Herbert Sigfússon (Hebbi Málari) og Gunndóra Jóhannsdóttir kona hans. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Alveg dásamlega falleg ljósmynd!

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 HLUTI.

Já lesandi góður, þetta er kannski svolítið skrýtinn fyrirsögn en þetta er líka einkennileg og mjög svo Siglfirsks saga. Þ.e.a.s. hún er svo lýsandi yfir hvað margt og mikið sem var sérstakt og öðruvísi á Siglufirði á síðustu öld sem var þá og er enn höfuðborg síldarinnar.

Þessi saga er í nokkrum hlutum og verður birt hér á Trölli.is sem einhverskonar framhaldssaga og „Helgarblaðs“ lesning.

Formála… saga.

Við sem erum uppalin í síldarsögunni upplifðum í denn alls ekki lífið og tilveruna sem hluta af einhverri merkilegri framtíðar sögu. Nei við vorum of upptekin þá í okkar eigin hversdagsleika og þátttöku í daglegu lífi.

En við sjáum þetta núna… með allt öðrum augum.

Núna sjáum við söguna í baksýnisspeglinum og segjum hátt…..já á Sigló var margt og mikið virkilega öðruvísi, skrýtið, einstakt, sumt gat bara gerst á Siglufirði og hvergi annarsstaðar á Íslandi og allra síst í Reykjavík sem var þá og er enn bara venjuleg höfuðborg með allt annað hlutverk en alvöru SÍLDARHÖFUBORG.

Og það eru margir aðrir en við Siglfirðingar sem muna þessa sögu…… í öðrum löndum líka og akkúrat þessi saga tengist Svíþjóð.

Og lífið er sko alls ekki bara viðskipti og reikningar…. auðvitað mynduðust ekta vináttubönd á milli fólks sem var háð samvinnu við hverja aðrar ár eftir ár í áratugi. Tungumálaerfiðleikar voru ekkert stórt vandamál og löguðust með hverju árinu sem leið og greinarhöfundur hefur séð mörg viðskiptabréf á bæði sænsku og á íslensku og þau byrja alltaf eins….
Á orðum eins og:

Kära vän og Kæri vinur !

Og síðan kom hitt og þetta á “SKANDINAVÍSKU” sem er eigið tungumál og það var mikið notað á Siglufirði.

Og “Nota Bene” ég er löngu hættur að verða hissa þegar ég finn ljósmyndir, sögur og listaverk frá Siglufirði hér á vesturströndinni, því þessi Siglfirska síldarsaga er bara hreinlega til í öðru hverju húsi “här i Bohuslän.”

Það sem rekur greinarhöfund áfram í að skrifa svona sögur er hreinlega hræðslan við að þessi saga hverfi með andláti eldra fólks sem kann hana og líka að þegar við minnumst látinna ættingja og vina í hugsuðum og skrifuðum orðum þá gefum við þeim og sögunni í rauninni eilíft líf.

Sænskar síldveiðiskútur liggja hlið við hlið á Siglufirði 1945. Ljósmyndari óþekktur: Myndin er lánuð frá Byggðarsafninu í Edshultshall.

 

Það sést vel í sögunni að SUMIR, þá sérstaklega listafólk, ljósmyndarar, rithöfundar og annað „skrýtið fólk“ eins og t.d. Örlygur Kristfinnsson tóku eftir þessu “sérstaka” og vissu að þarna var eitthvað merkilegt í gangi og tóku það að sér að mála og mynda þessa sögu í orðum og á dúka o.fl.

Okkur hinum til mikillar ánægju árið 2019.

En vonandi tekst mér að koma þessu frá mér í skiljanlegu formi og í sama „manneskjuelskulega“ anda sem ræður ríkjum í sögunni sem er sögð í Síldarminjasafi Íslands en þar er ekki bara verið að sýna einhverja „Síldariðnaðarsögu,“ heldur miklu frekar söguna um fólkið sem bjó þarna, ástir, vináttu, tónlist, listir og líka sorgir og erfiðleika.

Og rétt eins og í hinum frábæru sögum Laxness og Hallgríms Helgasonar þar sem við erum minnt á að sumt var virkilega erfitt og óréttlátt og annað svo ljótt og hræðilegt að við viljum kannski ekki lesa eða heyra um þann  hluta sögunnar…..

Núna þegar við í okkar eigin minningum sjáum þetta allt saman í fallegum rómantískum myndum sem passa okkur betur.

En sumt var virkilega erfitt og hættulegt, eins og t.d. þessir þriggja mánaða rekneta túrar Svíanna með söltunum um borð í fraktbátum sem var breytt í veltandi síldarplan á sumrin. Og í áratugi komu þeir allir til Sigló og drógust óspurðir inní þessa sögu.

Og vonandi færð þú lesandi góður einhverja heildarmynd í þetta allt saman eftir að hafa skoða yfir 40 gamlar og nýjar ljósmyndir frá Siglufirði og „Sverige“ og lesið texta um Málarameistarann Herbert Sigfússon en hann var í daglegu tali alltaf kallaður Hebbi málari og listaverk eftir hann er hægt að sjá víða á veggjum á Sigló sem og verk sem hafa hangið á stofuveggjum í Svíþjóð í yfir 70 ár í æskuheimili hjá öldruðum skipstjóra vini mínum honum Tore Gustafsson.

Herbert Sigfússon, Hebbi Málari. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

 

“Hér er seld Íslandssíld” stendur á skiltinu sem Tore Gustafsson bendir á. En þetta skilti hangir á vegg í gömlu verbúðinni sem tilheyrði bátunum Rudolf og Dollar frá Edshultshall en þessir frakt/fiskibátar áttu langan og farsælan starfsferil. (Meira um það seinna)  Það hefur alltaf verið mikið gæðamerki að benda á að síldin sé veidd við Ísland, sú síld er feitari og yfirleitt mun stærri en önnur síld. Já þar er sko munur á SÍLD og síld enda eiga Svíar heimsmetið í síldaráti og sem dæmi má nefna að vikuna fyrir Midsommar (Jónsmessu) eykst salan á síld um 655 prósent og þá helgina borða þeir síld að andvirði ca 840 000 000 Ís kr.

 

En þessi flottu listaverk  komu sem vinargjöf frá Siglfirskum vinum sem voru boðnir í heimsókn í lítið 300 manna sjávarþorp sem heitir Edshultshall á vesturströnd Svíþjóðar einhvern tíman í lok 1940 og hér þarf greinarhöfundur hjálp frá eldri lesendum sem mögulega minnast þess hverjir voru Hafnarvörður / Tollstjóri og Sænskur „konsult“ á SIGLÓ á þessum árum.

 

Með listaverkum Hebba Málara kom bókin “Iceland and the Iclanders sem var gefin út 1945 og í henni er þessi líka flotta skrautskrift með kveðju frá Guðný og Jóhanni. Í þessari bók eru líka mikið af fallegum ljósmyndum sem okkar eini og sanni Vigfús Sigurgeirsson tók víðsvegar um landið.

 

(Innskot frá lesenda: Skrautskriftin er eftir Guðbrand Magnússon kennara. já takk, ég get vel trúað því.)

Edshultshall. Ljósmyndari óþekktur: Myndin er lánuð frá Byggðarsafninu í Edshultshall.

 

Sagan byrjar reyndar um 1925 með föður Tore en hann hét Oskar Gustafsson frá Edhultshall en hann var hörkutól og eigandi og skipstjóri á bátnum Rudolf.

Hann var mikil frumkvöðull þegar kemur að reknetaveiðum Svía við Íslandsstrendur og jafnframt einn af stofnendum efahagsamvinnufélagsins “Félagsskapur Bohuslänskra sjómanna á Íslandsmiðum” (Bohusläns Islandsfiskare ekonomiska förening) “BIFF.”
Stofnað í Lysekil 1933.

Sjá aðrar greinar hér:

SIGLUFJÖRÐUR ER OG VERÐUR ALLTAF HÖFUÐBORG SÍLDARSÖGUNNAR

Á LEIÐ TIL ÍSLANDS

Og fullt af skemmtilegum ljósmyndum í:
SKANDINAVÍSK LANDLEGA Í MÁLI OG MYNDUM

En það er einmitt BIFF félagið sem er til enn í dag sem er upphafið af vináttu milli mín og Tore sem tók við skipstjórn Rudolfs af pabba sínum í lok 1950 og hann fór í nokkra reknetaveiðitúra en þá mest fyrir austan og uppi við Jan Majen. En Tore er formaður félagsins í dag og síðan gerði hann mig að ritara nú í maí því honum fannst tími til kominn að yngja upp í stjórninni (hinir stjórnarmennirnir eru á milli 80 og 90 ára, flestir gamlir síldveiðimenn) og líka að það væri gott að hafa sænskumælandi Siglfirskan síldarsögugrúskara í stjórninni.

Í sjóðum félagsins eru í dag til  um 65 miljónir Ís kr. og eina markmið félagsins er að ávaxta þessum peningum og veita styrki til allra sem vinna að því að varðveita þessa merkilegu síldveiðisögu sænskra sjómanna við Íslandsstrendur.

Inn í söguna er einnig dreginn gleðiboltinn Frans Gustafsson en hann var bróðir Oskars og skipstjóri og eigandi bátsins Dollar og fylgdust þessir „bræðrabátar“ að í öllum sínum túrum til Íslands í nær fjóra áratugi en það er mest Frans og hans hæfileikum í mannlegum samskiptum að þakka sem sköpuðu þessi vinabönd þegar kemur að þessu heimboði sem báru með sér listaverk Hebba Málara frá Siglufirði og alla leið til Edshultshall.

Bræðrabátarnir Rudolf og Dollar í landlegu á Siglufirð á fyrri hluta síðustu aldar. Ljósmyndari óþekktur.

 

En við verðum líka að ræða aðeins um lög frá 1922 (lög nr 33/1922) en þau voru sett til þess eins að gera erlendum aðilum erfitt fyrir að setja upp landvinnslustöðvar á Íslandi en þau bönnuðu líka ALLA vinnslu og aðra vinnu um borð í erlendum bátum og skipum innan við 3 mílna landhelgi Íslands. Það merkilega er að þessi lög voru meira og minna í gildi fram yfir 1990 og eldri Svíar sem ég hef hitt hafa oft nefnt þetta og sumir jafnvel sagt að Íslendingum hafi ekki verið vel við þá sem og aðra útlendinga á þessum tíma.

Síðan er það sárt að vita að þessi lög orsökuðu slys á mönnum og fjárhagslegt tjón fyrir Svíana sem og aðrar þjóðir sem stunduðu söltun um borð við Íslandsstrendur og þeir neyddust oft vegna veðurs að brjóta þessi lög, læddust nær landi inní firði til þess eins að geta klárað söltum o.fl. þegar öldugangur henti þungum síldartunnum til og frá á dekkinu og líf og limir áhafnarinnar var í stórhættu. Margir síldarsjómenn slösuðust illa……svo já, það mikið til í þessari “kritík” og það kemur skýrt fram í þessari grein hér neðar hverskonar vandmál og hættur þessi lög sköpuðu á sínum tíma:

SÍLDARSAGA: UMSKIPUNARTÚR VIÐ ÍSLAND 1946

En…. ég verð að benda á þessi lög voru ekki sett á til þess að andskotast með einstaklinga, markmiðið var að vernda auðæfi Íslands sem hafði svo sem ekki mikla burði í það á annan hátt. Fá og léleg gæsluskip sem og lítil löggæsla í landi gerðu það að verkum að erfitt var að fylja þessum lögum eftir.
En Tore man samt eftir að Rudolf hafi að minnsta kost einu sinni fengið háa sekt fyrir ólöglega vinnu um borð.

Þar fyrir utan held ég að flestum Íslendingum hafi verið nokkuð sama lengi vel hverjir voru að veiða síld, sérstaklega á þeim tíma þar sem af nógu var að taka.

Tore liggur alsæll og sætur á íslensku gæruskinni sem var keypt í búð á Aðalgötunni á Sigló 1938.
Mjög vinsæl túristavara á þessum tíma.

 

En þrátt fyrir svona lög og aðra erfiðleika þá mynduðust vinabönd gegnum mannleg samskipti sem og viðskipti sem margir áttu sín á milli í áratugi, hvað annað…. og það skrýtna í þessu öllu er að greinarhöfundur sjálfur er fæddur inní þessa sögu í janúar 1962, því að fyrstu 5 ár minnar ævi bjó ég á Hverfisgötu 27. Þar voru mublur, gólfteppi og flottur rugguhestur sem bárust uppá Hverfisgötu gegnum áratuga vináttu milli afa Jóns og Þórðar í Hrímni og sænskra síldveiðisjómanna og systur pabba minnast þess einnig að sænskur skipstjóri sem líklega hét Stig gisti stundum heima hjá þeim.

Fékk að sofa í rúmi sem hreyfðist ekki, fara í bað og fá venjulegan góðan heimilislegan íslenskan mat.

Móðir mín minnist þess líka að hafa leigt út eitt herbergi á neðri hæðinni á Hverfisgötu 27 sumarið 1963. Leigjandinn var ungur piltur sem var sonur forstjóra Abba síldarverksmiðjunnar í Kungshamn og ég vill meina að hann hafi líklega heitið Pilh í eftirnafn. Pabbi hans rak hann til Siglufjarðar til að hann myndi læra allt um síldarvinnsluferlið og gæðaeftirlit. Mamma sagði að hann hafi verið frekar feiminn greyið… og „matvandur“ var mest lítið í herberginu og borðaði mest á hótel Hvanneyri  og umgekkst mest með sænskum gæðaeftirlitsmönnum sem voru þarna öll sumur.

Svíarnir sem og aðrir voru háðir hjálp og aðstoð í landi og þeir eru þekktir fyrir heiðarleika í viðskiptum og sína það alltaf í verki og orðum þegar þeim líkar við fólk.
Á þann veginn var það að þessi 2-3 listverk merkt HERBERT bárust til Edshultshall, greinarhöfundur hefur reyndar bara myndað tvö af þeim sem nú eru í eigu Tore og fjölskyldu og þessi verk eru þeim mjög svo kær eign og mikið augnayndi. Líklega er til eitt til viðbótar heima hjá erfingjum „farbror Frans“ en því miður var engin heima og hef ég því enga mynd af því verki.

Við endum svo þennan kafla á mynd af skemmtilegu rekaviðar alþýðulistaverki sem eru algeng hér á vesturströndinni í Svíþjóð. Þetta hékk á vegg í ganginum hjá Tore og hans yndislegu eiginkonu Ulla Gustafsson.

 

Í næstu köflum fáið þið að sjá þessi listverk og fullt af myndum frá Edhultshall og seinna líka myndir frá byggðarsafninu í nágrenninu með fullt af gömlum myndum frá Sigló.

Og já…… auðvitað byrjar 2 kafli með því að ræða aðeins um hin ótrúlega skemmtilega karakter, Herbert Sigfússon málarameistara og listamann með meiru, sem ég reyndar þekkti persónulega líka gegnum tíðar heimsóknir hans og konu hans til afa og ömmu í móðurætt. Hún elsku Gunndóra mín var líka ein af mínum mörgum „aukaömmum“. Þau hjónin komu oft heim til afa Péturs Balds og Mundínu ömmu þegar þau bjuggu á Vetrarbrautinni niðri á eyrinni heima í firðinum fagra.

Edshultshall. Um 80 km bílferð frá Gautaborg.

 

Aðrar sögulegar greinar og ljósmyndasyrpur eftir sama greinarhöfund er hægt að finna á siglo.is. og trolli.is.
Sjá lista hér undir:

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 2 HLUTI.

SÍLDARSAGA FRÁ 1943: SILFUR HAFSINS Í KLONEDYKE NORÐURSINS

SÍLDARSAGA: UMSKIPUNARTÚR VIÐ ÍSLAND 1946

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

SIGLFIRSK ÞAKKLÆTISKVEÐJA FRÁ ÚTLANDINU

FLUGSAMGÖNGU FRAMFARA SAGAN SEM HVARF ! “LANDIÐ ÞAR SEM ALLT ER Í HÁALOFT – INU”

DRAUMAR Í SÍLDARDÓSUM

SKANDINAVÍSK LANDLEGA Í MÁLI OG MYNDUM

Á LEIÐ TIL ÍSLANDS

100 ÁRA AFMÆLI! GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA, 7 HLUTI, SIGLFIRSKT ! 80 MYNDIR,GREINASERÍA

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI! 1 HLUTI

SÍLDIN GERIR LÍFIÐ EITTHVAÐ SVO SPENNANDI 2 HLUTI

FERÐASAGA: SIGLFIRSK SÍLDARSAGA Í SMÖGEN OG KUNGSHAMN. 25 MYNDIR

MINNINGAR UM SÍLDVEIÐAR VIÐ ÍSLAND 1946-48.

SAGAN UM SVANINN! SÍLDVEIÐAR, LANDLEGA OG SLAGSMÁL O.FL. Á SIGLÓ 1935

DE SEGLADE FRÅN TJÖRN…….TIL SIGLÓ. (50 MYNDIR)

PÅ VÄG MOT ISLAND…. Á HEIMASLÓÐUM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA! 

SIGLFIRÐINGAR, SÍLD OG SAKAMÁLASÖGUR Í FJÄLLBACKA

STÓRKOSTLEG KVIKMYND FRÁ 1954 FUNDIN

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / SÆNSK MYNDASYRPA FRÁ 1945

SIGLUFJORDUR ER NAFLI ALHEIMSINS OG SILLENS CLONDYKE (MYNDIR OG MYNDBAND)

KÆR KVEÐJA.

NONNI BJÖRGVINS

LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TRÖLLI.IS FINNUR ÞÚ HÉR.

Aðrar heimildir um síldveiðar Svía og Norðmanna við Ísland:

DRIVGARNSFISKET VID ISLAND PÅ 1900-TALET

BOHUSLÄN VAR LANDETS SILLCENTRUM

SILDEFISKET VED ISLAND (DEL 1) NORSK SÍÐA.

SILDEFISKET VED ISLAND (DEL 2)

ÞÝÐING, TEXTI OG LJÓSMYNDIR:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og frá Byggðarsafninu í Edshultshall o.fl.