Æskuvinirnir og skólafélagarnir Atli, Unnar og Dagur voru allir á síðasta ári í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þeir höfðu ætíð verið miklir útivistar og skíðaáhuga gaurar en höfðu síðustu tvö árin farið meira og meira út í klifur í klettum og ísveggjum.
Þeir höfðu líka skipt út snjóbrettunum fyrir Telemark fjallagönguskíði til þess að geta auðveldlega komist í spennandi duldar vetrarævintýraperlur sem lágu oft langt utan við alfaraleið.

Þeir voru duglegir í sumar og aukavinnu með skólanum og lögðu alla sína peninga í sameiginleg kaup á góðum græjum og áttu allt sem hentar í svona ævintýraferðir.

Nú voru þeir staddir á Siglufirði í jólafríinu og í góðu skjóli í húsi sem amma Dags átti en hún var uppalin og ættuð héðan, hún flutti suður með foreldrum sínum fljótlega eftir að síldin lét sig hverfa.

Dagarnir eru vissulega stuttir en allt var hvítt og bjart og fallegur blámi myndaðist í tunglsljósinu á kvöldin með tilheyrandi norðurljósa sýningu.

Siglfirsk vetrarstilla. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson

Fyrsta daginn gátu þeir ekki stillt sig og leigðu sér snjóbretti og léku sér í frábærum brekkum sem tilheyra hinu dásamlega skíðasvæði Siglfirðinga í Skarðsdalnum fyrsta daginn.

En í dag voru þeir nýkomnir heim úr góðum fjallatúr þar sem þeir fóru upp með skíðalyftunni og gengu síðan á Telemarkskíðunum skáhallt upp í norður og fóru síðan alla leið upp á Illvirðishnjúk og renndu sér síðan sömu leið tilbaka.

Ljósmynd lánuð frá örnefnasíðunni Snókur.is. Ljósmyndari: Hannes P Baldvinsson.

Þreyttir en ánægðir lágu þeir í hver sínum sófa með spjaldtölvurnar sínar og leituðu að góðum klifurstað í nágrenninu, ekki of langt frá vegi eða skíðasvæðinu, því kletta- og ísklifur krefst meiri undirbúnings og allskyns græjur verða að vera með í bakpokum.

Hej, strákar, ég er að skoða gamla heimasíðu sem karlinn sem við hittum á Saga Fotografíka safninu sagði mér frá.
Hér er fullt af sögum um Skarðið og nágrenni og svo hrópaði Atli:

Afglapaskarð!

Vá, þvílíkt nafn, slær út Illviðrishnjúkur. Þetta gæti verið áhugaverður klifurstaður.

Strákarnir kíkja á Google Maps og sjá að þetta er alveg hrikalega illfært skarð með háum klettaveggjum. Sérstaklega að austanverðu segir Unnar hrifinn.

Bíðið aðeins, þið kannski hættið við þegar ég les þetta fyrir ykkur strákar segir Atli sem var byrjaður að lesa gamla þjóðsögu um Skarðið og Afglapaskarð.

Hér er stutt frásögn í grein úr Morgunblaðinu frá 1936:

Efst á fjallinu eru tindar og klettar og er brúnin efsta svo þunn sem saumhögg. Skilur sú egg Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslur. Gegn um háeggina eru sem dyr, augsýnilega höggnar af fornaldarmönnum, og standberg á báðar hliðar. Gegn um dyrnar eru hér um bil fjórar hestlengdir, en breiddin svo að vel er klyfjafrítt.

„Yfir skarði þessu hafði legið síðan í heiðni andi nokkur illkynjaður og hin mesta meinvættur. Birtist hún ferðamönnum sem kolsvartur skýstrokkur í lofti, sumir segja eins og skopparakringla.“

„Steyptist þetta yfir ferðamenn og varð ávalt einhverjum að bana, manni, hundi eða hesti, en þó aldrei nema einum í senn, þótt fleiri væri saman, og kom þá stundum niður á þann, sem var í miðjum hópnum.“

Amma sagði mér oft frá þessum hrikalega Skarðsvegi sem oftast var bara opinn nokkra vikur á sumrin og eitthvað um að það væri einhver draugur þarna sagði Dagur.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson, hauskúpa varar við hættulegum Skarðsvegi eða einhverjum óvætti ?

Já, einmitt, segir Atli og heldur áfram að lesa.

Þrátt fyrir þetta tókust ekki ferðir af yfir skarðið, því að margir komust þar klakklaust yfir og án þess að verða neins varir. Fyrir um 300 árum tók ófögnuður þessi að magnast, og drap nú ferðamenn jafnt á nóttu sem degi. Hver sá, er varð fyrir sortanum og hneig samstundis niður.

Um 1730 færðist óvættur þessi í aukana og kvað nú svo rammt að því, að allir töldu, að þetta væri hinn illi sjálfur.

Á þessu gekk um fimm ára skeið og lá við að samgöngur tækjust af yfir fjallið. Þóttust menn þá ekki geta búið við þennan ófögnuð lengur og kærðu vandræði sín fyrir Steini biskupi á Hólum. Biskup gerði Þorleifi prófasti Skaftasyni í Múla orð og bað hann að vígja skarðið og reyna að fá þessum ósköpum aflétt.

Þorleifi prófasti er svo lýst að hann hafi þótt borið af öðrum prestum á sinni tíð á Norðurlandi, flestra hluta vegna.

Já, þessi séra Þorleifur er víst svaka rumur, stór eins og tröll og svo kunni hann víst Hrafnamál líka….

Ha… hverskonar tungumál er það eiginlega spyr Unnar forviða.

Tja, hann skildi t.d. að einhverjir Krummar voru tala saman eða “krúnkast á” og spá fyrir um dauða hans sjálfs og hóta að kroppa úr honum augun.

Góður! Segir Dagur.

Svo var hann víst líka prófastur á Hólum á sama tíma sem vinur hans Galdra Loftur var þar í skóla, bætir Atli við.

En haldið ykkur fast, því hér kemur aðalatriðið um þetta Afglapskarð.

„Af öllu þessu valdi Steinn biskup hann til þess að vígja Siglufjarðarskarð. Þorleifur prófastur ferðaðist til skarðsins sumarið 1735 og nokkrir prestar og vildismenn með í för. Fjöldi fólks dreif að til að vera við athöfnina. Byrjaði Þorleifur með að hann lét hlaða altari úr grjóti annars vegar í skarðinu.

Hélt hann þar síðan messugerð með vígslu og stefndi þaðan vondum öndum í skarð það, eða hraungjá, sem er nokkru sunnar í fjallsegginni og kallast Afglapaskarð.

Var hann þá bæði kröftugur í orðum og bænheitur.

Að lokinni vígslu mælti hann svo fyrir, að hver, sem yfir skarðið færi, skyldi gera bæn sína við altarið og mundi þá vel duga.
Altari Þorleifs sést enn í Siglufjarðarskarði.

Mælt er, að síðan, eða um 200 ára skeið, hafi Siglufjarðarskarð ekki orðið mönnum að meini.

En Afglapaskarð þykir æ síðan ískyggilegt; hafa nokkrir menn villst í það og beðið þar bana.

Já, þú segir nokkuð, draugadjöfullinn rekin yfir í annað skarð. Hmm.. það væri nú ansi töff að segja þessa sögu ef við skyldum lifa það af að klifra yfir þetta hrikalega Afglapaskarð sagði Dagur og hló við.

Þetta er ekkert svo mikið mál strákar segir Unnar spekingslega. Ef við förum af stað áður en það birtir frá Skíðaskálanum og svo fylgjum við línunni sem mótar fyrir við gamla veginn og svo yfir Skarðið og svo rennum við á skíðunum í suðurátt og þá er ekkert langt að vestanveggnum á Afglapaskarði.

Dagur setur inn GPS punkta og reiknar út að þeir ættu að geta komist þetta á rétt rúmum 6 klukkutímum og náð því að koma til baka að Skíðskálanum fyrir myrkur.

Veðurspá, Unnar veðurguð? Segir Atli.
Skítaveður á morgun en flott á sunnudag. En það er nú reyndar aðfangadagur jóla og skíðasvæðið er lokað.

Erum við hér til að halda uppá heilög jól, eða hvað, svarar Dagur í hneykslunartón.

Ók, gott, þá fer morgundagurinn í hvíld og undirbúnings pökkun, því við verðum að pakka létt ef við eigu að hafa orku í að drösla skíðum og öllu upp klettavegginn og yfir skarðið segir Atli sem oft er sjálfútnefndur leiðtogi hópsins.

Sunna, miðaldra frænka Dags lofaði að keyra þeim og sækja þá á jeppanum sínum í síðasta lagi klukkan 15.30 en hún fussaði og sveiaði yfir þessum glæfralega leiðangri drengjanna.  

Þegar birti eru þeir komnir langleiðina að Siglufjarðarskarði og það var heiðskýrt en frekar svalt í loftinu. Þeir voru á undan áætlun þegar þeir komu að hinum hrikalega vestanverðan klettavegg Afglapaskarðsins fræga.

Atli tók nú við stjórn og segir, Dagur þú ert sterkastur og klifrar fyrstur og setur festingar, svo kemur Unnar með hálfa pakkninguna þína og ég síðastur með afganginn.

Unnar, ertu viss um að þú viljir vera í miðjunni? Segir Dagur með háðsglotti.

Nú, hvað meinarðu?

Sagan segir að draugurinn drepi oftast þann sem er í miðjunni….

Þjóðsögukjaftæði og gammalt bull svarar Unnar borubrattur og gerir sig klifurkláran.

Þetta var miklu erfiðara klifur en þeir höfðu haldið og gekk hægt en Dagur er að nálgast skarðsbrúnina þegar ískalt loft streymir yfir eggina og hann hrópar á vini sína.

Það er að koma svaka þoka að austan strákar, verðum að drífa okkur yfir eins fljótt og hægt er.

Hann náði varla að sleppa þessum orðum þegar þykk grá þoka kom yfir Afglapaskarð og datt yfir þá efst í snarbröttum klettinum.
Gleypti þá með húð og hári og þeir sáu ekki hvorn annan þó svo að um tíu metrar væru á milli þeirra.

Allt í einu finnur Dagur að reipið fyrir neðan hann fer í svakalegar sveiflur og hann heyrir vini sína öskra af sársauka og hræðslu og svo heyrast dynkir og skruðningar eins og að allskyns dót rúlli á fleygiferð niður fjallshlíðina bröttu.

Dagur kallar á þá og fær lengi vel ekkert svar en svo hrópa báðir í kór:
Dagur dragðu okkur upp, svo skríðum við restina sjálfir.
Dagur tekur á öllu sem hann á og nær að koma þeim að klettinum aftur. Vinir hans birtast honum síðan náfölir og allir skrámaðir og blæðandi og þeir koma ekki upp orði. Liggja báðir útslegnir við fætur Dags og halda fast í hvorn annan.

Hvað gerðist eiginlega spyr Dagur?

Atli svarar, fyrst fann ég svakalegan kuldablástur og svarta þoku fljúga framhjá mér og svo réðist þessi andskoti á Unnar sem öskraði bara og missti allt dótið sem fór að hluta til í hausinn á mér og svo kom þessi djöfull og reif og sleit af mér allt  og klóraði í mig allan hátt og lágt.

Unnar kemur enn ekki upp orði og virðist vera í sjokk ástandi og nýskipaður leiðtoginn Dagur rífur í þá og segir.

Við verðum að drífa okkur yfir skarðseggina núna strax strákar og þeir klifra það litla sem eftir var, þokunni létti augnablik og þeir sjá brattan sem bíður þeirra að austanverðu.

Mynd frá Goggle Maps. Siglufjarðarskarð og gamli Skarðsvegurinn.

Dagur skipar Atla að draga upp reipið og setja örugga festingu í klettarifu svo að þeir gætu látið sig síga einn af öðrum niður Siglufjarðar megin í Afglapaskarðinu djöfullega.

Í sömu mund fór um þá hrollur þegar ískalt svart þokuloft steypist yfir þá og þeir heyrðu dimma hása rödd segja:

„Komið ykkur burt úr mínu skarði strákahvolpar og heilsið þið síðan heim að Hólum til helvítis prestsins hans Þorleifs að ég sé hérna ennþá og hann er velkominn hingað í jóla-visitasjon ef hann þorir.“

Unnar er nú algjörlega stjarfur og getur sig hvergi hreift og Alti starir dauðskelkaður niður í þykka gráa þokuvegginn fyrir neðan skarðseggina.

Dagur verður að slá til þeirra og hrista báða tvo rækilega til að fá líf í þá og minnir á það sé að koma myrkur og þeir verði að komast niður í Skíðaskálann í Skarðsdal eins og skot.

Vel komnir niður versta brattan stynur Atli upp. Veistu nokkuð hvar við erum Dagur?

Dagur nær ekki að svara Atla því þá hringir óvænt áður sambandsdauði gemsinn hans í brjóstvasanum og Sunna frænka spyr örvæntingarfullt.

Er allt í lagi með ykkur, hvar eruð þið eiginlega ? Á ég að hringa út Björgunarsveitina.

Nei Sunna við erum ók, við sjáum bara ekkert í þokunni og svo er að orðið ansi dimmt hér líka.

Bíddu, ég ætla að flauta með bílflautunni og svo blikka ég háu ljósunum stanslaust.

Heyrirðu í bílnum ? Já flott, gangið þið þá bara á hljóðið og svo sjáið þið vonandi bílljósin.

Nýtt spurningarflóð dundi yfir þá frá Sunnu þegar þeir loksins í kolniðamyrkri stóðu við bílinn hennar.

Guð minn álmáttugur, hvað er að sjá ykkur drengir. Hvað kom eiginlega fyrir ykkur ? Hvar eru skíðin ykkar og bakpokarnir ? Á ég að fara með ykkur beint út á heilsugæslu og láta doktor Teit vin minn kíkja á þessi sár?

Löng þögn…
… og enginn af vinunum vildi verða fyrstur til að útskýra eitthvað sem var ekki hægt að segja frá í rauninni….

Degi leið eins að hann yrði að svara, þetta var jú frænka hans og einhver útskýring verður að koma, annars myndu fleiri spurningar rigna yfir þá og kannski Unnar eða Atli myndu þá segja eitthvað alveg út í hött.

Við lentum í hrakningum í þokunni sem kom skyndilega og síðan villtumst við af leið og misstum allt dótið niður brattann klettavegg og síðan runnu Atli og Unnar niður hjarnharða brekku og þar var allt fullt af smágrjóti frosið fast í snjónum og þeir rispuðu sig illa en þetta eru ekkert djúp sár.

Bara smá rispur allt saman….

En sárinn á sálinni eru verri hugsaði Dagur hljótt fyrir sjálfan sig.

Heima í heitu ömmuhúsi hvíldu þeir sig vel og sleiktu sárin tvo snjóstormadimma daga eftir atburðina í Afglapaskarði. Dagur tók upp möguleikann að fara aðra ferð til að reyna að finna og sækja allt þeirra dýra dót en Atla og Unnari leist ekki vel á það og sögðust frekar taka því tapi sem sekt fyrir að hafa ekki tekið innihald þjóðsögunnar alvarlega, þar fyrir utan er líklega allt horfið undir snjóskafla.

Þeir sættust á að héðan eftir í framtíðar ævintýraferðum að hafa það sem undirbúningsrútínu að rannsaka vel þær sögur sem voru til um fjallaskörð og aðra áhugverða staði.

Þó svo að þjóðsögur lýsi oftast hlutum og hættum sem fólk skyldi ekki hér áður fyrr þá er samt í þeim saga og viðvörun um reynslu og upplifun annarra ferðalanga sagði Atli alvarlegur á svip við félaga sína.

Já, mikið rétt vinur. Því þó svo að nýjasta tækni og vísindi geti kannski útskýrt allt, þá er óþarfi að leyfa sér að gera lítið úr sögunni.
Þar fyrir utan verður heimurinn eitthvað svo leiðinlegur líka þegar við trúum ekki á og vanvirðum þjóðsögurnar.

Verðum við kannski að skila þessari kveðju heim að Hólum á heimleiðinni, spyr Unnar spekingslega.

Held það bara, svarar Dagur og bætir við.
Hólar er sögufrægur og merkilegur staður í sögu Íslands og vel þess virði að vita meira um.  

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og forráðamönnum snokur.is.

Forsíðuljósmynd: Hannes P Baldvinsson, snokur.is.

Viðbót 25 nóvember 2020:
Á bloggsíðu Leós Ólafssonar má sjá margar ljósmyndir frá Skarðinu og Afglapaskarði. Leó fór í hrikalega fjallgöngu uppá fjallsegginni frá Skarðinu og suður að Afglapaskarði í ágúst 2008. Flettið niður síðuna miðja og þá birtist ykkur ferðasaga og frábærara ljósmyndir.

Bloggheimar Leós ágúst 2008

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI