Þó ég sé að verða 59 ára þá er það á mörkunum að ég þori að viðurkenna þennan hræðilega glæp sem ég tók þátt í fyrir nær hálfri öld. En þó þetta sé lagalega fyrnt fyrir löngu síðan þá er ég vel meðvitaður um að ég get átt von á svörum eins og þessum frá einum af örfáum sem vita mína sök í þessu máli, en hann sagði:

Jáhá, Nonni Björgvins, þetta varst sem sagt þú…  hmm … þetta er svo sem fyrirgefið.

EN ALLS EKKI GLEYMT!

Já einmitt, OMG!
Næst þegar ég kem heim á Sigló þá á ég kannski ekki von á góðu.
Nei. líklega ekki, því þeir sem eiga hlut að máli eru allir góðir og skilningsríkir strákar í dag.

Þessi saga gerðist snemma á tíunda sumri lífs míns og snýst um kæjakastíð og skæruhernað í suðurbænum. Þetta var eiginlega hálfgert innanríkisstríð, milli ólíkra fylkinga innan Húna-gutta. En undir því nafni sameinuðust Suðurbæjar og Brekkuguttar, um tíma að minnsta kosti.

Sjá meira um kæjakastríð og fl. skemmtileg hér:
HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1. HLUTI
og
HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 2. HLUTI

Þetta stríð skapaðist upp úr óljósri arfleiðingu á flottasta kæjakanum sem til var í bænum.

En hann heitir í minningu minni Haförninn, einstaklega flottur og vel smíðaður kajak af bræðrunum Árna og Þórði Þórðarsonum. Haförninn var málaður í tveimur bláum tónum og var yfirbyggður með gulmáluðum hvalbak.

Þetta sumar voru bræðurnir líklega farnir á sjó og hættir að leika sér með okkur smástrákunum á Leirutanganum. Kæjakinn flotti átti að erfast af okkur Leirutangastrákum en svo var honum hreinlega „STOLIГ eina nóttina og hann bara fluttur og falin undir risastórum kofa sem stóð á bakkanum sunnan við fjárhúsið hans Óla Löggu.

Syðstu húsin í bænum og fjárhúsin hans Óla Löggu við fjöruborðið. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Þennan flotta kofa sem leit út eins og ágætis bárujárnseinbýlishús höfðu þeir tvíburabræðurnir Ásgeir og Guðni Maggi Sölvasynir og Árni vinur þeirra í næsta húsi og líklega Raggi Tona Laugarvegsvinur þeirra lagt fleiri sumur í að byggja og betrumbæta.
Þeir fengu í lið með sér í þessu kajakamáli örverpið Jónas Þórðarson og vildu meina að eldri bræður hans vildu að Jónas fengi að erfa þennan forláta Hafarnar-kæjaka.

Það var rifist um þetta dag og nótt í heila viku og augljóst að sáttir myndu ekki nást um afnotaréttin af Haferninum flotta. Stríðsaðgerðir voru ræddar á leynifundum í “Langa Gráa” brakkanum sem var hernaðarmiðstöð eldri herforingja okkar Leirutangakrakka.

Dag einn þegar ég mætti í nýtt ævintýri á tanganum þá er ég kallaður á fund hjá bræðrunum Venna og Halla Hafliðasonum (Didda ýtustjóra og Jóhönnu) og þeir segja við mig:

Nonni, þú ert lítill og liðugur og góður njósnari líka, en þú verður fyrst að sverja eið um að aldrei, aldrei segja neinum frá þessu.
Ég verð auðvitað stoltur og lít mikið upp til minna hersforingja og ég er líka óhræddur, ungur og vitlaus og til í allt.
Svo ég hlusta á fyrirskipanir bræðraforingjana og þær voru svona:

Hér er „salt-péturs og sykur sprengja“ sögðu þeir og réttu mér kolsvarta vel rafmagnslímbands teipaða sprengju á stærð við handbolta, með frekar stuttum sprengiþræði og lítinn poka með sömu blöndu í lausu formi.

Nú læðist þú suður eftir með fjörunni og svo brýst þú inn í kofan hjá drullusokkunum, brjóttu bara glugga og svo klifrar þú inn. Finndu góðan stað, helst í miðjum kofanum og svo leggur þú salt-péturs slóð að sprengjunni og sérð til að þráðurinn sé á kafi í slóðinni.
Ekki samt of langa slóð… því þetta er hálfgerð tímasprengja. Svo kveikir þú í og forðar þér út og svo kemurðu sömu leið til baka og við bíðum eftir þér sunnan við fjárhúsið hjá Helga Dan.

Ég læðist í fjörunni neðan við bakkann og passaði mig að missa ekki sprengjuna í þessa fjóra eða fimm opnu klóaklæki sem ég þurfti að vaða yfir. Taldi ekki smokka eins og venjulega, enginn tími til þess núna.
Svo skreið ég síðustu 100 metrana og komst óséður að kofanum og braut glugga og datt inná gólfið með sprengjuna.

Fann góðan stað á miðju gólfinu og lagði væna slóð að sprengjunni og góða hrúgu við sprengjuþráðinn stutta.
Kveikti í með hjartað í buxunum og flýtti mér sömu leið til baka.

Kem móður og másandi og gaf skýrslu og fékk klapp á öxlina og svo biðum við… lengi… og svo lengur…

Gleymdir þú að kveikja í… eða hvað Nonni ? Nei… og hvað varð þetta löng slóð hjá þér ?

Kannski svona einn metri… Ha.. það er allt of…

BÚM, svaka hvellur og við sjáum að allar rúðurnar í kofahelvítinu brotnuðu og mikill hvítur reykur sást út um allt.

Vá… svakalega velheppnuð sprengja hjá okkur strákar, sagði Venni herforingi og brosti allan hringinn.

Svo horfðum við á dágóða stund á þegar þessi íkveikjusprengja byrjaði að loga út um allt í kofanum, því svona salt-péturs sprengjur brenna hægt og slettast og brenna eins og plast reipi.

En svo leist okkur ekkert á blikuna, því nú byrjaði sinan á túninu fyrir ofan kofan að brenna og sunnan áttin hjálpaði til við að blása eldinum í áttina að kindakofanum hans Óla Löggu.

Ó, Shit… ekki gott, því okkur þótti öllum vænt um Óla Löggu og áttum ekkert vantalað við hann eða heimalingana hans sem voru þarna við kindakofan.

Við hættum að horfa á þetta hryðjuverk okkar og létum okkur hverfa þegar slökkvilið bæjarins mætti á staðin og við minntumst svo aldrei á þennan atburð aftur.

Fyrr en núna þegar ég loksins kjafta frá þessu öllu.

P.S.
Kannski er ekkert af þessu satt eða svo er helmingurinn bölvuð lygi og restin bara bull og vitleysa sem mig dreymdi.

Hver veit… en ef þetta er satt þá er þetta alla veganna helvíti skemmtileg saga um stórhættulega skæruhernaðar barnaleiki sem barnaverndarráð Siglufjarðar algjörlega missti af.
Sem betur fer, fyrir mig!

Og eins og Svíarnir segja oft í lok góðrar sögu:

Enginn ældi og enginn dó!  

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.