Sagan um RÁÐSHÚSTORGIÐ sem lengi vel stendur varla undir þessu nafni…
RÁÐHÚSTORG er stórt og metnaðarfullt orð yfir TORGIÐ okkar Siglfirðinga. En eins og sjá má á forsíðuljósmyndinni sem er tekin út af svölunum hjá Gesti Fanndal í denn, að þá er það af og frá og þetta svæði líkist torgi.
Myndin sýnir meira einhverskonar „miðbæjar-moldargötuplan“ sem aðallega virðist notað sem aðstaða fyrir biðreiðastöðvar og söluturna með tilheyrandi bensíndælum og það sést einnig móta fyrir kartöflugarði neðan við hús sem standa á torginu.
Í þessari myndasyrpusögu sem er í tveimur hlutum eru gamlar ljósmyndir í aðalhlutverkinu og myndirnar sýna ykkur þær miklu breytingar sem hafa orðið í umhverfinu á… og í kringum Ráðhústorgið okkar.
Lauslega reiknað sjást um 30 horfin hús og byggingar á þessum ljósmyndum.
En breytingin, úr moldarplani og yfir í alvöru torg tók fleiri áratugi og skiljanlega fóru þessar hægfara breytingar oft í taugarnar á mörgum Siglfirðingum og sagt er að “Siggi Bakari” hafi sagt:
“Ráðhústorg???… það er varla hægt að kalla þetta NÁÐHÚSTORG.“
Hvaða þýðingu hefur þetta TORG fyrir okkur Siglfirðinga og hvað á að gerast þarna í framtíðinni?
Stórar spurningar koma upp í huga mér í seinni hlutanum um þær framtíðaráætlanir sem til eru um hjarta bæjarins.
Sumar tillögur eru góðar og leysa ákveðin vegamóta vandamál.
En annað, eins og að t.d. að yfirgefa FERNINGA og “beina línu” hugmyndafræði Séra Bjarna til þess eins að skapa meira ljótt malbik og bílastæði er bæði fáránlegur óþarfi og algjör helgispjöll á þessum heilaga stað.
Fólk getur, andsk… hafi það, gengið 50 metra frá bílnum sínum og yfir í Kaupfélagið……
Hugmyndin um þetta miðbæjartorg kemur að sjálfsögðu upprunalega úr því merkilega eyrar og miðbæjarskipulagi sem séra Bjarni Þorsteinsson lagði grunninn að fyrir langa löngu.
Beinar línur með einhverskonar „Manhattan ferninga skipulagskerfi“ þar sem hjarta bæjarins og nafli alheimsins er Aðalgatan og Ráðhústorgið sjálft, er greinilega langtímamarkmið frá fyrstu byrjun.
Þarna á að byggja stór og virðuleg hús og verslanir og akkúrat þarna eiga Siglfirðingar að hittast daglega, nú og um alla framtíð.
Að þessar Ráðhústorgar breytingar gangi frekar hægt, kemur að mörgu leyti úr sögulegu peningaleysi sem fylgdi ókeypis með síldarhvarfinu fræga.
Einmitt orðin “Ráðhús í byggingu” eru oft notuð sem myndaskýringartexti við margar ljósmyndir á Ljósmyndasafni Siglufjarðar enda tók það áratugi að byggja þetta svokallaða RÁÐHÚS við Ráðhústorg og sumir vilja meina að það sé ekki tilbúið enn þá… vantar eina hæð í viðbót segja þeir.
Rétt eins og það vantar líka minnst tvær hæðir ofan á Aðalbakaríið.
Orðið Ráðhústorg virðist vera til snemma, án þess að nokkuð Ráðhús standi við torgið og því til sönnunar er að löngu áður eru hús skráð við Ráðhústorg 1, 3 og 5.
Hvað er TORG?
Hugmyndafræðin er gömul og kannski í upphafi mest notað sem stórt opið svæði fyrir framan hallir og kirkjur og fl. Þar sem meiningin er að torgið sjálft dragi fram stórfengleika bygginganna.
Þarna á fólk að safnast saman og hlíða á tilskipanir yfirvalda og jafnvel vitna aftökur.
Flest torg eru þó verslunar og markaðstorg sem lokka til sín fólk sem hefur oft daglega ástæðu til að koma á svæðið.
Þekkt útlensk orð yfir torg eru t.d. Plaza, Piazza og á ensku eru torg kölluð: Town square, City square eða Public Square.
Torgið okkar virðist vera blanda af öllu þessu ofannefnda og nafnið Ráðhústorg er auðvitað virðulegt en sjaldan notað í daglegu tali heima á Sigló.
Flestir segja bara: “Hittum mig á Torginu!”
Að mörgu leyti er þetta torg ekki notað svo mikið til að safna saman fólki, því á mörgum myndum má sjá lága hvíta girðingu sem á að hindra almenning frá að ganga á viðkvæmu grasinu. Torgið okkar hefur samt seinna síðan opnast upp með X formuðum göngustígum að bekkjum þar sem hægt er að setjast niður og ræða málin.
Siglfirðingar hittast samt á þessu svæði þrátt fyrir “Bannað að ganga á grasinu” skilti á Torginu. Því þetta einstaka bæjarskipulag okkar gerir svæðið og Aðalgötuna að nafla alheimsins. Þarna á ferningunum á ýmsum götuhornum á eyrinni hittast allir og þetta atriði er mjög svo sérstakt fyrir okkar annars frekar litla bæjarfélag.
TORGIÐ SÉÐ Í LJÓSMYNDATÍMAVÉL… úr ýmsum áttum
Nú skellum við okkur í minningagöngutúr á Torginu og um nánasta umhverfi þess. Myndirnar og myndaskýringartextar, sem margir hverjir eru sóttir úr okkar stórkostlega Ljósmyndasafni Siglufjarðar segja sína eigin sögu og sums staðar koma túlkanir greinarhöfundar á því sem við sjáum.
Kíkið vel og vandlega á myndirnar og þá sérstaklega á allt sem er horfið úr þeim nútíma bakgrunni sem við sjáum í dag heima í okkar fagra einstaka firði.
ATH. Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla myndatexta og söguna í heild sinni. Ef þú, lesandi góður, villt skoða myndirnar betur með því að stækka þær er best að fara beint inn á vefinn trolli.is og finna greinina þar. Ef slóðin er opnuð í gegnum Facebook getur verið lokað á að skoða myndirnar í stærra formi.
Í seinni hlutanum birtast ykkur eftirfarandi myndasögu kaflar:
…BÆJARSKIPULAG OG BEINAR LÍNUR.
FRÁ AÐALGÖTUNNI… TIL GUÐS?
Síðan koma kaflaheitin:
Á MILLI AÐALGÖTU OG GUÐS…
VANDRÆÐAGATNAMÓT ÞÁ OG NÚ?
FRAMTÍÐ TORGSINS OKKAR?..
… og þar er greinarhöfundur sko ekkert að skafa af því hvað honum finnst um vissa hluta af þessum framtíðardraumum.
ÚT UM GLUGGANA HJÁ GESTI FANNDAL
MINNINGAR FRÁ TORGINU
OG … MYND AF… HMM.. HMM… SEM HVARF…
og þar á eftir stutt lokaorð til ykkar allra.
RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG Í FRAMTÍÐINNI… 2 HLUTI. MYNDA-SYRPUSAGA
Bestu Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra
Nonni Björgvins.
Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmynd:
Gestur H Fanndal.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og frá ættingjum Hannesar P Baldvinssonar.
Þakklætiskveðjur fyrir yfirlestur og góðar ábendingar sendi ég þeim:
Steingrími Kristinssyni, og Sólveigu Jónsdóttur.
Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:
UM SIGLFIRSK VIÐURNEFI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…
FÁEIN ORÐ UM ÞORMÓÐ EYJÓLFSSON
SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“
SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS
MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)
MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. SEINNI HLUTI (54 MYNDIR)
GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA
KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA
JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN
SVONA VAR Á SIGLÓ FYRIR 56 ÁRUM
HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA