Í þessum pistli eru margar ljósmyndir sem sýna jólastemmingu og fleira skemmtilegt í firðinum fagra í gamla daga.

Um jólahátíðir eru margir með mikla heimþrá og svo hugsar maður mikið til baka og við söknum bæði fólksins og tíðarandans sem er ekki lengur með okkur þessi jólin.

Andi liðinna jóla hefur sótt á mig í draumum undanfarnar vikur, með mikið af myndum og minningum um látna foreldra, móðursystur sem og aðra ættingja og vini, en einn af þessum minningardraumum er sérlega sterkur og snýst um elskulegan afa minn.

Péturs Bald, í hlutverki jólasveins.
Í litlum bæ á norðurhjara veraldar. En það er samt einkennilegur stórborgarbragur yfir mögrum af þessum dásamlega fallegu ljósmyndum.

En afi Pétur hafði mörg andlit og allskyns búninga í hinum ýmsu hlutverkum í leikfélaginu á Siglufirði sem og í lífinu sjálfu og hann gaf sig allan í að gleðja aðra.

Ég fann mikið af skemmtilegum ljósmyndum af honum á Ljósmyndasafni Siglufjarðar og datt þá niður á myndaseríu þar sem afi er í hlutverki hins fræga jólasveins í Kjötbúð Siglufjarðar.

Afi Pétur var lengi vel alvöru atvinnujólasveinn.

Jólastemming

Jólatré á Torginu og KFS. Kjörbúð / Kjötbúð Siglufjarðar til hægri. Mörg horfin hús á þessari mynd og takið eftir að það er enginn klukka á kirkjuturninum.
Ljósmyndari: Jóhannes Jósefsson.
Sparksleðar og jólatré. Ásýnd Torgsins hefur breyst mikið. Ljósmyndari: Jóhannes Jósefsson.

Ég man þá barnatíð þegar spenningur komandi jóla magnaðist í mínum barnshuga. Þegar upp komu litríkar jólaseríur á öll húsin í bænum og svo var mikil jólatrésskemmtun á Torginu þegar stórt og mikilfenglegt grenitré kom til okkar alla leið frá útlenskum vinarbæ.

Dásamlega falleg ljósmynd. Á borðanum sem er skáhalt yfir tréð, stendur: Jólakveðja frá Herning. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

Síðan komu ljósin í Hvanneyrarskálina með tilheyrandi ártali sem minnti okkur á að bráðum kemur nýtt ár með tilheyrandi áramótabrennum, álfadansi og flugeldum.

Ljósin í skálinni. En ártalið er á einkennilegum stað undir Gimbraklettum þetta ár. Mér dettur einna helst í hug að þetta sé tilraun þar sem ætlunin er að ártalið sjáist betur frá Torginu og Aðalgötunni. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Aðalgatan breytti líka ásýnd sinni með fallegum jólaskreytingum í öllum búðargluggum. Kjötbúð Siglufjarðar stakk svolítið út úr þegar kemur að jólaskreytingum og í að skapa eftirvæntingu og jólastemmingu.

KFS Kjötbúð Siglufjarðar

Börn og fullorðnir stara á skreytingar og jólakræsingar í Kjötbúðinni. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Það var hefð til fjölda ára að bæði fullorðnir og börn biðu spennt og lágu á gluggum til þess að fá að sjá skreytingar ársins og þennan skemmtilega jólasvein inni í búðinni.

Fullorðinn gluggagægir kíkir inn um hurðarglugga Kjötbúðar Siglufjarðar. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Örtröðin var þvílík að hátalari var settur upp utandyra og jólasveinninn spjallaði við og söng fyrir forvitna á gluggunum og auglýsti vörurnar út á Aðalgötuna.

Jólakræsingar í niðursuðudósum og hátalari hangir fyrir miðjum glugganum. Þessi mynd er sennilega tekin fyrir utan gamla verslunarhús Kjötbúðarinnar neðar í Aðalgötunni.
Ljósmyndar: Kristfinnur Guðjónsson.
Pétur Bald i hlutverki Jólasveins auglýsir og dásamar vörurnar í Kjötbúðinni í gegnum hátalarakerfið í Kjötbúðinni. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Jólakræsingar! Þarna sést í stóran míkrófón á milli kertanna á miðri myndinni. Ljósmyndar: Kristfinnur Guðjónsson.
Jólasveininn í kjötbúðinni fær sér vindill og segir sögur. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Dolfallnir áhorfendur. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Jólaballavertíð

Hver man ekki eftir jólaballavertíðinni sem kom á eftir árshátíðavertíðinni og fyrir þorrablótavertíðina,  þegar öll félagasamtök og vinnustaðir voru með eigin jólaskemmtanir fyrir börnin í bænum.
Afi minn Pétur Bald var atvinnujólasveinn eins og ég og vinur minn Valmundur Valmundsson sem gerðum út á þetta í einu skólajólafríi og við þénuðum meira en þeir sem fóru í fulla jólafrísvinnu í t.d. frystihúsinu. Bróðir minn, Sigurður Tómas og Rúnar vinur hans svo tóku við árið efir.

Afi var svo góður jólasveinn að ég trúði á jólasveina þangað til ég var 12 ára, hann gerði þetta svo flott.
Á fullorðins árum sagði hann mér að maður þyrfti að leggja mikið á sig við að skemmta börnum.

“Annað hvort spila þau með og leyfa þér að plata sig eða svo verða þau kannski bara hrædd og vilja forða sér í burtu.”

Sjálfur var ég síðan jólasveinn (Kertasníkir) í 15 ár á námsmannanýlendunni hér úti í Gautaborg og sonur minn Sölvi Þór er nú tekinn við. 

Það er greinilega jólasveinablóð í ættinni.

Jólaball hjá Kiwanis á Hótel Höfn. Þetta er Pétur Bald afi minn í hlutverki jólasveins. tel mig þekkja þetta NEF. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Jólaball á Hótel Höfn. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Jólaboð heima hjá jólasveininum sjálfum

Afi Pétur og Mundína amma lögðu mikið í jólaboðin fyrir okkur barnabörnin. Ég man að afi keypti alltaf nokkra kassa af blönduðum gosdrykkjum og sérpantaði ætíð kassa af fallegum, stórum rauðum eplum. Þetta faldi hann vel í kaldri geymslu í litla rauða bárujárnshúsinu við Vetrarbrautina.

Barnabörn jólasveinsins drekka gosdrykki í jólaboði á Vetrarbrautinni, líklega 1965.
Frá vinstri: Halldóra Salbjörg Björgvinsdóttir, greinarhöfundur Jón Ólafur, Kristín Bjarnadóttir og Sigurður Tómas Björgvinsson.
Mynd úr einkasafni.

Afi lét sig svo hverfa úr jólaboðinu með skrítnum afsökunum og læddist þá upp í gamla Sjómannaheimilið við Suðurgötu, en þar var leikfélagið lengi vel með æfingaraðstöðu.
Hann sminkaði sig vel og vandlega og birtist síðan skyndilega sem kátur jólasveinn sem söng og spilaði jólalög á munnhörpu og fékk okkur börnin til að syngja með sér.

Þegar hann kom síðan tilbaka í sínum eigin sparifötum þá byrjaði nýtt leikrit þar sem hann var alveg miður sín yfir að hafa misst af þessum jólasvein enn einu sinni og svo lét hann okkur krakkana lýsa þessu öllu í smáatriðum, brosti út af eyrum og hló mikið af frásögn okkar af þessum skrítna jólasveini.

Afi.. afi, veistu hvað… veistu hvað…. munnharpan hrökk næstum ofan í jólasveininn… og svo…

Pétur Bjarnason og greinarhöfundur fínklæddir og uppstilltir við jólatréð í stofunni á Vetrabrautinni í janúar 1965.
Mynd úr einkasafni.
Mynd frá jólaboði hjá ættingjum í föðurætt á Hverfisgötu 27. Takið eftir þessum skemmtilegu jólaskreytingum í bakgrunninum.
Efri röð: Halldóra Ragna Pétursdóttir móðir mín, Björgvin Sigurður Jónsson (Hrímnisdrengurinn) faðir minn.
Neðri röð: Mundína Valgerður Sigurðardóttir amma mín og afi Pétur Friðrik Baldvinsson.

Ýmis hlutverk og búningar

Myndirnar tala sínu eigin máli og sýna vel hversu fjölhæfur og skemmtilegur karaker hann afi minn var.

Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Þessa skemmtilegu mynd tók Kristfinnur Guðjónsson á Ljósmyndastofu Siglufjarðar. Sumarlöggur. Pétur Bald og “Óli Hvanndala” í einkennisbúningum Lögreglu Siglufjarða.

Greinarhöfundur hefur minnst á þetta löggæslustarf afa áður í texta og ljósmyndum í “GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR”

Þessi stutta saga er eitthvað svo týpískt hann.

“Pétur Bald afi minn var sumarlögga 2-3 sumur (eins og svo margt annað, meira um það seinna) og ég hef séð afa á gamalli ljósmynd þar sem hann stendur glæsilegur og glaðlegur í einkennisbúningi og hallar sér bílstjóramegin að opinni hurð á löggubílnum.

Afi Pétur var svo sem enginn kraftakarl, en hann gat talað við fólk í öllu mögulegu ástandi og það er nú sá eiginleiki sem er mikilvægastur í löggæslustarfinu.

AFI…….Varst þú að keyra þennan lögreglubíl ? Spyr ég hissa þegar ég sé þessa ljósmynd.

Já, svaraði hann stoltur. En ég vissi að hann hefði lært vélstjórnun á sínum tíma inná Akureyri.

En afi, þú hefur aldrei haft bílpróf……..

Þeir spurðu mig aldrei svaraði afi og hló mikið og lengi á sinn einstaka máta.

Pétur Friðrik Baldvinsson

F. 14. apríl 1909. D. 14 desember 1995.

Það eru jól og allir hafa meiri tíma en vanalega svo ég læt hér í lokin fylgja með lesefni fyrir alla sem vilja lesa meira um þennan lífsglaða mann í minningargrein sem við bræðurnir skrifuðum saman 1995.
Afi átti svo sannarlega sínar sorgir eins og margir aðrir. Líf hans var enginn dans á rósum en hann faldi sínar sorgir vel.

22. desember 1995 | Minningargreinar mbl.is

Pétur Friðrik Baldvinsson var fæddur í Hólkoti rétt utan við Dalvík 14. apríl 1909. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar hinn 14. desember síðastliðinn.

Foreldrar hans voru

  • Jón Baldvin Sigurðsson og
  • Guðrún Tómasdóttir úr Svarfaðardal. 

Pétur átti 11 alsystkini, en sjö þeirra dóu ung. Pétur átti einn hálfbróður sem faðir hans eignaðist með seinni konu sinni.
Fyrri kona Péturs var Jóhanna Þorleifsdóttir úr Hrísey, en hún lést skömmu eftir 1930.
Þau eignuðust einn son,

  • Tómas, f. 1930, d. 1963. Eiginkona hans var Sigríður Hermannsdóttir á Dalvík.

Eftirlifandi eiginkona Péturs er Mundína Sigurðardóttir frá Vatnsenda í Héðinsfirði.
Börn þeirra eru:

  • Ásbjörn Pétursson, f. 1937,
  • Hanna Guðrún Pétursdóttir, f. 1939, gift Bjarni Þorgeirssn, og
  • Halldóra Ragna Pétursdóttir, f. 1942, gift Björgvin Jónsson.

Öll búsett á Siglufirði. Pétur fór ungur til sjós og stundaði sjómennsku og verkamannavinnu á meðan hann var búsettur á Dalvík. Hann fluttist til Siglufjarðar 1935 og var vélstjóri og kokkur á síldarbátum og vertíðarbátum. Þá starfaði hann lengi sem planformaður hjá ýmsum síldarsaltendum á Siglufirði.

Síðustu starfsárin gerði hann út eigin trillu frá Siglufirði. Pétur tók virkan þátt í félagsstarfi og var meðal stofnenda verkalýðsfélagsins á Dalvík, starfaði lengi með Leikfélagi Siglufjarðar og söng með Karlakórnum Vísi og Kirkjukór Siglufjarðarkirkju í áratugi. Útför hans fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.00.

22. desember 1995 | Minningargreinar | 1467 orð

Pétur Baldvinsson

Okkur bræðurna langar til að minnast móðurafa okkar, Péturs Baldvinssonar, sem nú er látinn.

Afi Pétur átti mikið í okkur enda sóttum við talsvert til hans á æskuárum okkar á Siglufirði og þess vegna er við hæfi að rifja upp nokkur minningabrot um leið og við kveðjum þennan heiðursmann.

Pétur Friðrik Baldvinsson var fæddur í Hólkoti rétt utan við Dalvík á fyrsta áratug þessarar aldar og tilheyrði því aldamótakynslóð þessa lands. Hann ólst upp á Dalvík og eins og margt samtímafólk þá varð hann snemma var við að lífsins skóli er bæði erfiður og miskunnarlaus. Skæður sjúkdómur kvaddi fljótlega dyra hjá barnmargri fjölskyldunni og aðeins fimm af tólf systkinum náðu fullorðins aldri.

Hin létust öll ung, flest úr berklum. Sömu örlög hlaut móðir hans þegar afi var aðeins 14 ára gamall. Faðir hans eignaðist einn son með seinni konu sinni sem gekk einnig fyrri börnum hans í móðurstað. Það að lifa af þessar hörmungar var greinilega ákveðin forspá fyrir þá löngu lífsgöngu sem framundan var. Margir sem þekktu Pétur Bald höfðu á orði að hann hefði átt að minnsta kosti níu líf. Hann komst stundum í ‘ann krappan á sjónum og þrátt fyrir að heilsan yrði oft fyrir áföllum á fullorðinsárunum þá var eins og ekkert biti á karlinn.

Við minnumst sérstaklega atviks sem átti sér stað þegar afi var kominn yfir sjötugt. Þá þurfti hann að fara á trillunni sinni, einn síns liðs, inn í Héðinsfjörð til þess að ganga frá veiðihúsinu þar fyrir veturinn. Veðrið var slæmt og áttin óhagstæð til lendingar á litlum árabát í fjörunni. Í brimgarðinum hvolfdi árabátnum yfir hann og rak upp í fjöruborðið. Með einhverjum yfirnáttúrulegum hætti tókst honum að lyfta bátnum ofan af sér og lá svo nær dauða en lífi í fjörunni í nokkurn tíma á eftir.

En hann átti talsvert þrek eftir þótt kominn væri á áttræðisaldur og ekki gerði hann mikið úr þessu kraftaverki sjálfur. “Þetta er heljarmenni,” sögðu félagar hans úr hópi trillukarla á Siglufirði þegar þeir fréttu af viðureign gamla mannsins við náttúruöflin.

Afi stofnaði snemma heimili með fyrri konu sinni Jóhönnu Þorfinnsdóttur úr Hrísey. Sambúð þeirra hafði ekki staðið lengi þegar sami sjúkdómur og hafði tekið móður hans í burtu á æskuárunum kvaddi dyra að nýju. Hún dó úr berklum langt fyrir aldur fram frá ungum syni þeirra, Tómasi Péturssyni. Afi hafði miklar mætur á syni sínum sem gerði sjómennskuna að ævistarfi, en forlögin höguðu því þannig að Tómas drukknaði þegar bátur hans fórst í aftakaveðri í apríl 1963. Ekkja Tómasar er Sigríður Hermannsdóttir á Dalvík og eignuðust þau þrjú börn. Afi hélt alltaf góðu sambandi við fjölskylduna á Dalvík enda voru þau honum mikilvæg tenging við átthagana.

Þrátt fyrir þessa erfiðu lífsreynslu þá var afi alla tíð lífsglaður maður og bar ekki sorg sína á torg. Hann fór snemma til sjós og lærði handbrögðin af föður sínum sem var mikill hagleiksmaður, góður smiður og einstök selaskytta. Í landi vann hann við það sem til féll hverju sinni í aðdraganda kreppunnar. Hann kynntist því snemma brauðstritinu og ranglætinu í þjóðfélaginu. Afi tók því virkan þátt í réttindabaráttu verkafólksins á þessum tíma, sem snerist um það að fá að stofna félög og semja um kaup og kjör. Hann var einn af stofnendum verkalýðsfélagsins á Dalvík og var fyrir vikið heiðraður af Verkalýðsfélaginu Einingu í Eyjafirði árið 1983.

Til Siglufjarðar kom hann síðan árið 1935, enda var þar næga atvinnu að hafa og síldarbærinn í miklum vexti. Þar kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, og ömmu okkar, Mundínu Sigurðardóttur frá Vatnsenda í Héðinsfirði. Þau giftust árið 1938 og eignuðust þrjú börn, Ásbjörn, Hönnu og Halldóru, sem öll eru búsett á Siglufirði. Barnabörnin og barnabarnabörnin, frá Siglufirði og Dalvík, eru orðin yfir þrjátíu og alla tíð lagði hann mikið upp úr því að halda góðu sambandi við okkur og það var ætíð gott að koma í heimsókn til afa og ömmu á Vetrarbrautina, Laugarveginn og nú síðast Dvalarheimilið Skálahlíð.

Barnabörnin frá Dalvík. Hermann, Guðrún og Jóhanna Tómasarbörn. Mynd úr einkasafni.

Það er óhætt að segja að afi Pétur hafi verið persónugervingur síldarævintýrsins á Siglufirði þegar það var og hét. Þeir sem komið hafa og minnst síldarævintýrsins með okkur Siglfirðingum á sumrin undanfarin ár, hafa oft velt því fyrir sér hvort stemmningin og yfirbragð síldaráranna hafi í raun verið eins og segir í minningum þeirra sem upplifðu þennan merka kafla í atvinnusögu okkar Íslendinga. Eftir að hafa heyrt sögurnar frá afa og samtímamönnum hans erum við ekki í vafa um að svo hafi verið.

Hann var bæði vélstjóri og kokkur á síldarbátum og í landi var hann planformaður hjá helstu síldarsaltendum bæjarins. Á kvöldin var hann svo hrókur alls fagnaðar, spilaði, söng og dansaði þar til ræst var í söltun að nýju. Svona var lífið á Siglufirði á síldarárunum. Yfir vetrartímann lá bærinn að mestu í dvala og þá vann afi oft á tíðum í SR eða Tunnuverksmiðjunni. En þá gafst góður tími til að sinna félagsstörfum enda hafa Siglfirðingar löngum haldið úti eigin menningarlífi vegna einangrunar staðarins. Pétur Bald var ein af driffjöðrunum í Leikfélagi Siglufjarðar og söng mikið í revíum á þessum tíma. Við minnumst þess að hann tók okkur með í fyrsta skipti á leiksýningu og var það mikil upplifun fyrir ung börn. Hann söng ennfremur með Karlakórnum Vísi og Kirkjukórnum í áratugi.

Allar þessar minningar eru okkur í fersku minni því afi var duglegur að segja okkur sögur og rifja upp gömlu tímana þegar við barnabörnin vorum að alast upp á Siglufirði. Það var alltaf gott að koma til afa og ömmu eftir skóla og þiggja heitt kakó, tefla og hlusta á skemmtilegar frásagnir. Besti tíminn fyrir sögur og endurminningar var þó þegar við fengum að fara með á sjóinn eða í silungsveiði í Héðinsfjörðinn, eftir að afi gerðist trillukarl á efri árum. Smábátasjómennskan átti vel við hann enda fannst honum einna best að vera sjálfs sín herra úti á sjó í kyrrðinni og öllu sem því fylgdi.

Við bræðurnir vorum ekki háir í loftinu þegar við fengum fyrst að fara á sjó með afa og kynnast sjómennskunni. Hann lagði sig fram við að kenna okkur réttu handtökin og lagði áherslu á að við lærðum helstu örnefni og viðmið í landi. Stundum gekk hann út frá því að við strákarnir fetuðum í fótspor hans og yrðum sjómenn seinna meir. Ekki gekk það þó eftir með okkur, en hann fékk sinn skipstjóra í nafna sínum Pétri Bjarnasyni og var samband þeirra sérstaklega náið og gott.

Skemmtilegustu minningarnar frá þessum tíma eru úr ferðunum í Héðinsfjörðinn með afa og Pétri Bjarna á Freyjuunni, trillunni sem hann átti lengst af. Afi var veiðivörður þegar Héðinsfjörður dró hvað flesta til sín á sumrin. Hann þekkti því allar aðstæður í firðinum og oft var byrjað á því að sigla inn á milli klettanna sem mynda náttúrulega höfn í utanverðum firðinum. Þá var farið í land og klifrað eftir eggjum. Síðan var haldið inn í fjarðarbotninn og róið í land á árabát og tekið til við að moka bleikjunni á land.

Í Héðinsfirði komumst við í snertingu við óspillta náttúruna, fegurðin var mikil og kyrrðin fullkomin. Ef við vorum heppnir þá var gist í veiðihúsinu og þá gat maður átt von á því að sá gamli brygði sér í gömul hlutverk úr Leikhúsinu. Það má vissulega líkja samverustundunum í Héðinsfirði við himnaríki á jörð og í síðasta sinn sem við heyrðum í afa sagði hann: “Við förum á Freyjunni í Héðinsfjörðinn næsta sumar.” Nú er hann farinn í sína hinstu siglingu og himnaríki mun standa honum opið þegar í höfn er komið.

Það voru í raun forréttindi að fá að alast upp við þessar aðstæður, þar sem kynslóðirnar lifðu í nánu samneyti hver við aðra, þar sem eldra fólkið miðlaði þekkingu sinni og reynslu til barnanna og gaf okkur tækifæri á að upplifa gamla samfélagið og náttúruna í sinni fegurstu mynd. Að þessu munum við búa allt okkar líf og vera ríkari fyrir vikið og fyrir þetta erum við honum ævinlega þakklát.

Nú er komið að kveðjustundinni og langri, strangri en jafnframt litríkri ævigöngu er lokið. Þegar við höfum fylgt afa í hans hinstu för gengur jólahátíðin í garð og hún mun vissulega vekja upp fleiri minningar. Fyrir afa voru jólin alltaf sérstök hátíðarstund og hann lagði mikla áherslu á að allir væru glaðir í kringum hann. Ekki endilega með stórum gjöfum heldur með vináttu og hjartahlýju.

Við minnumst jólaboðanna heima hjá afa og ömmu og þar kom jólasveinninn alltaf í heimsókn. Þessi sami jólasveinn skemmti síðan öllum börnum bæjarins á jólaböllunum sem á eftir komu. Þegar við uppgötvuðum leyndardóm jólasveinsins þá sáum við að það var leikarinn og söngvarinn Pétur Bald sem var á bak við hvíta skeggið og fór mjög vel með hlutverkið.

Það er því erfitt að kveðja afa nú þegar hátíð ljóssins er að hefjast, en minningin um hann mun lifa hjá okkur afkomendum hans. Guð blessi minningu Péturs Baldvinssonar.

Jón Ólafur Björgvinsson, Sigurður Tómas Björgvinsson.

Texti lánaður frá Heimildarsíðu Steingríms Kristins sem hefur safnað saman miklu magni af minningum um látna Siglfirðinga.

Bestu kveðjur og Gleðileg jól.

Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Kristfinnur Guðjónsson.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

HJÄLP! SÍLDIN RÆÐST Á OKKUR.

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!

AFGLAPASKARÐ

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!