Mér er það oft minnisstætt hversu mikið og fjölbreytilegt tómstundastarf var í boði í fyrir bæði börn og fullorðna í þessu litla afskekkta bæjarfélagi sem ég ólst uppí.
Á venjulegum vetrarsunnudegi á Siglufirði í minni barnæsku gat dagskráin litið út eitthvað á þessa leið fyrir mig og marga aðra:
Kl. 09.00 – 12.00
Sunnudagsskóli í Zíon.
Síðan smá pása með sunnudagssteik og eigin leik.
P.S. Ég leitaði vel og lengi en ég fann ekki eina einustu ljósmynd úr Zíon. En fullt öðrum skemmtilegum ljósmyndum í Ljósmyndasafni Siglufjarðar .
Kl. 14.30 – 16.30
Nýja Bíó, barnabíó. Æsispennandi Tarzan mynd með tilheyrandi Thoraís og flösku af Vallas appelsín með lakkrísröri sem næstum leystist upp í flöskunni.
Á sumardaginn fyrsta var ókeypis í bíó og þá sýndi Oddur Thor okkur samklipptar teiknimyndir í 2 ½ tíma.
Kl. 17.00 – 19.00.
Eyrarós 68 kallar okkur á stúkufund með Jóhanni Þorvaldsyni í Sjómannaheimilinu við Suðurgötu.
Síðan var skroppið smástund heim í kvöldmat.
Kl.20.00 – 22.00.
ÆSKÓ. Allskyns föndur, ljósmyndaframköllun og leikir í Æskulýðsheimilinu við Vetrarbraut eða kannski Skátafundur uppi á lofti í sama húsi.
Auðvitað var margt annað í boði líka og ég dáist af öllu þessu fullorðna fólki sem lagði sinn eigin frítíma í að skemmta og fræða okkur blessuð börnin.
Það var stundtals hörð samkeppni um að ná til okkar barnasála þegar kemur að góðu trúarlegu uppeldi og á þetta minnist sögumaðurinn Leó Óla nýlega í greininni:
AÐVENTISTAKIRKJAN Á SIGLUFIRÐI
Þið sem eruð á mínum aldri og mér yngri muna örugglega vel eftir sunnudagsmorgnum hjá Hvítasunnusöfnuðnum í Zíonhúsinu við Grundargötu 7 A með Ása og Laugu og síðan seinna meir með Júlíusi í Aðalbúðinni.
En þið mér eldri munið líklega meira um svipaðar stundir í Herhúsinu hjá Hjálpræðishernum. Hef heyrt margar sögur um starfsemina þar og en ég sjálfur man bara eftir að sem barn hafa komið þangað á allskyns tónlistarskemmtanir.
Sunnudagskólinn í Zíon…
… var mér kær og ég var þarna oft, byrjaði líklega þegar 6 ára gamall 1968 og þá voru þar við völd minnir mig Zíon-móðirin sjálf hún Sigurlaug Björnsdóttir og Elín Jónasdóttir og einstaka sinnum var öðlingurinn og eiginmaðurinn hennar Elínar hann Óskar Sveinsson með líka.
Ég minnist stuttlega á þetta yndislega fólk og marga aðrar merkilegar persónur með tilheyrandi ljósmyndum í greininni:
Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !
“Stofnandi Hvítasunnukirkjunnar Zíon var Sigurlaug Björnsdóttir á Siglufirði. Hún frelsaðist 1922 í Stavanger í Noregi, kom síðan heim og hóf starf hér á Siglufirði.
Sigurlaug keypti húsið Grundargötu 7a árið 1946, nefndi það Zíon og hóf barnastarf af fullum krafti ásamt því að halda samkomur fyrir fullorðna. Alla tíð síðan hefur þetta hús verið notað í þjónustu Drottins.
Einnig tóku þátt í starfinu frá fyrstu árum þær Þórunn Gunnarsdóttir og Elín Jónasdóttir. Sigurlaug Kristinsdóttir og Ásgrímur Stefánsson störfuðu í Zíon frá fyrrihluta árs 1969 til haustsins 1986 eða í samfleytt 17 1/2 ár. Þau héldu úti blómlegu barnastarfi í hverri viku og voru rómaðir saumafundirnir hennar Sigurlaugar. Einnig voru þau með samkomur fyrir fullorðna vikulega.”
Upplýsingartexti lánaður frá: http://nat.is/Kirkjur/
Við sunnudagsskólabörnin tókum strax eftir því veturinn 1969 að allt varð nú miklu skemmtilegra þegar að Ási og Lauga tóku við og þetta var allt svo þræl skipulagt og atvinnumannalega gert hjá þeim.
Samkoman byrjaði yfirleitt með söng og stuttri bænastund og síðan sagði Ási eða Lauga okkur myndræna JESÚ sögu og síðan var innihald hennar rætt og þar á eftir fengum við fallegar biblíusögumyndir tilheyrandi sögunni og svo klipptum við út fleiri glasmyndir og endursögðum söguna með því að líma allt inn í fallega stílabók.
Hér koma nokkur dæmi um þessar Jesús “glansmyndir” sem mér fannst alltaf svo litríkar og fallegar.
Síðan voru reglulega söngpásur með t.d. „Jesús er besti vinur barnanna“ eða „áfram kristmenn krossmenn“
Það var líka oft boðið uppá rótsterkt appelsínudjús og snúðasneið og svo haldið áfram að föndra með ýmislegt og þá var stundum ekki pláss fyrir alla við borð og var þá bara setið á gólfinu. Það var líka farið í allskyns uppbyggilega leiki og einstaka sinnum kom Gústi Guðsmaður í heimsókn og sagði okkur börnunum “alltof langa sögu” og við sáum að Ási og Lauga voru að reyna að gefa Gústa merki um að reyna að setja enda á þessa kröftugu sögu en ekkert beit á blessaðan Guðsmanninn þegar hann var komin í ham.
Á leiðinni heim úr Zíon í sunnudagssteikina hennar mömmu stoppuðum við oft smástund og spjölluðum við Gústa sem var oftast ennþá á torginu og messaði yfir allt og alla og yfirgnæfði meira að segja kirkjuklukkurnar sem kölluðu til samkomu hjá samkeppnisaðilanum.
Ég fékk oft fleiri biblíusögumyndir með handskrifuðum texta á bakhliðinni hjá Gústa og límdi þær líka inní Zíon glansmyndabókina mína.
Ég minnist þeirra hjóna með miklum hlýhug og þakklæti og ég leyfi mér að lána nokkur falleg orð frá minningargrein um Ása en þar minnist Sigurlaug Jensey afa síns og ömmu:
“Elsku afi minn….
Þegar ég hugsa til baka er margs að minnast, þú að smíða, föndra, á sjó á trillunni þinni eða brasa eitthvað úti í bílskúr. Siglufjörður var fjörðurinn þinn, þar fæddist þú og varst alltaf stoltur af því en einnig átti Akureyri stóran part af þér en þangað fluttir þú 8 ára gamall….
.. Það var svo árið 1969 sem þið amma fluttuð á Sigló og settuð svip á bæinn. Þið tókuð við Zion og byggðuð upp flott safnaðarstarf. Auðvitað fluttum við norður til ykkar og bjuggum þar í nokkur ár. Það var gaman….
…. Sunnudagsskólinn í Zion var fastur liður og föndurfundirnir ykkar ömmu einnig. Ég á margar dýrmætar minningar….
… Afi, þú upplifðir miklar breytingar á heiminum og varst svo duglegur að fylgjast með nýjungum og tileinka þér þær….
…. að þú hefðir tekið kennararéttindi um sextugt og kennt í grunnskóla í nokkur ár.
Einnig var ég stolt af því hvað þú varst unglegur og gafst mikið af þér.
Elsku afi, takk fyrir allt, þín afastelpa
Sigurlaug Jensey” Mynd og texti fengin úr: Minningargrein MBL.IS 31. janúar 2014.
Að lokum vill ég minnast þess að kvöldföndurfundir Laugu sem voru eingöngu fyrir stelpur voru rómaðir fyrir skemmtilegheit og mjög vel sóttir.
En það verður einhver annar að skrifa um þessa stelpuföndursfundi því ég fékk aldrei að vera með þar.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og annarra ljósmyndara.
Forsíðuljósmynd: Arnþór Þórsson sjá meira hér: FishingHat
AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR
JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.
Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:
TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….
ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!
MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”
PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!
ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944
PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.
SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR
LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!
SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI