Með nýlegri breytingu á reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 er einstaklingum sem eru metnir minna útsettir fyrir COVID-19 heimilað að sæta smitgát í stað sóttkvíar. Einstaklingur sem viðhefur smitgát skal fara í hraðpróf á fyrsta degi og síðan aftur á fjórða degi. Þegar neikvæð niðurstaða úr seinna hraðprófinu liggur fyrir er smitgát einstaklings aflétt.

Skráning í smitgát

Með nýrri reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er heimilt að halda stærri viðburði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eitt slíkt skilyrði er að allir gestir fæddir 2005 og fyrr framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi sem má ekki vera eldra en 48 klst.

Til að þetta sé hægt hafa Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytið unnið að útfærslu á sýnatöku og notkun hraðprófa.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur tryggt sér nægilegt magn hraðprófa, bæði fyrir höfuðborgarsvæðið og allt landið. Utan höfuðborgarsvæðisins mun framkvæmd hraðprófa fara fram innan heilsugæslu hjá heilbrigðisstofnunum.

Stefnt er að því að koma á grunnvirkni fyrir hraðpróf og stærri viðburði fyrir lok þessarar viku. Þá verður þeim sem áætla að sækja stærri viðburði samkvæmt áðurnefndri reglugerð gert kleift að fara í hraðpróf 10. september. Sett verður upp vefsíðan hradprof.covid.is og hún notuð í þeim tilgangi að panta hraðpróf en einnig verður hægt að skrá fólk á staðnum.

Fyrst um sinn verða vottorð um neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi send í Heilsuveru og í tölvupósti og vistuð sem PDF skrá. Unnið er að öðrum lausnum eins og stendur. Viðkomandi getur þannig sýnt vottorðið á skjá, svo sem snjallsíma, eða útprentað áður en viðburður hefst.