Meðal manneskja innbyrðir 5 grömm af plasti á viku. Hér eru níu ráð frá Landvernd um hvernig megi draga úr þessu magni.

Fara 5 grömm af plasti í kroppinn þinn í hverri viku

Nýleg rannsókn sýnir að meðal manneskja innbyrðir að meðaltali 5 grömm af plasti í hverri viku. Örsmáar agnir sem eru ósýnilegar mannsauganu komast inn í kroppinn með matnum sem við borðum, úr ílátunum sem við geymum matinn í og úr loftinu sem við öndum að okkur. Það má því segja að við innbyrðum sem nemur einu plast kreditkorti í hverri viku.

Örplast finnst allstaðar

Örplast hefur fundist allsstaðar á Jörðinni: í , hafinu, á jöklum, í stöðuvötnum, á botni sjávar, fjallstoppum, í kranavatninu í blóði og jafnvel í fóstrum í móðurkviði og allstaðar þar á milli.

NÍU GÓÐ RÁÐ

Hér eru sjö leiðir sem hjálpa þér að minnka plastmagnið sem þú innbyrðir.

1. Hitaðu mat í gleri

Gætum þess að hita mat í gleri, ekki plasti. Eituð aukaefni í plasti t.d. í melamíni leka út í matvælin við hærri hita en 70°C.

2. Loftaðu út

Loftaðu út. Plastagnir í loftinu koma meðal annars úr gerviefnum og textíl á heimilinu. Loftaðu út.

3. Kauptu minna

Kauptu minna. Endurhugsaðu þarfir þínar og kauptu aðeins það sem er nauðsynlegt. Þá minnkarðu líka flæði óþarfa plasts inn á heimilið. 

4. Drekktu úr gleri

Kranavatnið er betra úr gleri eða málmi en plasti. Örplast losnar úr plastflöskum út í vatnið. Ef þú drekkur vatn úr plastflöskum, gættu þess að láta sólina ekki skína á flöskuna. 

5. Skoðaðu fötin þín

Skoðaðu fötin þín. Eru þau úr náttúrulegum efnum eða gerviefnum? Það er kannski ekki ákjósanlegt að fara út að hlaupa í ull, en það er kannski óþarfi að eiga 10 íþróttaboli úr gerviefnum. Veljum vel og kaupum bara það sem við þurfum.

6. Slepptu blautþurrkum

Notaðu þvottastykki í stað blautþurrka. Blautþurrkur brotna ekki niður í náttúrunni. Ekki heldur þær sem eru merktar lífniðurbrjótanlegar. Þær brotna aðeins niður við yfir 70°C í jarðgerðarstöð.

7. Skoðaðu snyrtivörurnar þínar

9 af hverjum 10 snyrtivörum innihalda ör- eða nanó plast. Flettu þínum snyrtivörum upp hér á síðu Beat the micro bead (líka hægt að sækja app). Ef þín uppáhalds snyrtivara inniheldur plast, þá er hægt að senda fyrirtækinu bréf þar sem þú ferð fram á að það endurskoði efnainnihaldið. 

8. Notaðu nefið

Notaðu nefið. Ef plasthluturinn er með sterkri lykt og olíu brák þá er líklegt að hann innihaldi aukaefni sem ekki eru æskileg. Þvoðu ný föt og leikföng áður en þau eru sett í notkun. 

9. Leitaðu eftir umhverfismerkjunum

Umhverfismerkin 5 segja til um að vörurnar séu skársti kosturinn fyrir umhverfið og innihaldi ekki örplast. 

Mynd Sören Funk/Örplast á strönd