Einfaldar leiðir til að efla landsbyggðina
Ef það er eitthvað sem má segja um okkur Pírata þá er það að við lifum eftir grunnstefnu flokksins. Alltaf þegar við stöndum frammi fyrir óvæntu vandamáli þá byrjum við á því að leita í grunnstefnuna, sem hefur ekki brugðist okkur til þessa.

Grunnstefna Pírata er einfalt en gott leiðarljós. Hún er í sex stuttum köflum sem kveða meðal annars á um gagnrýna hugsun og að taka alltaf ákvarðanir út frá gögnum og rökum. Góðar hugmyndir eru góðar, sama hvaðan þær koma, og það er í lagi að skipta um skoðun ef fram koma nýjar upplýsingar og betri rök. Við teljum þetta vera skynsamlega nálgun á stjórnmál og þess vegna förum við eftir henni.

Réttu svörin á landsbyggðinni
Þegar kemur að málefnum hinna dreifðu byggða þá er grunnstefna Pírata líka með svörin. Þar segir að Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá. Það þýðir að ef til stendur að ráðast í umdeildar aðgerðir eða framkvæmdir þá eiga íbúar svæðisins rétt á sinni aðkomu. Þann rétt er auðvelt að tryggja með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gagnsærrar stjórnsýslu.

En þá er það rúsínan í pylsuendanum. Í grunnstefnunni segir nefnilega líka að Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast. Þetta túlkum við Píratar á þá leið að það þurfi að efla sjálfstæði sveitarfélaganna í landinu. Færa völdin frá miðstýringunni í Reykjavík og heim í hérað.

Við trúum því einlæglega að fólki farnist best þegar það getur haft áhrif á nærumhverfi sitt. Þá trúa Píratar því einnig að fólk sem býr á hverju svæði fyrir sig viti, öðrum fremur, hvað sé svæðinu fyrir bestu. Þess vegna er stefna Pírata alveg skýr: Draga þarf úr miðstýringu ríkis á sama tíma og stutt er við sjálfbærni sveitarfélaga. Þannig er smærri samfélögum og íbúum þeirra gert kleift að móta sitt umhverfi sjálft. Það er auðvelt að hrinda þessu í framkvæmd, það þarf bara að lækka hlutfallið í sveitarstjórnarlögum þannig að íbúar eigi auðveldara með að kalla eftir borgarafundi og bindandi íbúakosningu.

Fjölbreyttari tekjur, meiri áhrif
Fyrir kosningarnar samþykktu Píratar sérstaka byggðastefnu til að hnykkja á þessari sýn sinn. Þar er minnst á allt hér að ofan, að völdin eiga að vera í auknum mæli heima í héraði, en líka að sveitarfélög ættu að okkar mati að fá aukna hlutdeild í verðmætunum sem þau skapa – t.d. virðisaukaskatti, fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti fyrirtækja.

Þá erum við með gríðaröfluga nýsköpunarstefnu sem miðar sérstaklega að því að efla nýsköpun um allt land og þá munu frjálsar handfæraveiðar, sem við berjumst fyrir, styrkja brothættar byggðir. Til þess að hægt sé að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf á landsbyggðinni þarf sterka innviði, eins og háhraða internet, traust rafmagn og öruggar samgöngur, sem allt er er á dagskrá Pírata.


Höfundur: Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi.