Margar kynslóðir Siglfirska barna og unglinga muna örugglega eftir að hafa sveiflað sér í köðlum og klifrað upp á lýsistanka og verksmiðjuþök. Meðan síldin var og hét þá var þetta vinsæll leikur en eftir að síldin hvarf magnaðist þetta til muna. Því þá stóðu verksmiðjur, brakkar og bryggjur með stórum löndunarkrönum auðar og breyttust í skemmtileg og hættuleg leiksvæði fyrir okkur blessuð börnin.

Það kemur fyrir að mig dreymi martraðir í dag sem dauðlegur fullorðin maður um að detta niður af ónýtum þökum og tönkum ofan í allskyns stórhættulegt brotajárnsdrasl.

Síðan man ég einnig eftir skemmtilegum kaðlaleikjum á staur sem stóð i bakkanum við Hafnargötuna og svo var annar kaðall uppí fjalli á staur sem var notaður sem loftnet fyrir síldarflugsleitina á sínum tíma minnir mig.

Brotajárnsleiksvæði suðurbæjarbarna fyrir neðan Hafnargötubakka. Það rétt mótar fyrir þessum kaðlastaur efst í brekkunni lengst til hægri á myndinni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

En frægasta kaðla og klifursvæðið í mínum minningum er Rauðkuverksmiðjan og allt umhverfið þar um kring með hinum heimsfræga sjókaðal sem hékk þar í háum flottum krana.

Það er með eindæmum hvað hægt er að finna margar skemmtilegar ljósmyndir sem sýna þessa “leikvelli” okkar á Ljósmyndasafni Siglufjarðar. Á mörgum ljósmyndum sem ég fann má sjá að meistaraljósmyndarinn Steingrímur Kristinsson er ekki beinlínis lofthræddur og er duglegur við að klifra upp í háa strompa og fl.

Sjókaðlar

Rauðkuverksmiðjusvæðið. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá allt Rauðkusvæðið og þarna sjást kranarnir tveir, sjálf verksmiðjan, tankarnir, múrsteinsstrompurinn flotti og gamla Gránuhúsið stóra þar á bakvið.

Strákar á leik austanmegin við löndunarkranann á Rauðkubryggjunni. Kaðallinn hékk oftast vestanmegin á krananum minnir mig. Ljósmyndari óþekktur.
Bryggjugutti í flottri sveiflu. Þunnur ís á sjónum.Ljósmyndari óþekktur.
Þrír vinir í sveiflu á sama kaðli. Þetta hefur líklega endað með að allir komu blautir heim til mömmu. Ljósmyndari er óþekktur en líklega hefur Hallgrímur Hafliðason (Halli Nonni) tekið þessa mynd. Viðbótarupplýsingar frá Þorsteini Birgissyni 27 Desember 2020:
“Á myndinni með þremur á kaðli eru tvíburarnir Þorri og Steini Birgis og Toni Páls sonur Palla Gests skipstjóra. Við gátum ekkert annað gert í þessari stöðu annað en að láta okkur falla í sjóinn.”

Ég minnist þess að hafa tekið þátt í að plata aðkomustelpu með því að láta hana halda í neðstu hnútana á sjókaðlinum þegar það var háflóð, sem auðvitað endaði með því að hún festist í sjó upp að mitti og svo spurði hún grátandi: Og hvað á ég að gera núna?
Tja…  það er annaðhvort að klifra alla leið upp eða sleppa og synda í land… svöruðum við hlæjandi.

En það skal tekið fram að stelpurnar voru sko ekkert síðri en við strákarnir í köðlum og klifri.

Löndun við Rauðkubryggju og dýpkunarpramminn Björninn er þarna líka. Ljósmyndari Steingrímur Kristinsson.
Það voru líka til flottir kaðlakranar við Ríkisbryggjuna. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Töffari með sítt hár í svaka sveiflu við Ríkisbryggjuna. Forsíðumyndin sýnir annan strák á sama stað. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Kaðlar, klifur og ævintýri við Rauðku

En aðal kaðla og klifursvæðið var við Rauðku. Við krakkarnir vorum með heilmikinn eiginskapaðan ævintýraheim inni í sjálfri verksmiðjunni. Kaðlar og brotajárn út um allt og þar fórum við í eltinga og Tarzanleiki, þar sem við sveifluðum okkur t.d. úr gluggaopunum og yfir á stóran mjölþurrkara og í leikpásum sátum við við varðeld ofaná múrsteinshlöðnum brennsluofni og reyktum stolnar sígarettur og grilluðum pylsur.

 Það gat verið mjög svo hættulegt að klifra uppá fúið þakið til að setja upp nýja kaðla og fór ég einu sinni meira en hálfur í gegnum þakið og þið skuluð vita að það var aldrei skortur á kaðlaefni. Það voru til fleiri kílómetrar af þessum hampakaðlaefni, þykkt eða grannt, út um allt í yfirgefnum síldarplansbrökkum.

Þakið á restinni af Rauðku var ekki í góðu ásigkomulagi eins og sést á þessari mynd. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Minn uppáhaldskaðal var nú reyndar á sjálfum rauða stóra lýsistanknum. Þar klifraði maður upp á skúr og fór svo í stóra sveiflu með því að spyrna sér vel frá tanknum. Þeir köldustu byrjuðu í sjálfum stálstiganum.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Það er háfjara og þá getur maður haldið í neðstu hnútana á sjókaðlinum og farið í lengri sveiflu en hægt var á flóðinu.
Rauði og svarti tankurinn í bakgrunninum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Þessi tankur var síðan dreginn í sjóinn og sökkt suður við Leirutanga. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Rauðkutankurinn stóð síðan þarna suður frá í áratugi. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Það er vert að staldra aðeins við og kíkja vel á þessa ljósmynd hér fyrir ofan. Þarna sést eitt aðal leiksvæði okkar suðurbæjarbryggjugutta. Aðalbækistöðin var „Langi Grái“ og „Beinið“ þar sunnan við sem var skemmtilegt klifur og kaðlaleikjasvæði líka.
Á myndinni er búið að rífa „Svarta skúrinn“ sem var líka skemmtilegur leik-brakki en takið líka eftir hinu stóra horfna fjárhúsahverfi uppi í fjalli.

Rauðkusvæðið séð úr austurátt. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Síðan var það mikið sport að stökkva á milli minni svarta tanksins og yfir á þakið á Gránuhúsinu. En þá var maður hættur að vera hræddur við Gránudrauginn sem hékk hengdur þar inni uppá þriðju hæð. Meira um hann og myndir af honum hér: HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 2. HLUTI

Gránuhúsið stóra og svarti tankurinn til vinstri. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Milli Gránu og lýsistanka. Hmm… já þetta var bæði hátt og hættulegt. Ljósmyndari Steingrímur Kristinsson.
Gömul ljósmynd sem sýnir Gránusvæðið í denn. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Strompar og fleira skemmtilegt

Það þótti mikið manndómspróf að þora að klifra upp gamlan stiga að innanverðu í Gránustrompnum flotta og standa síðan stoltur uppá kantinum.

Þetta var einstaklega glæsilegur og vel hlaðin múrsteinsstormur og mikil eftirsjá í að hann var látinn hverfa.

Búið að rífa Gránuhúsið og komið að strompinum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Rauðkutakið rauða og flottasti strompurinn í bænum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
SR svæðið allt var líka mikill klifur ævintýraheimur, allt fullt af tönkum, rörum og háum þökum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Ein af mínum klifurmartröðum snýst t.d. um að hafa ástamt góðum glæfralegum vini verið að klifra uppi á þessum rörum sem blésu mjölinu úr SR bræðslunni og yfir í Mjölhúsið.

Mjölhúsþakið og tankarnir þar fyrir ofan var spennandi klifur svæði fyrir kalda stráka. Ljósmyndari Steingrímur Kristinsson.
Margir muna eflaust eftir að hafa stokkið niður frá þessum tanka eða Mjölhúsþakinu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Ég minnist þess að það var nú eins gott að stökkva á réttum stað, því undir snjónum var há og hvöss bárujárnsgirðing og fullt af brotajárni líka. Gott var að hafa með sér aðra leikfélaga sem sáu um að grafa mann lausan eftir lendingu, því maður fór gjörsamlega á kaf og festist í mjúkum snjónum.

Jakahlaup og klifur

Jakahlaup! Gaman að klifra á milli ísjaka. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Krakkar að klifra í strönduðum ísjökum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Bryggjuguttar!

Að lokum koma hér nokkra skemmtilegar myndir af „Bryggjuguttum.“
Við leikfélagarnir vorum oft kallaðir þetta, því við vorum stanslaust að þvælast niður á bryggju og hvergi á landinu voru til eins margir kílómetrar af bryggjum eins og á Sigló í denn. Eða svo fórum víð í ævintýraleiðangra UNDIR bryggjurnar.

En oftast vorum við bara að veiða fisk eða leika okkur á sjóköðlum. Besti veiðistaðurinn var Ríkisbryggjan og síðan fór maður oft með aflann og seldi í bræðsluverksmiðjunni PAUL og svo fórum við upp í bæ og keyptum okkur Thóraís í Nýja Bíó fyrir gróðann.

Bryggjuguttar að “pilka” á Ríkisbryggjunni. Ljósmyndari: Hallgrímur Hafliðason. (Halli Nonni)
Ljósmyndari: Hallgrímur Hafliðason. (Halli Nonni)
Bryggjuguttar með fugl sem eflaust hefur flækst í veiðafærunum hjá þeim. Líklega hefur “Halli Nonni” tekið þessa skemmtilegu mynd líka.
Guðjón Björnsson, Valbjörn Steingrímsson og ? Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Bryggjugutti með loftskammbyssu. Ljósmyndari óþekktur. En líklega hefur “Halli Nonni” tekið þessa mynd líka.

Greinarhöfundur átti einmitt svona skammbyssu sjálfur, foreldrum mínum og öðrum til mikillar armmæðu.
Say no more….

Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Steingrímur Kristinsson.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

HJÄLP! SÍLDIN RÆÐST Á OKKUR.

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

ÁLFHÓLLINN OKKAR OG ÁLF- HYRNAN HANS!

AFGLAPASKARÐ

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

PISTILL: SIGLFIRSKAR SÖGUR, LJÓSMYNDIR OG AÐRAR (Ó)MERKILEGAR FRÉTTIR!

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.