Þetta „ódána“ viðurnefni sem gárungarnir á Siglufirði gáfu honum skömmu eftir að hann varð 105 ára hafði nú fylgt honum í næstum 20 ár. Honum fannst þetta bara frekar fyndið, því útskýringin á bak við viðurnefnið var að bæjarbúar væru aldrei vissir um hvort að þeir væru í rauninni að mæta Pétri sjálfum eða draugi.
Péturs helsta ánægja var að fara daglega í langa göngutúra, hvernig svo sem viðraði og þá helst annan hvern dag upp í Hvanneyrarskál. Auðvitað fannst mörgum bæjarbúum það einkennilegt að mæta þessum eldhressa, nú heimsfræga karli, sem verður 125 ára næsta sumar.
Sjálfur var Pétur ódáni löngu orðin hundleiður á bæði frægðinni og á lífinu, hann þráði það heitast að fá að deyja í friði og var harðákveðinn í að svo skyldi verða áður en öll heimspressan enn einu sinni kæmi á Sigló og krefði hann útskýringa og um uppskriftir af löngu lífi.
Sjálfur vissi hann mikið vel hvaðan hans ódauðleiki kom og hann nennti hreinlega ekki að ljúga lengur.
Í kirkjubókum stendur að hann sé fæddur 23 júní 1896 í Vík í Héðinsfirði og er þar skrifaður Ásgrímsson. Þetta er að mörgu leyti rétt en samt ekki allt. Því Ásgrímur var fóstri hans og hann fæddist ekki í Víkurbænum.
Sumir segja að langt líf sé Guðs blessun en Pétur ódáni vissi betur, því hann var einn örfárra sem hafa reynslu í þessu langlífisfyrirbæri.
Það var nú samt að fjölga í 100 plús klúbbnum þarna á ellismellaheimilinu Skálahlíð hugsaði Pétur ódáni og fannst hann vera minna einn í þessum aldurserfiðleikum.
Ein eldhress vinkona Péturs er að verða 105 ára og nokkrir aðrir í viðbót að nálgast inntökualdurinn og svo má alveg bjóða inn nokkrum frá Ólafsfirði líka, núna þegar við getum hitt þessa góðu nágranna okkar oft og auðveldlega eftir tilkomu Héðinsfjarðargangna.
Hann hafði nú verði eftirlaunaþegi í tæp 58 ár, en áður hafði hann eytt meira en hálfri öld í að sigla um höfin sjö sem fraktskipasjómaður og svo varð hann leiður á því og snéri skútunni heim á Sigló en þar hafði honum ætíð liðið mjög vel.
Nú voru allir sem voru honum skyldir, sem og vinir löngu látnir og hann hafði í gegnum árin farið í álíka margar jarðafarir eins og böllin sem hann stundaði ákaft ungur á árunum þegar síldin var og hét Silfur hafsins.
Hann saknaði mest 10 ára eldri systur sinnar sem hafði verið honum stoð og stytta á erfiðum barna og unglingaárum. Hún var lengi vel eina manneskja sem vissi hans stóra leyndarmál og hún tók það með sér í gröfina.
Pétur hafði alltaf borið í sér forvitni um lífið og tilveruna og hann af öllum hafði fengið að vera áhorfandi lengur en nokkur önnur núlifandi manneskja. Hann hafði samt ekki komist að neinni sérstakri niðurstöðum um hvað lífið snérist.
Hann var einna helst á því að lífið sé einfaldlega það sem hver og einn af okkur velur að gera úr því.
Pétur svalaði forvitni sinni með því að lesa um hitt og þetta á alnetinu, því hann hafði alla tíð haft mikinn áhuga á tækni og vísindum og þannig fyllti hann daga sína sem voru margir og óteljandi. Hann var líklega mest tækni vædda gamalmennið á Siglufirði og hann aðstoðaði sér miklu yngri nemendur í tíma og ótíma við að tengjast lífinu gegnum netið.
En nú fannst Pétri nóg komið af þessum fræga ódauðleika.
Honum leið oft þannig að fólk talaði ekki við hann sem lifandi mannveru, heldur meira sem einskonar fyrirbæri eða „sirkusfrík“ sem í rauninni væri að brjóta einhver náttúrulögmál með því einu að standa á löppunum. En lappirnar báru hann enn og hann tók reglulega þetta Siglfirska Benecta rækjuskelsduft og það fór vel í hans slitnu liðamót.
Pétur Googlaði oft orð eins og langlífi og ódauðleiki og hann sá að í gegnum mannkynssöguna var mikið til af sögum af langlífu fólki. Einn suður Ameríkani sagðist t.d. vera 146 ára árið sem hann dó, en Pétur ódáni sá líka að slatti af fólki hafði náð því að verða yfir 120 ára og Japani sem varð 116 ára hafði unnið sem bóndi í 98 ár, geri aðrir betur.
Mest gaman fannst honum samt að lesa um ýmsar útskýringar ellismellanna um ástæður langlífis og það var allt frá því að borða hollan mat og sofa stundum sólahringum saman og yfir í að hafa reykt einn og hálfan pakka á dag frá 17 ára aldri og skálað daglega í góðu brennivíni.
Margir sögðu að það sé best að gifta sig ekki og það átti vissulega vel við Pétur en það er ekki ástæða hans langlífis .
Þennan snjóþunga vetur hafði hann ekki komist í svo marga göngutúra en haft því mun meiri tíma í að skipuleggja sitt eigið andlát.
Sannleikurinn um minn eigin ódauðleika liggur í ást móður minnar og hennar vilja og fórn til þess að ég myndi verða lifandi barn í þeim harða heimi sem ég fæddist í.
Viðurkenndi Pétur ódáni í einum af mörgum samtölum við skilningsríkan prest fjarðarins sem hann taldi til sinna örfáu núlifandi trúnaðarvina.
En ég er fæddur á Jónsmessunótt 23 júní 1896 á miðjum ódáinsakri í Hvanndölum.
Móðir mín og faðir voru fátæk hjú á bóndabæ inni í Fljótum. Þau giftu sig, en fengu lengi vel aldrei að búa saman sem hjón. Faðir minn var háseti á hákarlaskipi frá Haganesvík og var mest lítið heima. Þau eignast síðan hana elskulegu systur mína 1886 og þau leita allra ráða með að fá að vera frjáls hjón og þau vilja svo gjarnan leiga sér lítið kot einhversstaðar í nágrenninu. Það er ekkert í boði en svo fær faðir minn að vita að Hvanndalakotið sé nú í eyði og það sé möguleiki á að fá það leigt.
Þau slá til og flytja þangað með systur mína eins árs gamla og þetta verður strax hart og erfitt en samt frjálst líf. Faðir minn ræður sig á hákarlaskútu frá Siglunesi og móðir mín sér um búskapinn á þessari hrikalegu klettasyllu.
Gegnum árinn missir mamma fjögur kornabörn fyrir eins árs aldur og þau eru öll grafin í óvígðri jörð í Hvanndölum, því engin feitur prestur treysti sér í sjóferð eða í það hættuverk að klifra uppúr fjörunni upp í þessa Guðs voluðu Hvanndalaklettasyllu.
Þegar móðir mín ber mig undir belti, ákveður hún að notfæra sér kraftinn sem er sagður koma úr þeim fræga ódáinsakri sem er þarna og þjóðsagan segir að fólk sem fæddist þar yrði ódauðlegt, en þessi “ánauð” þótti það erfið að bæjarstæðið var flutt vestur fyrir lækinn, segir sagan.
Systir mín, rétt 10 ára, er mín ljósmóðir og móðir mín skipar henni síðan að grafa móðukökuna og naflastrenginn sem þakklætisnæringar gjöf í ódáinsakurinn góða og samtímis gefur hún mér sína móðurmjólk og nokkra dropa að grasaseiði sem hún hafði soðið úr Hvanndala galdragrösum.
Móðir mín ákallar Guð og alla vætti sem búa á staðnum og biður um að hvorki sjúkdómar eða slys geti tekið þetta barn frá henni.
Þetta fékk hún aldrei sannreynt, því á leið sinni til vitjunar í fjárhúsin klakavorið mikla árið eftir, hrasaði hún og féll hún fram af Hvanndala syllunni og hvarf út á haf og eftir stóð faðir minn sem illa brotinn maður.
Sama sumar 1897 keypti Hólabiskupsumdæmi Hvanndali og dæmdi þennan stað sem óhæfan mannabústað og við systkinin vorum sett í fóstur hjá góðu fólki inná Vík í Héðinsfirði og ég var þá óskírður eins árs gamall. Ásgrímur í Vík vissi að það það væri ákveðin fátæktarskömm fylgjandi því að láta skrá mig sem fæddan í Hvanndalakoti svo hann ættleiddi mig á skírnardaginn.
Í Héðinsfirði lifði ég í góðu yfirlæti næstu 10 árin, þá flutti ég til systur minnar á Siglufirði. Hún hafði gifst góðhjörtuðum síldarútgerðarmanni, sem átti ættir sínar að rekja út á Siglunes.
Kæri vinur og umboðsmaður Guðs, trúðu mér, ég hef margoft sannreynt að móður minni tókst að gera mig ódrepandi.
Ég hef aldrei orðið veikur, einu sinni missti ég fingur þegar við vorum að vinna við útskipun á járnstöngum í Svíþjóð. En nokkrum vikum seinna hafði þessi fingur vaxið út aftur.
Eflaust finnst mögum ég vera kaldur og kærulaus að vera á rölti út um allan bæ í þessum kórónafaraldri en þessi vírusfjandi mun ekki drepa mig.
Það sem ég þarf að biðja þig um að skilja og hjálpa mér við er að ég veit að mín eina leið til þess að fá að yfirgefa þetta líf er að ég verð að komst inn í Hvanndali og deyja á sama stað og ég fæddist á. En ég bara treysti mér ekki til þess að ganga þangað á lúnum fótum yfir fjöll og firnindi.
Pétur ódáni og Guðsmaðurinn kölluðu til sín á leynifund þrjá góða stráka úr Björgunarsveitinni Strákar og presturinn lagði sig allan fram við að sannfæra sveitarmenn um að hjálpa Pétri að fá loksins að deyja á ódáinsakrinum í Hvanndölum.
Einn af þessum þremur vel skeggjuðu Björgunarsveitarmönnum strauk sér ákaft um skeggið og sagði svo skelkaður:
Við erum nú aðallega í því að bjarga fólki úr háska og ekki í því að aðstoða fólk við að drepast.
Þá fauk í Pétur sem bar sitt klettanafn með miklu stolti og hann hreytti út úr sér hvort þetta Strákafélag hafi ekki sótt nafn sitt úr virðulegum strákum úr frægu fjalli eða er þetta félag einhver drengja kirkjukór og svo bætti hann við:
Ég er nú aldeilis búinn að styrkja ykkur vel í meira en hálfa öld og ég er til í að ánafna ykkur öllu sem ég á inná bók í Sparisjóðnum en þeir geyma fyrir mig um 10 milljónir.
Já, há…. þú segir nokkuð… en ef þú drepst ekki og liggur bara þarna hálffrosinn og kaldur?
Spurði einn Strákurinn spekingslega.
Nú þá drepst ég greinilega ekki og þið komið þá bara og bjargið mér.
Síðan komust þeir að samkomulagi um að bíða fram að páskum eftir lygnri þokunótt og þá myndu þeir læðast óséðir út úr firðinum á gúmmítuðrunni góðu og síðan hífa Pétur ódána upp úr fjörunni í Hvanndölum í fjallaklifurreipum.
Þessi nótt kom aðfaranótt föstudagsins langa og presturinn blessaði þá alla og Pétur hinn ódauðlegi fékk gamlan snjósleðagalla, því þeim fannst það óþarfi að láta sér verða kalt við það eitt að reyna að drepast.
Allt gekk eftir og Strákarnir kvöddu og minntu Pétur á að hringja ef hann dræpist ekki.
Pétur ódáni Ásgrímsson lagðist fyrir á hálffrosin ódáinsakurinn og horfði á þokuna létta og honum birtust dansandi norðurljós í óendanlegum blámahimni norðursins.
Hann rétt náði að segja: Takk fyrir mig, þetta er orðið ágætt, við náttúruna áður en móðurleg sælutilfinning dauðans faðmaði hann og bauð hann loksins velkomin heim.
Heimspressan mætti á staðin og engin skildi hvernig næstum 125 ára, elsti núlifandi maður heimsins hafði horfið og síðan á einhvern óskiljanlegan hátt komist sjálfur á sinn hrikalega fæðingarstað í Hvanndölum… um há vetur.
Það var víst algjört leitarslys að þyrla Landhelgisgæsluna sá Pétur í þessum appelsínugula snjósleðagalla á leið sinni til Siglufjarðar til að taka þátt í leitarstarfi með Björgunarsveitinni Strákum.
En Pétur „dáni“ er allavega þar sem hann vildi vera og hann slapp við að ljúga enn einu sinni að öllum heiminum einhverju bulli og vitleysu um hvernig maður getur orðið svona gamall.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Ljósmynd er lánuð frá Kortasjá Fjallabyggðar
(Þakklætiskveðjur til fósturmóður minnar Solveigar Jónsdóttur fyrir prófarkalestur og góð ráð.)
Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.
SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR
LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!
SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI
KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI