Gæsa­veiðitíma­bilið hófst 20. ágúst og stend­ur tíma­bilið til 15. mars ár hvert. Leyfilegt er að skjóta grágæs og heiðargæs. Báðir stofn­ar munu standa vel að vígi og hef­ur fjöldi heiðagæsa marg­fald­ast hér á landi síðustu ára­tugi og talið er að stofninn telji yfir 1/2 millj. fugla, er hún um fimmfalt stærri að talið er en grágæsastofninn.

Árið 2016 voru 45 þúsund grágæsir veiddar en aðeins 19 þúsund heiðargæsir, 11 þúsund manns eru með veiðikort.

Á vef Umhverfisstofnunnar segir að öllum íslenskum ríkisborgurum sem hafa aflað sér veiðikorts eru heimilar fuglaveiðar í almenningum utan landareigna lögbýla enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra. Landeigendum einum eru heimilar fuglaveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra á landareign sinni. Á sumum friðlýstum svæðum eru fuglaveiðar óheimilar. Veiðikorthöfum er gert skylt að skila inn veiðiskýrslu til veiðistjóra á hverju ári.

Erlendir ríkisborgarar, sem ekki hafa lögheimili hér á landi, geta fengið veiðikort sem gildir skemur en eitt ár og stundað veiðar á eignarlöndum með leyfi landeiganda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

 

Gæsir

.

Grágæs er að mestu farfugl. Grágæs og heiðagæs skipta með sér landinu, heiðagæsin á hálendi og grágæs á láglendi, þótt heiðagæsin hafi á síðari árum seilst nokkuð inn á yfirráðasvæði grágæsarinnar. Grágæs hefur vetursetu á Bretlandseyjum, aðallega í Skotlandi, en minna á Norður-Írlandi og Norður-Englandi. Íslenskir fuglar hafa fundist á meginlandinu, bæði í Noregi og Hollandi.

Á síðustu árum hefur veturseta aukist mjög hérlendis, einkum á Suðurlandi og tengist væntanlega aukinni kornrækt og hlýnandi veðráttu, staðarfuglarnir geta skipt þúsundum. Fram til þessa voru nokkur hundruð fuglar viðloðandi Reykjavíkurtjörn á veturna, þeir fuglar sáust víða á Innnesjum og Suðurnesjum. Farfuglarnir koma snemma, fyrstu gæsirnar fara að sjást um miðjan mars og þær fara líka seint, í október-nóvember. Varpheimkynnin eru víða í Norður- og Mið-Evrópu og austur um Asíu.

Heiðagæs er farfugl. Aðalvarpstöðvarnar eru á hálendinu en heiðagæs hefur verið að breiðast út niður með helstu stórám og víðar og verpur nú sums staðar á láglendi, allt niður undir sjávarmál. Hefur fækkað í Þjórsárverum, sem voru lengi stærsta heiðagæsavarp í heimi. Vetrarstöðvar heiðagæsar eru í Skotlandi og Norður-Englandi. Meirihluti íslenskra geldfugla fer til Grænlands í lok júní til að fella flugfjaðrir og grænlenskir varpfuglar fara um Ísland vor og haust. Íslensk-grænlenski stofninn hefur stækkað mjög á undanförnum áratugum.

 

Gæsir

.

Húnaþing vestra hefur birt á vef sínum fyrirkomulag gæsaveiða í eignarlöndum sveitarfélagsins. Veiðimönnum með gilt skotvopnaleyfi og veiðikort stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra sem veitir þeim einum heimild til gæsaveiða. Um er að ræða leyfi á þrjú svæði og kostar hvert leyfi kr. 9.000 á dag. Fjöldi veiðimanna á veiðisvæði er takmarkaður við fjórar byssur á hvert svæði á dag.

Svæðin eru eignarhlutur Húnaþings vestra í Víðidalstunguheiði austan Víðidalsár ásamt jörðinni Öxnatungu, Víðidalstunguheiði vestan Víðidalsár ásamt jörðunum Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og Króki og eignarhlutur sveitarfélagsins í Arnarvatnsheiði og Tvídægru.

 

Fyrirkomulag gæsaveiða í eignarlöndum Húnaþings vestra verður með eftirfarandi hætti haustið 2018:

1.  Veiðimönnum með gilt skotvopnaleyfi og veiðikort útgefið af Veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra er veitir þeim einum heimild til gæsaveiða í eignarlöndum sveitarfélagsins. Um verður að ræða leyfi á þrjú svæði.

Svæðin eru:

1. Eignarhlutur Húnaþings vestra í Víðidalstunguheiði austan Víðidalsár ásamt jörðinni Öxnatungu.

2. Víðidalstunguheiði vestan Víðidalsár ásamt jörðunum Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og Króki.

3. Eignarhlutur Húnaþings vestra í Arnarvatnsheiði og Tvídægru.

2.  Hvert veiðileyfi gildir þann dag sem tilgreindur er á viðkomandi leyfi og er útgefið innan þess gæsaveiðitíma sem umhverfisráðuneytið hefur gefið út vegna ársins 2018. Leyfið veitir einungis skráðum handhafa þess heimild til veiða á umræddu svæði á áðurnefndum tíma.

3.  Verð fyrir hvert leyfi er kr. 9.000,- á dag.

4.  Fjöldi veiðimanna á veiðisvæði er takmarkaður við 4 byssur á hverju svæði á dag og tekið skal fram að leyfishafar hafa einir heimild til veiða á umræddum svæðum.   Veiðimenn eru hvattir til að tilkynna veiðar án leyfis til eftirlitsmanns.

5.  Með vísan til 7. greinar Fjallskilasamþykktar Húnaþings vestra er óheimilt að nýta hunda og flygildi (dróna) til veiða fyrr en fyrstu göngum á viðkomandi afrétti er lokið.

6.  Fjallskiladeildir í Húnaþingi vestra hafa heimild til að loka vegum og vegslóðum sem eru á forræði sveitarfélagsins án fyrirvara ef talið er að þeir liggi undir skemmdum vegna tíðarfars og umferðar. Þannig veitir veiðileyfið ekki tryggingu fyrir því að ávallt sé hægt að aka að veiðisvæði.

Þess er vænst að veiðimenn virði það fyrirkomulag sem hér er kynnt og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að náttúruauðlindum.

Kort af veiðisvæðum

Gæsaveiðisvæði 1 og 2 – Víðidalstunguheiði

Gæsaveiðisvæði 3 – Arnarvatnsheiði og Tvídægra

 

Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: úr einkasafni
Heimild: Fuglavefurinn