Nú er tími Þorrablóta og Harbour House Café á Siglufirði heldur upp á hann með miklum myndabrag.

Sigmar Bech veitingamaður á Harbour House býður gestum sínum upp á veglegan þorrabakka þar sem í boði er súr hvalur, súr lifrapylsa, súr lundabaggi, súr sviðasulta og súrir hrútspungar, svið, hangikjöt, salkjöt, sviðasulta, blóðmör, lifrapylsa og magáll. Svo er auðvitað hákarl, harðfiskur, síld, flatbrauð, heimabakað rúgbrauð, rófustappa og uppstúf með kartöflum.

Tekið er á móti hópum hópum alla daga vikunnar, það verður að panta sérstaklega. Almennur opnunartími er fimmtud. – sunnudaga. Eldhúsið er opið frá kl. 18:00 – 20:00 og barinn lengur.

Hægt er að panta þorramat og taka með heim. Pöntunarsími:  📞 854-1236

 

Harbour House Café, veitingastaður við höfnina á Siglufirði

 

“Þorri er nefndur í heimildum frá miðöldum sem persónugervingur eða vættur vetrar og þar er einnig minnst á þorrablót. Ekki er vitað hvernig þeim var háttað en lýsingarnar benda þó til mikilla veisla og að menn hafa gert vel við sig í mat og drykk. Engar frásagnir eru í Íslendingasögum eða öðrum fornsögnum sem gerast á Íslandi. En orðið Þorrablót kemur fyrir í forneskjulegum þætti sem bæði er að finna í Orkneyinga sögu og á tveim stöðum í Flateyjarbók þar sem hann heitir Hversu Noregr byggðist og Fundinn Noregur.

Í Fornaldarsögum Norðurlanda, nánar tiltekið Hversu Noregr byggðist segir svo Frá Fornjóti og hans ættmennum:
Fornjótr hét maðr. Hann átti þrjá sonu; var einn Hlér, annarr Logi, þriði Kári. Hann réð fyrir vindum, en Logi fyrir eldi, Hlér fyrir sjó. Kári var faðir Jökuls, föður Snæs konungs, en börn Snæs konungs váru þau Þorri, Fönn, Drífa ok Mjöll. Þorri var konungr ágætr. Hann réð fyrir Gotlandi, Kænlandi ok Finnlandi. Hann blótuðu Kænir til þess, at snjóva gerði ok væri skíðfæri gott. Þat er ár þeira. Þat blót skyldi vera at miðjum vetri, ok var þaðan af kallaðr Þorra mánaðr.

Af þessari frásögn má ráða að nafn Þorra tengist miðjum vetri og þá skildi haldið blót. Einnig kemur fram nafn næsta mánaðar, Góu, dóttur Þorra (í mörgum frásögnum Gói).

 

Veglegur þorrabakki að hætti Harbour House Café

 

Þorri konungr átti þrjú börn. Synir hans hétu Nórr ok Górr, en Gói dóttir. Gói hvarf á brott, ok gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanr at blóta, ok kölluðu þeir síðan þann mánað, er þá hófst, Gói. Þeir Nórr ok Górr leituðu systur sinnar. Nórr átti bardaga stóra fyrir vestan Kjölu, ok fellu fyrir honum þeir konungar, er svá heita: Véi ok Vei, Hundingr ok Hemingr, ok lagði Nórr þat land undir sik allt til sjóvar. Þeir bræðr fundust í þeim firði, er nú er kallaðr Nórafjörðr. Nórr fór þaðan upp á Kjölu ok kom þar, sem heita Úlfamóar, þaðan fór hann um Eystri-Dali ok síðan í Vermaland ok með vatni því, er Vænir heitir, ok svá til sjóvar. Þetta land allt lagði Nórr undir sik, allt fyrir vestan þessi takmörk. Þetta land er nú kallaðr Noregr.

 

Sviðahaus, hangikjöt, saltkjöt og rófustappa

 

Þorrablót í dag:
Elsta þorrablót sem heimildir eru um er þorrablót Kvöldfélagsins í Reykjavík 1867. Í bókinni Íslenskar gátur, skemmtanir, víkivakar og þulur sem Hið íslenska bókmenntafélag sendi frá sér á árunum 1889 til 1903 skrifar Ólafur Davíðsson:

Þorrablótin eiga upptök sín að rekja til íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, eða að minnsta kosti héldu þeir þorrablót 1873. Ég hef heyrt sagt, að doktor Björn Ólsen hafi gengist mest fyrir því og eftir hann er veislukvæðið, Full Þórs. 1880 mun Fornleifafélagið í Reykjavík hafa haldið þorrablót, þótt ég hafi ekki rekið mig á skýrslur um það í blöðunum.

Aftur hélt það stóreflis þorrablót 21. janúar 1881. Veislusalurinn var búinn fornum voðum, skjaldarmerkjum og öndvegissúlum. Langeldar brunnu á gólfinu. Samsætið byrjaði með griðasetningu að fornum sið og var ekki mælt meira undir samsætinu. Við samdrykkjuna á eftir var guðanna minnst, Óðins alföður, Þórs, Freys og Njarðar til ársældar, Braga og Freyju o.s.frv. Ekki hef ég rekið mig á skýrslur um önnur þorrablót í blöðunum, en það er vonandi að þau leggist ekki niður. Það má ekki minna vera en gömlu guðanna sé minnst einstöku sinnum í þakklætisskyni fyrir fornöldina.

Í upphafi voru þessar veislur gagnrýndar fyrir að vísa með áberandi hætti í norræna trú með því að drekka minni hinna norrænu guða, signa full og annað slíkt. Á Íslandi var ekki trúfrelsi fyrr en með stjórnarskránni 1874. Um miðja 20. öld var farið að halda þorrablót á veitingastaðnum Naustinu í Reykjavík, þar sem fram var borinn „hefðbundinn“ íslenskur matur, súr, reyktur og/eða saltaður. Síðan hefur tíðkast að halda þorrablót einhvern tímann á þorra, oftast á vegum félaga og ýmissa samtaka og er þorramatur mikilvægur hluti af hátíðinni.”

 

Vel út látinn þorramatur hjá Sigmari Bech

 

Heimild: Wikipedia