Það er ávallt nóg um að vera í Hrísey og gerir Ásrún Ýr Gestsdóttir því góð skil með vikulegum pistlum á Hrísey.is.
Gaf hún Trölla.is góðfúslegt leyfi til þess að birta fréttir frá Hrísey
.

Föstudagurinn 15.mars er runninn upp. Það sem tíminn flýgur hratt!

Vikan hefur gengið stórslysalaust fyrir sig í Hrísey. Síðasta sunnudag var mikið fjör í Íþróttamiðstöðinni þegar séra Erla var með Kirkjukúnstir og fjölskyldustund. Var vel mætt og höfðu öll gaman að, ungir sem eldri. Það er alltaf svo skemmtilegt að brjóta upp hversdagsleikann, hittast og gleðjast. Krakkarnir í Hríseyjarskóla fengu svo meira fjör þegar þau skelltu sér í skíðaferð inn á Akureyri og renndu sér í brekkum Hlíðarfjalls með stæl. Öll komu þau heil heim eftir góða skemmtun og létu þau vel af deginum. 

Aðalfundur björgunarsveitar Hríseyjar var haldinn á fimmtudagskvöldinu. Sjálfboðaliðarnir sem þar starfa geta fagnað góðu ári þar sem öll tæki og vélar eru í standi, mannauðurinn góður og sveitin á góðum stað. Kosið var í stjórn en þar sem mikil ánægja hefur verið með stjórnina sem var síðasta árið, var hún endurkjörin fyrir næsta starfsár. Stjórn og varamenn eru þá Narfi Freyr Narfason, formaður, Gestur Leó Gíslason,Guðmundur Stefánsson, Linda María Ásgeirsdóttir og Óðinn Þór Baldursson. Við þökkum þeim kærlega fyrir að bjóða sig fram til áframhaldandi góðra verka.

Hrísey var í fjölmiðlu í vikunni eftir að fréttir bárust af dauðum hnúfubak í fjörunni suðaustan við gömlu haugana. Mörg tóku krók á göngu sinni til þess að líta á hræið, enda ekki á hverjum degi sem við höfum tækifæri á að skoða hnúfubak svo nálægt. Augljóst er að hann hefur legið í töluverðan tíma án þess að eyjaskeggjar vissu um hann. Þegar myndir af honum birtust á miðlum Hríseyjar fóru fréttamenn að hafa samband og voru forvitnir. Ásrún svaraði blaðamanni hjá visir.is og var svo í litlu viðtali við Síðdegisútvarpið á Rás2. Eftir að Ásrún hafði látið fáfræði sína í ljós hvað gera skuli þegar hval rekur á land, bárust fjölda ábendingar og leiðbeiningar um hvaða vinnubrögð skuli halda. Er þeim haldið til haga á bæjarskrifstofunni í Hlein og hefur tilkynning um dauðan hnúfubak í Hrísey farið réttar leiðir. Að öllum líkindum mun náttúran fá að hafa sinn gang á og fær hvalurinn að hvíla í friði við strendur Hríseyjar þar til hann hverfur allur í sæ og sand. 

Hnúfubakshræ í Hrísey. Myndina tók Stefán Pétur Bragason

Leitað hefur verið til Áfram Hrísey um að fá leigt húsnæði og þá helst í langtíma leigu. Við biðjum því hver þau sem áhuga hafa á að leigja út íbúðir eða hús í Hrísey um að hafa samband á afram@hrisey.is eða heyra í Ásrúnu í síma 866-7786.

Fjarvinnu- og fjarnámsaðstaðan í Hlein hefur fengið sína eigin undirsíðu hérna á hrisey.is þar sem nálgast má allar upplýsingar um aðstöðuna, verð og hvernig best er að hafa samband til þess að bóka pláss. Er nú þegar orðið þétt setið fyrir dymbilviku og páska. Það er frábært að hafa þessa aðstöðu og vinnan sem farið hefur í hana hingað til og verður áfram, er að skila sér margfalt til baka í samfélagið okkar. 

Um helgina verða pizzur á sínum stað í Hríseyjarbúðinni á föstudagskvöldi og vertarnir á Verbúðinni 66 eru komin heim og taka glöð á móti gestum á laugardagskvöldinu. Eftir að hafa strítt okkur í vikunni er heiti potturinn kominn í lag í Íþróttamiðstöðinni svo það er um að gera að skella sér í hann eftir hvalaskoðunargöngutúr.

Við eigum von á rauðum hita tölum á laugardaginn, allt að 4 gráður í plús og vindur um 5m/s. Sunnudagur verður kaldari þegar hitinn daðrar við frostmarkið og lognið flýtir sér ögn meira. Við bíðum aðeins með að pakka dúnúlpunum, kraftgöllunum og prjónavettlingunum. Vorið er á næsta leyti en ekki alveg komið enn.

Forsíðumynd/Stjórn Björgunarsveitar Hríseyjar.
Guðmundur, Narfi Freyr, Gestur Leó, Óðinn Þór og Linda María.