrabragga” og margt og mikið af þessu voru ekkert sérstaklega vandaðar byggingar, eins og sést vel á þessari mynd.
Hver er munurinn á brakka og bragga?
Fékk þessa skemmtilegu útskýringu frá Siglfirska sögumanninum Leó Ólason:
“Ég reyndi einu sinni að skoða uppruna orðanna brakka og bragga og gera á þeim einhvern “faglegan” samanburð. Niðurstaðan var ofur einföld. Brakki var kominn úr norskunni eins og þú segir og nam land á Siglufirði, en braggi kom til landsins annars staðar frá og á öðrum forsendum. Svo má líka bæta því við að húsagerðirnar eru oftast nær afar ólíkar. Annars vegar tveggja til þriggja hæða timburhús oft með háu risi sem eru notaðar sem skemmur, skrifstofa spekúlantsins og íveruhúsnæði verkafólks. Hins vegar bogadregin bárujárnshíbýli hermanna flest frá stríðsárunum. Það má því með nokkrum rétti halda því fram að sitt hvor orðmyndunin lýsi ólíkum húsakosti og því eigi þær báðar fullan rétt á sér.”
Við skulum frekar gleðjast yfir því að á okkar stórglæsilega Síldarminjasafni Íslands er þessi saga varðveitt og einnig vera þakklát fyrir þann mikla fjársjóð sem ykkur er sýndur hér í ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar. En ef einhverjir vilja kíkja á draugabæjar niðurníðslu tímabilið frá 1970-1990, þá er hér eldri grein sem lýsir þessu vel í máli og myndum .
Sjá meira hér:
Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)
sksiglo.is | Greinar | 21.04.2017| Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1639 |
Það er samt vert að minnast þess að t.d. “Skafti Stefánsson á Nöf” bjó í fallegu húsi sem stóð á hans eigin síldarplani og hélt hann lengi vel við sínum eignum eftir síldarhvarfið. Hrímnir HF er annað dæmi um söltunarstöð sem ekki fór á hausinn og síldarhvarfs-úlfinum tókst vissulega að eyðileggja bryggjurnar þar, en ekki að blása um um koll sjálft húsið, enda er það byggt úr steinsteypu og stendur enn.
Sjá meira hér um Hrímnir HF og margar merkilegar ljósmyndir.
HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 myndir
Slippstöðin / Dráttarbrautin
Allt er ekki horfið, guði sé lof, en vissulega er sjálf dráttarbrautin horfin, en ekki Slippstöðin, sem er enn í notkun og er nú í eigu Síldarminjasafnsins. Minnist þess hvað manni fannst þetta spennandi svæði, margt og mikið að sjá og skoða þarna. Hreinasti galdur að stórir bátar og skip væru dregnir upp á ósýnilegum járnbrautarteinum, sem að mestu voru faldir undir sjávarmáli. Hér gat maður stundum séð kafara hreinsa sand og grjót úr dráttarbrautasporunum.
ATH. Smellið á mynd og hún birtist stærri.
Vinnu- og ævintýraleiksvæði
Að sjálfsögðu eru allar þessar horfnu bryggjur, brakkar og verksmiðjur, fyrst og fremst vinnusvæði og tilheyra síldarvinnsluævintýrinu. Samtímis er vert að minnast þess og þetta sama svæði var líka gríðarlega spennandi leiksvæði fyrir Siglfirsk börn og unglinga, sem sést t.d. vel í þessum tveimur myndasyrpusögum. en þar getið þið séð 70 aðrar skemmtilegar og fræðandi bryggjulífsljósmyndir.
KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA
&
UNDRAHEIMUR BRYGGJUGUTTANA Á SIGLÓ (30 myndir)
Að lokum:
Ljósmyndarinn og sögumaðurinn Steingrímur Kristinsson
Í undirbúningsvinnu fyrir þessa myndasögu samantekt fletti undirritaður sig hreinlega í gegnum 2.300 “Hafnarmyndir” og fann þá meðal annars þessar merkilegu loftmyndir Steingríms, sem sýna svo vel allt þetta sem nú er löngu horfið.
Samtímis datt ég niður á þessar tvær skemmtilegu ljósmyndir og þær sýna okkur aðalpersónuna, Steingrím Kristinsson, sem hefur gert það mögulegt fyrir okkur að sjá myndir sem segja meira en 1000 orð.
(ATH. hann sjálfur, er frekar sjaldséður fyrir framan myndavél)
Myndirnar eru teknar í lok sjöunda ártugs síðustu aldar og þarna er hann að taka myndir við Ísafold og líklega er þetta einn af síðustu alvöru síldarsöltunardögum Siglufjarðar.
Steingrímur er 90 ára og hefur guði sé lof, fyrir okkur hin, haft þráláta ljósmyndadellu, síðan hann var 10-12 ára gamall. Hann hefur sem sagt tekið myndir, safnað saman sínum eigin og annar myndum og sögum af lífinu á Sigló í rúmlega 80 ár.
En eins og sjá má á textanum undir þessari 89 ára gömlu ljósmynd, hefur hann fengið ljósmyndadelluna í vöggugjöf frá foreldrum sínum.
Steingrímur er sjálfur myndasmiðurinn á bak við um 80 % af þeim rúmlega 200.000 myndum sem til eru á Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Það er sagt að ef þú leggur 10.000 klukkutíma í að æfa þig í einhverjum íþróttum eða áhugamáli, að þá ertu farinn að nálgast atvinnumanna gráðu. Steingrímur er út frá þessari staðreynd margfaldur heimsmeistari í ljósmyndatækni og söguvörslu og á skilið minnst eina ef ekki tvær medalíur fyrir sitt stóra lífsverk, sem í dag veitir okkur ómælda ánægju, með því að geta séð og spjallað um allt það sem nú er horfið ásjónu okkar.
Þessar loftmyndir sem Steingrímur tók út um flugvélaglugga eru að mörgu leyti einstakar og við skulum hafa í huga að það var ekkert einfalt að taka svona myndir með þeirra tíma ljósmynda tækni. Flugvélin hristist og fer hratt yfir og það fóru örugglega í þetta tvær heilar filmurúllur og þar á eftir dágóður tími í framköllunarherberginu og þar kom eflaust í ljós að slatti af myndum voru bæði hreyfðar og ekki í góðum fókus. Ég tel það enga tilviljun að Steingrímur vildi eyða tíma og peningum í að taka þessar loftmyndir, hann sá það eflaust fyrir sér að allt þetta mikla og merkilega bryggju og síldarplanaumhverfi myndi hverfa á komandi árum.
Við vinnslu á þessari sem og öðrum myndasyrpu samantektar greinum, er lagður þó nokkuð mikill tími í að lagfæra og endurvinna myndir, svo að þær komi betur út við birtingu og lestur í nútíma skjátækum. Myndirnar í ljósmyndasafninu eru nefnilega börn síns tæknilega innskönnunar tíma.
Í þessu ferli notar undirritaður oftast prógramm sem heitir “Adoble Lightroom.” En Steingrímur, sem er alltaf með í vinnsluferlinu gegnum Messengerspjall, er 90 ára gamalt tæknitröll frá Tröllaskaga og er að reyna að kenna mér að nota gervigreidnar myndvinnsluprógrömm og ég verð að viðurkenna að það er verulegur gæðamunur á myndunum. Það er einnig gaman að sjá gamlar svarthvítar myndir færðar yfri í lit. Eftir birtingu berast mér oft gervigreindar unnar myndir frá myndameistaranum og þá skipti ég þeim út og uppfæri greinina.
Það má til gamans geta að Steingrímur er óstöðvandi í sinni heimildasöfnun og hefur hann nú þegar fært heilmikið af mínum gömlu greinum, yfir á sína eigin “Heimildasíða Steingríms,” bæði frá siglo.is og trolli.is og samtímis gervigreindar endurunnið áður birtar ljósmyndir.
Mæli eindregið með því að þeir sem hafa ánægju af nýrri tækni og myndvinnsluvísindum, gefi sér tíma í að skoða þessar uppfærðu myndasyrpugreinar. Gæðamunurinn á myndunum er hrein út sagt ótrúlegur.
Gott dæmi um breytingar á myndgæðum má sjá í t.d. þessari gömlu grein: Myndasyrpa: Siglufjörður um 1960
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.