Ég minnist þess með gleði…
… þegar við krakkarnir í barnaskólanum söfnuðumst saman á skólabalanum fyrir framan gluggana á kennarastofunni á fallegum björtum sólarvetradögum og í staðin fyrir að leika okkur í snjónum lögðum við frímínúturnar okkar í að syngja hástöfum:
Meistari Hlöðver! Gefðu okkur frí.
Aftur og aftur og þetta endaði oft en ekki alltaf með því að okkar barngóði og skilningsríki skólastjóri kom út á tröppurnar og sagði.
„Já, þetta er góður dagur. Farið þið heim krakkar og leikið ykkur úti í góða veðrinu“
Og við húrruðum fyrir okkar réttláta leiðtoga og hlupu svo heim og náðum í skíði, skauta, sleða og snjóþotur eða svo lánuðum við ofnskúffuna hennar ömmu eða fægiskúffuna hennar mömmu eða bara hvað sem er sem okkur datt í hug að nota í okkar sjálfskipulögðu vetrarleiki.
Við sungum þetta líka oft fyrir Jóhann Þorvaldsson eftir að hann tók við af Hlöðver Sigurðs því Jóhann var minnst líka barngóður og forveri sinn.
Já, ég sagði sjálfskipulagða skólafrídaga, því ég man ekki til þess að barnaskólinn sjálfur skipti sér nokkuð af því hvað við blessuð börnin ákváðum að gera þennan frídag sem kom óvænt og skyndilega.
Allir krakkar bæjarins áttu sér sérstaka staði þar sem safnast var saman í allskyns vetrarleiki, við krakkarnir í suðurbænum áttum okkar uppáhaldsstað sem ég minntist aðeins á í 7 kafla Göngutúr um heimahaga „Siglfirskt“
”Við þessir köldu byrjuðum í brekkunni norðan við húsið hjá Ingólfi í Höfn upp á Suðurgötunni og svo stukkum við fram af götunni og aftur af Laugarveginum og svo áfram niður og enduðum í löngu stökki fram af Hafnargötunni.”
En þessi greina sería er í 10 hlutum með yfir 250 myndum sem birtar eru með leyfi frá ljósmyndasafni Siglufjarðar sem nú er í eigu Síldarminjasafnsins.
Þegar maður dettur inní svona nostalgíu hugsanir er gaman að samtímis kíkja á gamlar ljósmyndir á Ljósmyndasafni Siglufjarðar og dreyma sig inn í liðinn tíma og þær staðfesta þessa einkennilegu minningu mína að það var alltaf allt á kafi í snjó á Sigló þegar ég var barn á síðustu öld.
Þetta var kannski bara síðasta ísöld hins hratt hitnandi heims, hver veit.
En þessar ljósmyndir eru alveg dásamlegar og ég safnaði saman nokkrum sem ég lagaði aðeins til svo þær geri sig betur fyrir birtingu á skermunum ykkar. Margar sýna okkur líka horfin hús og annað merkilegt í bakgrunninum.
ATH! Allar myndir eru birtar með leyfi frá Síldarminjasafni Ísland sem sér um þennan ljósmyndafjársjóð í dag.
Það er vert að minna á að ALLIR sem birta ljósmyndir úr þessu safni þurfa að hafa leyfi til þess frá stjórnendur safnsins.
Hér kemur slatti af skemmtilegum ljósmyndum sem ég fann og við skulum byrja á snjóþotu-keppnismyndum sem Steingrímur Kristins tók en ég veit ekki hvaða ár eða hvaða félagsskapur skipulagði þessa keppni sem var í fjallinu fyrir ofan Leikskála.
Aldrei skortur á SNJÓ en skíðalyftur voru sjaldséðar!
Hér koma nokkrar ljósmyndir sem sýna að það var svo sem aldrei skortur á snjó hvorki á Aðalgötunni eða í Skarðinu.
Á skíðum skemmti ég mér…
sungum við saman með Hljómsveit Ingimars Eydal – Hoppsa bomm (1972)
Helena Eyjólfsdóttir syngur „Á skíðum skemmti ég mér“
Þó enginn sé skíðalyftan… En það voru til lausnir á þessu.
Ég minnist líka að við æfðum okkur oft og mikið í „Ljósbrautinni“ undir Hvanneyrarskál, annars fórum við mest gangandi með skíðin á öxlunum og lentum í allskyns ævintýrum eins og ég lýsi hér í Göngutúr nr. 7.
“Ég hef oft haft gaman af að segja hrakfara og slysasögur af Jóa Budda (Jóhann er sonur Sigurjóns Jóhanssonar skipstjóra og Ásdísar Guðlaugsdóttur) vini mínum sem var svona álíka kaldur og til í hvað sem er eins og ég og við brölluðum margt saman í skíðatúrum ofan á snjóflóðum og í gilunnum fyrir neðan Fífladal.
Gengum þarna upp eftir með skíðin mörgum sinnum á dag.
En flottasta skíðaslysið hans Jóa gerðist nú reyndar á Laugarveginum með 30 krakka sem vitni einn sólardaginn þegar allir krakkarnir í suðurbænum voru úti á skíðum og snjóþotum.
Við þessir köldu byrjuðum í brekkunni norðan við húsið hjá Ingólfi í Höfn upp á Suðurgötunni og svo stukkum við fram af götunni og aftur af Laugarveginum og svo áfram niður og enduðum í löngu stökki fram af Hafnargötunni.
Það voru alltaf krakkar á vakt á götunni til að vara við bílum, en einu sinni klikkaði þetta hjá Jóa Budda sem kom á fleygi ferð á nýjum Fischer skíðum með Mark smellubindinga og allt það nýjasta sem til var, við hin vorum öll bara með gamaldags gormabindinga.
Jói sér ekki bílinn fyrr en of seint en hann var svo heppinn að vinstra afturhjólið fór yfir bæði skíðin samtímis og Jói skýst upp úr Mark bindingunum og fer heljarstökk yfir afturendann á bílum og lendir 15 metrum fyrir neðan Laugarveginn. Allir krakkarnir horfa á þetta með skelfingu og það mátti heyra saumnál detta í snjóinn svo hljótt var það þegar Jói lenti á rassinum og allir voru vissir um að hann væri bara dauður.
En hann stekkur upp eins og skot, snýr sér við og æpir:
Er allt í lagi með skíðin ????”
Sjálfur var ég ekkert minni hrakfallabálkur og oft aðeins of kaldur.
“Við æfðum líka skíðastökk um tíma suður við Steinaflatir og líka í norðurhlið Hólshyrnunnar um tíma.
Einn fallegan vordag um miðjan maí vorum við Valli og Ingvar að æfa í grjóthörðu hjarni við Steinaflatir og síðan vildum við vera svakalega kaldir töffarar og stökkva berir að ofan og það var auðvitað bara ég sem datt á vinstri hlið og ég leit út eins og að ég hefði verið dreginn eftir bíl á malbiki.
Gat ekki sofið í tvær vikur. “
Ýmislegt annað hægt að gera…
… En að fara á skíði eða skauta.
Sumir stálust kannski bara niður á sjókaðal þó kalt væri í lofti og sjó.
Eða fara á hestbak.
Og sumir fengu kannski óvænta heimsókn á Laugarveginum.
Skólabalinn var okkar ævintýraheimur .
En þar gerðist ýmislegt annað en bara leikir, en þar var þessi risastóra steinsteypustétt sem kom að góðum notum við allskyns samkomur og hátíðarhöld þegar allt annað var blautt og skítugt.
Bestu kveðjur til ykkar allar.
Nonni Björgvins.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Ljósmyndir eru birtar með leyfi eigenda.
Forsíðuljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
“Bjarni Jóhannsson lögregluþjónn og vínbúðarforstjóri og Hlöðver Sigurðsson fyrrverandi skólastjóri.”
AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR
JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.
Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:
PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!
ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944
PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.
SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR
LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!
SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI
KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI