Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður – Aukinn stuðningur við nýsköpun á landsbyggðinni, sérstakur sjóður um rannsóknir í byggingariðnaði og Nýsköpunargarðar fyrir nýsköpun á sviði hátækni

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun í Samráðsgátt stjórnvalda. Í frumvarpinu eru lagðar til talsverðar breytingar á opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Í frumvarpinu felast áform um að starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verður lögð niður, stofnaðir verða Nýsköpunargarðar með áherslu á stuðning við frumkvöðla og sprotafyrirtæki á sviði hátækni, framlög til nýsköpunar á landsbyggðinni verða aukin og nýr sjóður settur á fót fyrir rannsóknir í byggingariðnaði.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Með frumvarpinu erum við að forgangsraða verkefnum í þágu nýsköpunarumhverfisins í takti við Nýsköpunarstefnu. Umhverfi nýsköpunar á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum og frumvarpið tekur mið af því. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem ber að þakka en undanfarna mánuði höfum við unnið að því að endurskoða hlutverk stofnunarinnar og fundið hluta verkefna hennar nýtt heimili á meðan önnur verkefni verða færð til eða hætt. Það er eðlileg þróun í jafn kviku umhverfi og nýsköpunarumhverfið á Íslandi á að vera.”

Þegar Nýsköpunarmiðstöð var stofnuð árið 2007 var gert ráð fyrir að stofnunin yrði endurskoðuð tveimur árum síðar. Slík endurskoðun hefur ekki átt sér stað fyrr en nú en bæði stjórnvöld og hagaðilar hafa lagt hana til, meðal annars þar sem kveðið var á í lögum um stofnunina að hún skyldi ekki vera í samkeppnisrekstri á markaði.

„Við viljum skerpa á hlutverki og forgangsröðun ríkisins í opinberum stuðningi við nýsköpun og atvinnulíf með því að leggja áherslu á þá starfsemi sem þarf mestan stuðning“ segir ráðherra.

Stofnaður verður sérstakur sjóður um byggingarannsóknir í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og mótuð langtímastefna um þróun, rannsóknir og nýsköpun í íslenskum byggingariðnaði. Byggingariðnaðurinn er bæði mikilvæg og stór atvinnugrein og mikið er í húfi fyrir almenning í landinu að til staðar séu öflugar rannsóknir og fræðsla.

Auk rannsókna í byggingariðnaði hefur Nýsköpunarmiðstöð unnið að ýmsum rannsóknarverkefnum á sviði efnis-, líf- og orkutækni. Með tilkomu Nýsköpunargarða er þeirri starfsemi gert hærra undir höfði.

„Okkur finnst mikilvægt að tryggja formlega aðkomu háskólasamfélagsins að rekstri Nýsköpunargarða og að háskólarnir taki virkan þátt í að þróa verkefnið áfram“ segir ráðherra.


Áframhaldandi endurskoðun á nýsköpunarumhverfinu

Frá útgáfu Nýsköpunarstefnunnar haustið 2019 hefur verið unnið að því að koma tillögum og aðgerðum sem þar eru settar fram í framkvæmd. Markmið Nýsköpunarstefnu er að gera opinbert stuðningsumhverfi skilvirkt og verkaskiptingu skýra. Eitt af leiðarljósum stefnunnar er að fjármagni sé beint í rannsóknir og frumkvöðla frekar en í umsýslu og yfirbyggingu. Þar var einnig lagt til að unnið væri að endurskoðun og stefnumótun um starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í þeim tilgangi að skilgreina hlutverk hennar og áherslur innan stuðningskerfis nýsköpunar.

Í febrúar síðastliðnum kynnti nýsköpunarráðherra áform sín um að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður um áramót og finna nýjan farveg þeim verkefnum sem haldið yrði áfram. Í frumvarpinu koma fram tillögur úr þeirri vinnu sem unnin var í samráði við hagaðila og er breytingum þeim sem nú eru lagðar til ætlað að stuðla að öflugum opinberum stuðningi þar sem hans er þörf í núverandi umhverfi.

„Með þessu frumvarpi er sett fram ný nálgun á umgjörð nýsköpunar sem nauðsynlegt er að endurskoða reglulega. Ég hef fulla trú á að með þessu séum við að gera breytingar sem munu skila sér í betra og sterkara nýsköpunarumhverfi og betra verklagi í þjónustu við atvinnulífið.”

Bein framlög úr ríkissjóði til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru nú rúmlega 700 milljónir króna árlega, að undanskildum kostnaði við húsnæði NMÍ í Keldnaholti, sem fært verður til ríkiseigna. Ráðgert er að tæplega helmingur þess fjármagns verði notaður til að fylgja eftir þeim verkefnum stofnunarinnar sem framhald verður á og ráðherra áformar því að rúmlega 350 milljónir króna verði eftir í ríkissjóði að lokinni endurskipulagningu. 

Frumvarpið er nú í Samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að skila inn umsögnum til og með 9. október 2020.


Spurt og svarað um frumvarp um opinberan stuðning við nýsköpun  

Hvert er markmið laganna?  

Markmiðið er að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila og  sérstakri áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni. Markmið laganna er einnig að skýra ábyrgð, einfalda verklag og forgangsraða í opinberum stuðningi og þjónustu við atvinnulífið.  

Hvað verður um Nýsköpunarmiðstöð Íslands?  

Með gildistöku laganna verður Nýsköpunarmiðstöð lögð niður, hluti verkefna hennar verður færður undir annað rekstrarform, hluti verður framkvæmdur af aðilum á markaði og hluta verkefna verður ekki haldið áfram. Hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands starfa í dag tæplega sjötíu starfsmenn. Við breytingarnar fer hluti þeirra á biðlaun og á eftirlaun um áramót, hluti starfsmanna hættir og ráðgert er að hluti starfsmanna fylgi verkefnum á nýjum vettvangi.  

Hvað verður um eignarhluti NMÍ í fyrirtækjum?

Eignarhlutir Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í fyrirtækjum sem ekki verður búið að ráðstafa um áramót færast til ríkissjóðs og skal sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins fara með hlut ríkisins í slíkum félögum. 
 

Hvað eru Nýsköpunargarðar?  

Stofnað verður félag um rekstur tækni- og rannsóknaseturs sem tekur við hluta af verkefnum Efnis- líf- og orkutækni og Rannsóknastofu byggingariðnaðarins undir heitinu Nýsköpunargarðar. Félagið verður óhagnaðardrifið einkahlutafélag að fullu í eigu ríkisins þar sem ríkið leggur fram hluta af tækjabúnaði Nýsköpunarmiðstöðvar sem stofnframlag. Með stjórn félagins munu fara fulltrúar háskólasamfélagsins og ráðuneytisins. Lögð verður áhersla á að félagið geti þjónað bæði sjálfstæðum frumkvöðlum og rannsóknarstarfsemi allra háskóla á landinu.

Hvernig verður nýsköpun og framlag til hennar eflt á landsbyggðinni?

Lögð verður áhersla á að efla og þétta stuðningsnet nýsköpunar á landsvísu á forsendum landshlutanna sjálfra og í náinni samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, atvinnulíf og menntakerfi á einstökum svæðum. Stutt verður við framtak aðila sem bjóða fram þjálfun, námskeið og vinnustofur á sviði nýsköpunar. Þá er lagt upp með að settur verði á fót verkefnasjóður fyrir nýsköpun í samstarfi við landshlutasamtök sveitafélaga og sóknaráætlanir landshlutanna. Þessi verkefnasjóður er viðbót við þau verkefni og framlög sem nú eru til staðar á vegum sóknaráætlana landshlutanna. Unnið verður að sterkari umgjörð fyrir starfsemi stafrænna smiðja sem byggir á samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnulífs.   

Hvað verður um stuðning við frumkvöðla?  

Starfsemi Frumkvöðla og fyrirtækja hjá NMÍ verður lögð niður en áfram verður unnið ötullega að opinberum stuðningi í öllum landshlutum. Þar á meðal verður áhersla lögð á áframhaldandi fræðslu og þjálfun í nýsköpun í skólakerfinu, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem og áframhaldandi samstarf við Vinnumálastofnun um aðstoð við einstaklinga í atvinnuleit.

Hvað verður um rannsóknir og prófanir í byggingariðnaði?  

Í þeim tilgangi að styðja við rannsóknir í byggingariðnaði munu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og barnamálaráðherra setja á fót samkeppnissjóð um byggingar- og mannvirkjarannsóknir. Sjóðurinn verður fjármagnaður sameiginlega af ráðuneytunum og áherslur sjóðsins munu einkum snúa að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Lagt er upp með að umsýsla verði hjá Tækniþróunarsjóði.

Með stofnun slíks sjóðs er  leitast við að opna opinbert styrkjaumhverfi fyrir fleiri aðila úr háskólasamfélagi og atvinnulífi og stuðla að auknu samstarfi við erlenda rannsóknaaðila. 

Lögð verður áhersla á að tryggja samfellu í samfélagslega mikilvægum rannsóknum sem nú er unnið að hjá stofnuninni.

Þrátt fyrir að ákveðnum hluta prófana sem gerðar eru hjá Rb megi hætta þá eru tilteknar prófanir framkvæmdar hjá stofnuninni sem ekki eru framkvæmdar annars staðar í dag og ekki er raunhæft að flytja til einkaaðila á þessum tímapunkti. Því mun þeim prófunum hætt sem boðið er upp á á einkamarkaði en haldið áfram að veita ákveðna þjónustu svo samfella í framleiðslu byggingarvara verði tryggð á meðan unnið er að framtíðarlausn um prófanir í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur. Sá tækjabúnaður sem nauðsynlegur er til slíkra prófana mun færast til Nýsköpunargarða við stofnun félagsins og prófunarþjónusta veitt áfram sem hluti af starfsemi félagsins. Unnið verður að því í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu í samstarfi við atvinnulífið að prófanir þessar geti verið framkvæmdar í faggiltu umhverfi á einkamarkaði í náinni framtíð.

Einnig mun Byggingavettvangnum, samráðsvettvangi hagaðila í bygginga- og mannvirkjagerð, vera falið að móta langtímaáætlun um fyrirkomulag rannsókna og þróunar í byggingariðnaði og mun skila þeirri áætlun fyrir áramót.

Hvað verður um Rb-blöðin? 

Mikilvægt er að áfram verði haldið uppi öflugri fræðslu og upplýsingamiðlun og því verður þessi starfsemi flutt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Með þeim flutningi gefst einnig tækifæri til aukinnar samlegðaráhrifa í fræðslu og upplýsingamiðlun auk þess sem flutningur gagna frá Nýsköpunarmiðstöð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar mun styrkja gagnagrunn stofnunarinnar á sviði mannvirkjamála.   

Hvert færast verkefni Efnagreininga?  

Með vísan til samlegðaráhrifa, tækjabúnaðar og sérþekkingar verður starfsemi Efnagreininga sameinuð starfsemi efnamælinga hjá Matís ohf. á grundvelli sameiginlegrar ákvörðunar ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í sameiningunni felst að mælingar og prófanir sem Efnagreiningar sinna verða aðlagaðar að gæðastjórnunarkerfum og ferlum sem til staðar eru hjá efnamælingum Matís og sameinuð rannsóknarstofa mun leggja áherslu á faggildar mælingar í samræmi við þarfir markaðar og samfélags.

Hvert flyst starfsemi Evrópumiðstöðvar?  

Frá 1. janúar 2021 mun það verkefni flytjast til Rannís en ráðgjöf og aðstoð vegna styrkumsókna hefur hingað til verið veitt bæði af hálfu Rannís og Nýsköpunarmiðstöðvar. Með því að EEN verkefnið færist til Rannís mun nást fram töluvert hagræði og samlegðaráhrif.

stjornarradid.is