Viðurnefni, gælunöfn og fl.

… og svo gæti greinartitillinn haldið áfram með orðunum, … og sagan um hvað það getur verið skemmtilega leiðinlegt að heita JÓN og í lokin fáið þið einmitt stutta nútíma sögu um Litlu Gunnu-„JÓNU“ og litla JÓN.

Mér hefur oft verið það hugleikið þegar ég hugsa til baka til æskuáranna heima á Sigló, hversu margir (karlmenn sérstaklega) höfðu allskyns viðurnefni og sérkennileg gælunöfn.

En það virðist ekki vera til nein REGLA eða skrifuð lögmál um þetta fyrirbæri.
Sumir eru einfaldlega kenndir við mömmu sína og aðrir við pabba sinn og jafnvel til viðbótar við afa sinn og ömmu. Margir aðrir eru kenndir við staðina eða sveitarbæinn sem þeirra ætt kemur frá og aðrir við húsið sem þeir búa í heima á Sigló. Ýmis útlensk ættarnöfn eru líka til í stærra magni á einmitt Siglufirði en annars staðar á Íslandi.

Síðan virðist mér það vera svo, að stór slatti af þessum viðurnöfnum kemur frá vinnustaðaviðurnöfnum og húmor um allskyns fyndin æskumistök sem síðan festast á sumum einstaklingum og jafnvel ættingjum þeirra eins og ættarnöfn… ævilangt.

Aðrir eins og t.d. ég „Jón-inn“ sjálfur, fá sjálfkrafa óspurðir gælunöfn eins og Nonni eða Jónsi og margir fá einkennileg tiltalsnöfn sem festast á þeim, það fast að enginn man hvað þeir heita í rauninni.
Það getur líka valdið miklum og einkennilegum misskilningi allt eftir því hvernig þetta „gælunafn“ beygist á Íslenskri tungu þegar það er notað sem kenninafn aftan við nöfn barna.

Dæmisaga: Ég var heima á Sigló með yngri syni mínum og sænskum vini hans og var að segja þeim hrakfallasögur af sjálfum mér og vini mínum Jóhanni Sigurjónssyni. “Jóa Budda.” Þeir voru greinilega ekkert að hlusta á sögurnar, en spurðu báðir undrandi.

Var þessi Jói Budda vinur þinn Búddisti eða hvað ?

Síðan eru líka til ýmisleg að mestu leiti harmlaus viðurnefni sem fjalla um lýsingar á duldum og þekktum hæfileikum og persónulegum lífstíl.

Sjálfur er stoltur yfir því að heita Jón Ólafur eftir afa mínum Jóni í Hrímni en þetta „Jóns“ nafn og allskyns útúrsnúningar á þessu stutta nafni hefur verið mér til leiðinda og vissulega skemmtunar líka. Annars er ég oftast einfaldlega kallaður Nonni Björgvins heima á Sigló til aðskilnaðar frá öðrum Nonna með sama föðurnafn, kenndur við móður sína hana Sínu.

Hér úti í Svíþjóð hef ég heitið þessu leiðinda nafni í yfir 30 ár sem hljómar svona á Íslensku:
JÚÚN!
Andskotinn hafði það… þetta er bara þriggja stafa orð… segðu þá bara Nonni í staðinn.
Sem er einkennileg íslensk stytting á JÓN.

Um tíma var ég líka uppnefndur Jón Bróðir. En það var bróður mínum að kenna. En hann var hér í Gautaborg á undan mér og talaði of oft og mikið um að Jón uppáhalds bróðir sinn væri á leiðinni hingað í nám líka.

VARÚÐ!

Við skulum þó hafa í huga að þó svo að mörg viðurnefni komi úr góðlátlegu og til sýnis harmlausu innanbæjargríni, að sum hafa eflaust komið úr ILLKVITTNI og EINELTI.
Sumt er bara fyndið einu sinni….. og og varla það… og leiðinda viðurnefni sem maður fékk óspurður í barnæsku eru særandi, sem og viðurnefi sem hafa færst yfir á alsaklaus börn og ættingja.
Þau „viðhengislýsingarorð“ vill enginn heyra eða hafa gaman af að minnast þeirra og segja söguna um tilurð þessara niðurlæginga uppnefnis orða.

En VERST af öllum viðurnefnum eru viðbjóðslegar viðhengis ábendingar um annaðhvort gáfnafar eða útlit.

ATH: Það verður ekkert minnst á þessi ljótu uppnefnis viðurnefni í þessari grein. Það er einnig eftirtektarvert að þessi viðurnefna hefð virðist miklu meira tilheyra karlmönnum en konum.

BÆÐI GRÍN OG ALVARA?

Sjálfur nefni ég í greinartitlinum að ég heiti eftir afa mínum og…. er því nefndur Jón . Ennþá er ég agnarlítill og ofurlítið flón…
Þannig byrjar Nonna vísan fallega hjá Hrefnu Tynes. En ég mun minnast á þessa merkilegu Siglfirsku konu seinna í þessum viðurnefna pælingum mínum.

EN FYRST NOKKUR DÆMI:

Mamma eða pabbi:

Steini Kára
Óli Kára
Kobbi Kára
Tommi Kára
BALDI LÓU!

Síðan á ég frændsystkini ættuð úr Héðinsfirði sem eru 40/60 kennd við mömmu eða pabba og ókunnugir gætu alveg misskilið þetta og haldið að þau séu ekkert skyld:

Elstur er Siggi Ásgríms minnir mig, en síðan koma….

Friggi Guggu
Bjössi Ásgríms
Stebbi Guggu
Eyja Ásgríms

Stjáni Elíasar og Steini Heiðu eru reyndar bræður og öll þau systkinin eru sitt á hvað kennd við annað hvort mömmu sína eða pabba.

Sigga BJARNA var einfaldlega kennd við Bjarna manninn sinn og sonurinn Dóri varð því að sætta sig við að verða óspurður:
Dóri SIGGU BJARNA.

Svo á ég mér líka t.d. góða æskuvinkonu og hún er kennd við bæði mömmu sína og ömmu:

Ólöf Siggu Júllu Möggu“ var hún oft kölluð í denn til aðskilnaðar frá öðrum Ólöfum bæjarins.

En svo var það líka einkennilegt að hann Siggi Steingríms var gjarnan kenndur við systur sína og kallaður Siggi Sollýjar!

Hús og sveitabæir:

Skafti á Nöf
Jón á Hóli
Maggi á ÁSNUM
Gvendur í Bænum
Oddur í Bíó
Baldur í Hlíð ( Önnur kynslóð Hlíðarbúa, löngu fluttur líka en heitir þetta samt ennþá.)

Persónulegir hæfileikar eða lífsstíll:

Hannes Garðarsson / Hannes Bególín / Hannes Boy og hans tvö viðurnöf eru heimsfræg og í rauninni eigin viðurnefnaflokkur sem og Jói SOVÉT sem var enginn kommúnisti en sagan segir að hann hafi verið sendur út í búð greyið til þess að kaupa sér almennileg fín langröndótt jakkaföt sem voru kölluð Cévót eða sévót og honum tókst ekki að segja þetta orð rétt í herrafatabúðinni.

Stjáni SPLITT (Kristján Jóhannsson) var víst mjög svo liðugur og lipur á sínum tíma og gat farið leikandi lét í splitt.

Kobbi MALL, alías jakob Gunnlaugsson var merkilegur karakter sem ætíð bjó einn og MALLAÐI þar að leiðinni alltaf eitthvað gott ofan í sjálfan sig segir sagan. En þið getið líka lesið meira um hann hér á söguheimasíðu Steingríms:

Jakob Gunnlaugsson – (Kobbi mall) ?
Mjölnir – 21. desember 1962 Fæddur 12. ágúst 1888. — Dáinn 7. desember 1962.
ATH! Skemmtileg viðbótarsaga um Kobba frá Leó Óla fylgir með á sömu síðu.

Talandi um þá tvo Siglufjarðarsögu félaga mína og vini. Þá komu eftirfarandi skemmtilegar viðbótartillögur frá þeim til mín á Messenger:

Já, margt og mikið af þessum viðurnöfnum hljóma einkennilega og er eflaust sprottin að mestu leyti úr saklausum innanbæjar orðaleikja húmor. En fyrir aðflutta getur það tekið fleiri ár að fatta það fyndna í þessu. Annað aðkomufólk skilur ekkert í þessu og misskilur og túlkar þetta á eigin máta.

Eins og t.d. þetta með nafna minn hann Nonna Fön(N)su sem Leó nefnir hér ofan. En Kristín Sigurjónsdóttir sem oft var kölluð (Stína Budda) í denn… og það er alveg hægt að misskilja nafnið, en hún var nefnd eftir pabba sínum Budda skipstjóra. En hún sagði mér frá skemmtilegum misskilning þegar hún rak Harbour house. Samstarfskona hennar hváði við þegar hún heyrði nafnið Nonni Fönnsu…

Ha, því í ósköpunum er maðurinn kallaður Nonni pönnsu 😃

Sumir er líka bara einfaldlega strákarnir hennar MÖMMU sinnar, vegna þess að þeim þótti vænt um mömmu sína.
Ég man eftir æskuvini sem oft var uppnefndur MÖMMURASS.
Það er svona á mörkunum að vera illkvittni en samt frekar harmlaust og krúttlegt.

Starfsheita viðurnefni:

Frægast er að sjálfsögðu Gústi GUÐSMAÐUR.
Önnur guðsmanna viðurnefni útskýra sig sjálf, eins og t.d. Siggi PRELLI (prestur).

Vignir HRINGJARI var líka í hlutastarfi hjá Guði í nokkuð mörg ár.

Guðmundur GÓÐI var réttnefndur, því hann var einfaldlega mjög góðhjartaður vélaverkstæða snillingur.

Í denn var líka til minnir mig skíðagönguskæruliðasamtökin „PLO“. En það var safnviðurnefi á þáverandi presti, lækni og organista.

Bubbi LÖGGA og allar aðrar löggur í bænum höfðu þetta Lögga sem sameinginlegt ættarnafn, leikfélagi minn í suðurbænum var yfirleitt alltaf kallaður Óli Óla Löggu og allir málarar eins og t.d. Hebbi Málari og Bjarni MÁLARI báru sín viðurnefni óspurðir með stolti.

Jón í Sósunni, var starfsmaður í Siglósíld kallaður, en hans starf var að blanda síldarbitasósur í dósir.

Æskumistakar viðurnefni:

Það er svona á mörkunum að ég vilji nefna eitthvað af þessum viðurnöfnum. Sjálfs mín vegna, en einu sinni var t.d. sungið um mín æskumistök: “Nonni datt í sjóinn og missti gúmmískóinn….

En eitt af þessum æskumistaka viðurnöfnum er mjög svo frægt heima á Sigló.

LÁKI Á PLÁNKANUM var alveg dásamlegur og mikill karakter og hann vann lengi vel í bæjarskemmunni með öðrum frægum yndislegum körlum sem ég þekkti vel.

Sagan segir að ungur að árum hafi Þorlákur Guðmundsson eins og hann heitir í rauninni verið að vinna við að smíða bryggjur og að þá hafi hann sagað röngum megin við plankann sem hann sat klofvega yfir og þar með sagað sjálfan sig í sjóinn.

Steingrímur Kristinsson hefur tekið saman ýmisleg annað um hann Láka.

Þorlákur Guðmundsson. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Láki á plankanum
f. 22. júlí 1894 – d. 5. júní 1994

„Þorlákur Guðmundsson var vel þekktur karakter á Siglufirði.
Þrautgóður karl með afbrigðum duglegur og samviskusamur.“

Ættarnöfn:

Sumir heita t.d. Möller eða Elefsen og fl. og aðrir ekki, þó svo að þeir svergi sig útlitslega mjög svo í ættina og sumir hafa gaman af því að hafa erft sitt ættarviðurnefni og aðrir alls ekki.

Einn frændi minn í föðurætt er rétt eins og ég stoltur af að tilheyra ættinni, en hann kallar sig “…tilneyddur Möller á Facebook.” Það er hægt að miskilja þetta, en hann var tilneyddur af fjölskyldu og vinum að vera með á Facebook, sem hann helst ekki vill vera.


En mig langar að minnast aðeins á Hrefnu Samúelsdóttur TYNES, því það var hún sem samdi þessa skemmtilegu vísu um hann Jón/Nonna litla, sem forsíðumyndin vitnar í.

Í leit minni að vísum um Jóna og Nonna með það í huga að minna nafna mína í nýstofnuðum „Landssamtökum Íslenskrar JÓNA“ á hvað maður getur óspurður orðið „dægurlagafrægur“ bara fyrir það eitt að vera skírður JÓN og í þeim hugleiðingum í datt ég niður á þennan fallega texta frá Hrefnu Tynes.

En svona er þessi stutta fallega vísa í heild sinni og mér líður eins og hún hafi verið að horfa á mig og mína leikvelli út um gluggann á Tyneshúsinu á Aðalgötunni heima á Sigló:

Svo mundi ég hver hún var og tengingu hennar við Siglufjörð. En Hrefna flutti ung frá Ísafirði til Sigló snemma á síðustu öld og giftist síðan Sverre Tynes sem kemur úr þessari þekktu Norsk/Siglfirsku ætt. Hún er kannski mest þekkt fyrir öll sín áratuga störf fyrir Íslensku skátahreyfinguna og það var reyndar hún sem stofnaði skátastelpudeildina VALKYRJUR á Siglufirði, vorið 1929.
En það er einnig vert að minnast þess að eftir hana liggja líka fjöldinn allur af textum og landsþekktum dægurlögum og þekktast er líklega án þess að við vitum af því þegar við syngjum þetta jólalag:

„Í skóginum stóð kofi einn“

Hér er hægt að lesa meira um þessa einstöku Siglfirsku konu.

Hugrekki, eljusemi og frumkvæði
( MBL.IS. apríl 2012 | Menningarblað/Lesbók)

JÓN, JÓNSI OG NONNI

Þið haldið kannski að ég sé að ljúga eða að grínast þegar ég segi hér ofar frá hagsmunasamtökunum LANDSSAMBAND ÍSLENSKAR JÓNA.
En þessi samtök eru til og þar eru núna 1.600 JÓNAR sameinaðir og ákveðnir í vera stoltir yfir sínu stutta fallega nafni og vonandi sækja allir Jóna nafnar mínir um inntöku eftir þennan lestur.

Hér tökum við JÓNAR líka að okkur að sjálfir grínast um allt og ekkert sem viðkemur þessu nafni og öllum viðurnöfnum, afbökun og tengingum við hitt og þetta sem það hefur.
Hér á eftir koma nokkur dæmi:

Það hefur aldrei verið jafn skemmtilegt og akkúrat núna að heita JÓN og í helgarblaði Landssambands íslenskra JÓNA birtist ykkur þessi JÓNA saga. Bara svona af því að ég hef ekkert betra að gera í mínu einfalda og innihaldslausa JÓNa-lífi þennan föstudag.
Held ég hafi náð því að taka með ALLA öfundarútúrsnúninga og afbrigði sem tilheyra þessu fallega nafni sem til eru. Annars getið þið nafnar mínir látið mig vita ef ég gleymt einhverju
.🤣“

SAGAN UM LITLU Gunnu “JÓNU” OG LITLA JÓN!


Einu sinni var…
… ungur, frekar lágvaxinn maður sem hét Jón…

(ég segi ekkert um milli- eða föður nafn, því þetta getur verið viðkvæmt mál fyrir alla Jóna sem þekkja sig í sögunni)


…. í partý heima hjá bræðravinum sínum þeim Jóni Oddi og Jóni Bjarna Jónsmessuhelgina 1972 og hann Jón okkar lendir á svaka séns með systur bræðranna. Hún var fagurt og eftirsótt augnayndi og hún heitir þessu fallega nafni: GUNNJÓNA, oftast kölluð Litla Gunna en líka JÓNA litla því hún var eins og okkar maður frekar lítil.

Allir ölvaðir „vinir“ hans Jóns sungu í kór þetta partýkvöld:

Lánið elti Jón, en lét í friði mig.
Lánsami Jón ég öfunda þig
.“

En þessi ást entist ekki svo lengi… í rauninni bara þessa einu nótt.
Því Jón BRÓÐIR Jóns Bjarna vinar hans var ekki par hrifin af þessu sambandi og ofan á allt þá hafði Litla GunnJóna frétt af slæmum orðstír hans Jóns síns/okkar í gegnum annan frægan „Jóna öfundar“ dægurlagatexta sem var sungin um hann út um allan bæ:

…Kvenfólkið sem að sér hann JÓN,
sárlangar að verða hjón.
Ástfangið þyrpist að um hann.
Þennan hjólfætta Don-Juan…
Jón Ó…Jón…

GunnJónu Litlu sem var frekar trúuð, leyst ekkert á þetta og hugsaði fyrir sjálfa sig þrátt fyrir að hún væri mjög svo skotin í honum: “Hann Jón MINN er ekki réttur Jón fyrir mig og mikil hætta á að SÁLIN hans Jóns míns muni örugglega fara beint til helvítis miðað við þann orðstýr sem hann hefur.

Þeim fæddist samt fallegur drengur 9 mánuðum seinna og þegar kom að skírn lentu hún og Litli Jón í miklu rifrildisþrasi um allskyns fáránlegar tillögur af nöfnum á þennan fallega saklausa dreng sem óx hratt og mikið. Nefnd voru fáránleg nöfn eins t.d. GuðJÓN og GunnJÓN líka. Svona bara af því að þau hétu GunnJÓNA og JÓN en Jón okkar harðneitaði að samþykkja það, því þeir örfáu Gunnjónar sem hann þekkti og allir Guðjónar líka voru hundleiðinlegir gaurar.

Að lokum var blessaður drengurinn sem átti svo marga Jóna ættingja í báðum ættum, einfaldlega skírður:

JÓN JÓN JÓNSSON.

Heima hjá duglegum helgarpabba sínum var Jónssonurinn alltaf kallaður Nonni eins og pabbi sinn en heima hjá mömmu var hann kallaður Jónsi eins og afi sinn og aðrir Jónsar í þeirri ætt.

Þegar ættirnar neyddust til að hittast á ýmsum hátíðisdögum JÓN JÓNS þá vildi engin særa neinn svo þá var blessað barnið ýmist kallaður NONNI Jónsi eða JÓNSI Nonni.

Ráðvilltur drengurinn þurfti að líða mikið fyrir þessa nafna óvissu í skólanum en hans björgun frá þessu nafnarugli kom óvænt um og eftir fermingu en þá tók JÓN JÓN JÓNSSON upp á því óspurður að vaxa hratt og mikið aftur og var á fimmtánda vetri orðin tveggja metra JÓN.

Eftir það var hann ætíð kallaður JÓN Tröll og stundum líka… JÓNKI TRÖLL!

Hér getið þið hlustað á lagið JÓN Tröll sungið eða réttara sagt “RAPPAД af Guðmundi Jónssyni.

JÓN TRÖLL / Jónki tröll

Bestu Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra

Nonni Björgvins.

Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Texti frá Hrefnu Tynes.

Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Þakklætiskveðjur fyrir yfirlestur og góðar ábendingar sendi ég þeim:
Steingrími Kristinssyni, Leó Ólasyni og Sólveigu Jónsdóttur.

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

FÁEIN ORÐ UM ÞORMÓÐ EYJÓLFSSON

SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“

SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS

SVON´ER Á SÍLD

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. SEINNI HLUTI (54 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

SVONA VAR Á SIGLÓ FYRIR 56 ÁRUM

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

POPPAÐ Á SIGLÓ – NÍUNDI OG SÍÐASTI HLUTI