Við lifum í dag á mikilli SKJÁ-ÖLD, umkringd tækjum og tólum sem sækja í athygli okkar í tíma og ótíma. Líklega byrjaði þessi skjá-öld með því að flest heimili Íslands eignuðut svarthvítt sjónvarpstæki í lok sjöunda áratugs síðustu aldar. Það verður að viðurkennast að pistla höfundur er mikill tæknitrítill og ég hef mjög gaman af þessum tækjum og nýjum samskiptamöguleikum. Á mínu eins manns heimili, eru til fimm svona skjáaldartæki. Það hálfa væri nú nóg, hefði amma Nunna sagt og fussað og sveiað yfir þessu offramboði á skemmtifefni…
Nonni minn farðu nú út að leika þér, það er ekki holt fyrir unga drengi að sitja inni svona lengi.
En áhyggjur eldri kynslóða og umhyggjuáhyggjur stjórnvalda er ekkert óþekkt fyrirbæri fyrir 62 ára gamlan ungling eins og mig, sem man tímana tvenna og lífið heima á Sigló….
… Fyrir og eftir sjónvarp!
Ég er daglega að reyna að verða ekki svona “Grumpy old man” sem með tvöföldum nöldurtón, heldur því fram að: Allt var nú betra hér áður fyrr og það mesta er verra núna. Einfaldlega vegna þess að það liggur einginn sannleikur í þessum orðum. Ég hef í rauninni ekki miklar áhyggjur af þessu daglega tölvuspila og skjáglápi æskunnar, en það skaðar ekki að þau hreyfi sig meira utandyra og gjarnan í eiginsköpuðum leikjum.
Það er samt skrítið að vera bara 62 ára og hafa upplifað þessar öru og miklu tæknibreytingar. Ég er líka afinn sem sér angistarsvipinn á barnabörnunum, þegar hann segir þeim að að þegar afi var á þeirra aldri (5-8 ára) var ekki til sjónvarp heima á Sigló.
OMG!… og hvað voruð þið að gera allan daginn? Svo bætti eldra barnabarnið við… afi, hvað, voruð þið svona fátæk líka?
Nej kära barn, sjónvarpið var bara hreinlega ekki til á þessum tíma og afi veit með sér að þetta hljómar eins og að maður sé fæddur í einhverri grárri rafmagnslausri forneskju, á þar síðustu öld.
Einmitt, en hvað vorum við blessuð börnin að gera allan daginn, tja… við vorum fyrst og fremst úti að leika okkur allan daginn, oftast án þess að fullorðnir væru að skipta sér af okkur og hefur pistlahöfundur lýst þeim leikjum í máli og myndum eins og í t.d. þessari tvöföldu myndasyrpu sögu:
Á aldrinum 6-9 ár var ég, ásamt mörgum öðrum Siglfirskum prakkarakrökkum geymdur suðrá firði yfir sumarið í Leikskála barnagarðinum fræga. Sumum fannst þetta gaman, en öðrum fannst þetta einna helst líkjast barnafangelsi með ömurlegum mat. Háar bárujárns girðingar hindruðu hvorki mig eða vini mína að strjúka reglulega úr vistinni. Elskulegum barnfóstrum Leikskála til mikillar armæðu. En eftir að ég og aðrir urðum frjálsir, um og yfir 10 ára ,skipulögðum við oftast okkar sumarfrítíma sjálf. Sjá meira hér:
UNDRAHEIMUR BRYGGJUGUTTANA Á SIGLÓ (30 myndir)
Útboðið á skipulögðum tómstundum, var stórt og mikið fyrir æsku Siglufjarðar á uppbyggilegri og hollri þátttöku í allskyns íþróttum og æskulýðsstarfsemi. Okkar ástkæra Æskó, var reyndar eitt af fyrstu tómstundaheimilum Íslands. Svo var mikið af allskyns félagsstarfsemi með eigin framleiddum skemmtunum og það var svo sem ekki skortur á trúarlegu uppeldi heldur. Kirkjan var í góðri samkeppni við Gústa Guðsmann á Torginu, Zíon, Herhúsið og fl.
Sjá meira hér um skemmtanir Siglfirðinga:
GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa.
sksiglo.is | Greinar | 23.03.2017 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1619 |
Svo kom helv… sjónvarpið og Belfígor!
Held ég þurfi aðeins að útskýra þessa fyrirsögn, en hún kom upp úr netspjalli við skemmtilegan frænda heima á Sigló. Friðrik Jónsson, eða Friggi Guggu, eins og hann ætíð var kallaður hér í denn, við vorum að minnast barnaleikja og hvaðan áhrifin á leiki og barnaævintýrin sem við sköpuðum daglega komu, áður en imbakassinn kom til sögunnar… Svo kom helvítis sjónvarpið, sagði hann og ég bætti ósjálfrátt við… og Belfígor þættirnir frönsku, sem gerðu mig og bróðir minn svo myrkfælna. (Meira um það seinna)
Lífið án imbakassa
Við Friggi frændi, minntumst þess að fyrir sjónvarp, að Þá sóttum við okkar ævintýrahugmyndir í bækur á bókasafninu, úr bíómyndum hjá Oddi Thór í Nýja Bíó, sem lengi vel var stærsta kvikmyndahús Íslands og ekki síst úr allskyns hasarblöðum sem bárust okkur heit eins og nýbakað brauð úr Prentsmiðju Siglufjarðar. Svo minnti Friggi , sem er nokkrum árum eldri en ég á ÚTVARPIÐ, sem áhrifavald og dró þessi áminning hans mig inn í yndislegar minningar um að sitja þögull og spenntur við að knýta línuöngla með afa Pétri og ömmu Mundínu niður á eyrinn á Vetrarbrautinni og erum við þá að hlusta saman á æsispennandi útvarpsleikrit.
Heima hjá ömmu Nunnu og afa Nonna uppi á Hverfisgötu, þar sem ég bjó á neðri hæðinni mín fyrstu æviár, (1962-67) var til mikil og stór mubla, sem þótti á þessum tíma, vera ein af bæjarins flottustu multimediamaskínum.
Í grein sem heitir “GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR” nefni ég eftirfarandi minningu um þessa:
“MULTIMEDIAMASKÍNU, með útvarpi sem náði popplögum á langbylgjunni úr Radíó Luxenburg á fimmtudögum kl.19.00.
Annars kom ekkert úr þessu útvarpi annað en djúp rödd Jóns Múla og hann sagði alltaf sömu leiðinlegu setninguna: “Útvarp Reykjavík, góðan daginn, nú verða sagðar hádegisfréttir”, en svo var plötuspilari, tveir innbyggðir hátalarar og stórt segulband með stórum spólum með fleiri tímum af dægurlögum frá 1940-1967, sem rúllaði allan daginn og mér til mikillar furðu kann ég textana við lög sem ég hef ekki heyrt í 50 ár.”
Það er auðvitað ekki hægt að tala við Frigga frænda án þess að minnast á tónlistaáhrif og minnist hann þar á kasettur með innspiluðu efni úr Kanaútvarpinu og svo að margt og mikið af t.d. hljómplötum sem bárust heim á Sigló úr siglingatúrum togara og stærri báta.
Það má heldur ekki gleyma þeim áhrifum sem ýmsar bæjarrevíur og skemmtanir höfðu á minn tónlistarsmekk. Vill ég þá sérstaklega minnast skemmtana, þar sem karlakórin Vísir, sem var lengi vel stærsta popphljómsveit Íslands syngur fyrir fullu húsi.
Það var dásamleg upplifun að heyra kórinn syngja mitt eilífðar uppáhaldslag, Ciribiribin , við trompet undirleik Gerhards Schmist. Sögumaðurinn Leó Óla hefur nýlega birt sögu um þennan merkilega mann sem virkilega gjörbreytti tónlistarmenningu Siglfirðinga og gott ef ekki allra Íslendinga líka. Sjá meira hér:
Úr RÚV rásinni kom lítið af tónlistarefni sem höfðaði til barna og ungmenna. Maður hlustaði kannski á “Óskalög sjúklinga og sjómanna” annarslagið, en svo kom seinna minnir mig Óskalög Unglinga, líklega sem einhverskonar forvarnarstarfsemi yfir þessum hættulegu Rokk og popp áhrifum sem dundu aðallega yfir sunnlenzk ungmenni úr Kanaútvarpinu. Kanasjónvarpið hafði ég séð í heimsóknum hjá Söllu föðursystir minni í Grindavík og man ég mest eftir hrifningu minni af Bonanza káboj þáttunum.
Svo stendur allt í einu stór imbakassi með rennihurð í stofunni heima á Hafnartúni 6…
… stórt Blaupunkt tæki, sem maður mátti helst ekki snerta án leyfis. Samt var þetta ekkert flókið tæki, maður ýtti á “one” takkann og svo beið maður smá stund, meðan tækið hitnaði og byrjaði að sýna manni svarthvítar hreyfimyndir. Það þurfti engin að hafa fjarstýringu, maður þurfti aldrei að skipta um rás. Svei mér þá ef það var ekki líka barnalás á þessari sjónvarpsrennihurð. Hmm…
Ríkið ákvað strax að vermda íslenska menningu og hindra að almenningur færi sér að voða í sjónvarpsglápi og voru þá engar sjónvarpssendingar á fimmtudögum í áratugi og lengi vel var imbakassinn í sumarleyfi allan júlímánuð minnir mig.
Þegar ég segi sænskum vinum mínum frá þessu með sjónvarpsfría fimmtudaga og TV sumarleyfi, þá finnst þeim þetta bæði fyndið og reyndar svolítið gáfulegt samtímis. Svo minnist ég þess að að ástæðan fyrir því að Íslendingar fengu loksins Ríkissjónvarp með sendingum út um allt land, hafi einmitt snúist um að svíar “gáfu eða sendu okkur ódýrt” sína svarthvítu endurvarpsstöðvar þegar þeir skiptu yfir í litasendingar.
Sel þetta reyndar ekki dýrara en ég keypti það… En Svíarnir minntust þá líka á allskyns brandara um “tæknilegar” fáránlegar lausnir við að sjá litasendingar í svarthvítu sjónvarpi. Já, við könnust líka við það heima á skerinu góða.
En hvaða ár kom þá loksins þessi sjónvarpssendir á Hvanneyrarskálabrúnna heima á Sigló og voru ekki ýmis vandræði fyrir suma í sendingarskugga að ná sendingunum í suðurbænum? Læt þessu ósvarað. En ég spurði Steingrím Kristinsson ýmssa spurninga um þetta og hann sendi mér eftirfarandi mynd og ártal.
“Ég er ekki viss, en hér er mynd úr herbergi mínu um borð í Haferninum og þar sést BW (Black and White) sjónvarpið mitt, sem síðar var sett upp heima, en myndin er merkt árinu 1969 .”
Ég er nokkuð viss í minni minningu um að vara sjö eða átta vetra þegar ég og bróðir minn sátum í stofusófanum og héldumst í hendur þegar við horfðum á frönsku drauga þáttaröðina Belfígor.
Í auglýsningarhléum hlupum við hönd í hönd inn á salerni og pissuðum skjálfandi í kross og svo rétt náðum við að setjast aftur, þegar einhver skrítin auglýsing um þvottaefni sem hét C 11 var að enda. Svo byrjaði spennan aftur.
Skrítið nafn á þvottaefni og en þá furðulegra að ég muni þetta nafn.
Þetta er svona mín fyrsta alvöru hræðsluminning, sem gerði mig og bróður myrkfælna í mörg ár á eftir, var líka ágætis áminning til mömmu og pabba að allt sem streymdi úr þessu nýja heimilistæki, var kannski ekki alltaf við hæfi barna.
Fljótt fór nú nýja brumið af þessari TV-mublu í stofunni og það var fátt sem dró mig heim úr útileikjum, nema einna helst t.d. Emil í Kattholti, Lína Langsokkur og Skreppur Seiðkarl var skemmtilegur líka.
Svo getur maður minnst þess að hafa ekki haft aldur til að sjá sumar bíómyndir í Nýa Bíó, en þar voru strangir dyraverði á launum hjá Oddi og Guðrúnu. Man að ég vildi svo gjarnan sjá The Exorcist (sýnd vorið 1974 heima á Sigló ) þegar ég var 14 ára og fór ég þá á bókasafnið og ég leita lengi að bókinni, en finn hana hvergi. Fer og spyr Lillu bókasafnsvörð (sem var allt annað en lítil) sem var alltaf svo góð við mig, en í þetta skiptið horfir hún stöng á mig og segir:
Jón Ólafur, þessi bók er ekki við hæfi barna og Óli Blöndal bókasafnstjóri hefur lagt hana til hliðar á góðan stað.
WHAT… hugsa ég unglingurinn og fer heim, öskureiður og gekk hart að mömmu um að hún færi og lánaði þessa bölvuðu bönnuðu bók handa mér. Sem hún gerði og man ég að hér byrjaði nýtt myrkfælnistímabil og var ég þá nýbúinn að ná mér eftir Belfígor þættina. Seinna þegar ég loksins sá kvikmyndina með Max Von Sydow fannst mér myndirnar sem ég skapaði í mínum huga við lestur á bókinni, verri en bíómyndin.
Stanslaust á ferð og flugi út um allan fjörð!
Þegar ég sé minningamyndir í hausnum á mér af mér sjálfum sem barn og unglingur, heima í firðinum fargra, er ég stanslaust á hreyfingu í allskyns ævintýrum, mátti bara ekki missa af neinu,. Það mikilvægasta var að hitta vini og óvini “LIFE” í leikjum, þannig að sjónvarpið varð kannski aldrei neinn verulegur áhrifavaldur í mínu lífi.
Ég minnist t.d. þess að hafa verið í svakalegum bardaga með sameinuðum Suðurbæjar- og Brekku-guttum, sem stórhættlegir Húnar.
Sögumaðurin Leó Óla, hefur skrifað skemmtilega sögu um gróft kosningasvik varðandi þessa nafnbót og okkur Húna strákana.
Já, sem sagt, í bardaga minningu minni erum við staddir á hólnum fyrir ofan kirkjugarðinn og berst nú bardaginn fram og til baka alla leið norður að Seljarlandi og fannst mér að Villó og Bakkaguttar væru að byrja að flýja og hafði ég vopnaður trésverði og teygjubyssu króað einn Bakkaguttann af…
…Hélt ég, en hann lýtur skyndilega á armbandsúrið sitt og snýr bakinu við mér og hleypur af stað.
Ég öskra á hann… aumingi ertu… já flúðu bara heim til mömmu.
Hann stoppar og snýr sér við og segir:
Ég er að verða of seinn á fótboltaæfingu og Þú líka. ÚPS!
Það var ekki það, að ég kynni ekki á klukku, mér var bara ekki treystandi til að hafa svona hluti á ofvirkum handleggjum mínum sem brutu allt og brömluðu.
Ég hljóp heim í ofboði og skelli mér í markmannsgallann og hleyp síðan alla leið niður á malarvöll, kem aðeins of seint og þjálfarinn Sigurjón Erlends skipar mér strax að hlaupa 10 refsihringi í kringum völlinn. Bakkaguttin sem flúði af hólmi, flínaði ámátlega framan í mig.
En… en… Sigurjón, ég var að… ekkert múður Jón Ólafur. Svo kláraði ég þessa aulalegu fótboltaæfingu, skrapp heim og fékk mér brauðsneið og stal reiðhjóli bróður míns og hjólaði síðan út í Sundhöll og þar tók við einn og hálfur tími af sundæfingu hjá Regínu Guðlaugs.
Sjá meira hér um íþróttakennarann Regínu og íþróttauppeldi á Siglufirði:
LEIKFIMI- OG FIMLEIKASÝNINGAR! 65 myndir
Bakkagutta ó (vinur) minn var líka á þessari sundæfingu.
Svo heim að borða seinan kvöldverð, las og fletti í nokkrum hasarblöðum, um ævintýri Skugga og Tarzans og svo sofnaði ég með drauma um ævintýri morgundagsins í hausnum og ég gat varla beðið eftir því að vakna. Ég hafði sem sagt, engan tíma í að glápa á sjónvarpið.
Svona var þetta alla daga og í minningu minni er alltaf gott veður heima á Sigló og það mesta í sjónvarpinu var hundleiðinlegt fullorðins rugl og ég held að ég hafi ekki misst af neinu.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá ljósmyndaranum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar persónur og heimildir í greinartexta.