Listasafnið á Akureyri fagnar 25 ára afmæli á þessu ári. Miklar endurbætur standa nú yfir á húsnæði safnsins og er ráðgert að endurbótum ljúki síðar í sumar.  Hlynur Hallsson safnstjóri segir að Akureyri sé menningarbær.

„Já, heldur betur. Auk Listasafns Akureyrar höfum við fjölda safna í bænum, svo sem sinfóníuhljómsveit, menningarhús, leikhús, myndlistarskóla, tónlistarskóla, Græna hattinn og fleira og fleira. Fyrir bæjarfélag eins og Akureyri skiptir það miklu máli að eiga sitt eigið listasafn, bæði fyrir íbúana og ekki síður þá fjölmörgu gesti sem hingað koma.“

Hlynur Hallson við opnun sýningar sinnar, Alþýðusýning í Alþýðuhúsinu á Siglufirði árið 2014. Mynd/Kristín Sigurjónsdóttir

Bylting

„Með þessum endurbótum á húsnæðinu er hægt að tala um byltingu í allri starfsemi safnsins, aðstaðan verður allt önnur og betri. Sérstakt rými verður til fyrir safnkennslu og aðgengi að safninu verður mun betra. Í gamla Mjólkursamlaginu var til dæmis engin lyfta, auk þess sem aðalinngangangurinn verður á jarðhæð. Í nýja húsnæðinu verður glæsilegt kaffihús auk þess sem sýningarrýmum fjölgar umtalsvert, sem þýðir meðal annars að ekki þarf lengur að loka safninu á meðan verið er að koma fyrir nýjum sýningum. Auk þess fáum við til afnota betri geymslur fyrir listaverkin okkar. Ég held að Listagilið breytist verulega með þessum endurbótum og þar með miðbærinn.“

Fræðsla mikilvægur þáttur í starfseminni

„Stór og mikilvægur þáttur í starfsemi safnsins er að fræða fólk á öllum aldri. Heimsóknum skólahópa hefur fjölgað mikið á undanförnum árum, enda er safnið mikilvæg fræðslustofnun rétt eins og önnur listasöfn.  Okkur ber skylda til að fræða fólk um listasöguna, bæði unga og aldna og með nýju húsnæði getum við sinnt fræðsluhlutverkinu enn betur.“

Tilhlökkun

„Já, bæjarstjórn hefur ríkan skilning á mikilvægi safnsins og sömu sögu má segja um íbúana. Þessar endurbætur kosta vissulega mikla fjármuni og þær undirstrika vilja bæjaryfirvalda til safnsins. Þegar safnið var stofnað árið 1993 var talað um að safnið yrði stækkað. Núna er draumurinn að verða að veruleika á 25 ára afmæli safnsins og ég hlakka eðlilega mikið til, rétt eins og flestir aðrir,“ segir Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.

Frétt og myndband: N4