… Eins og ég?
Að upplifa það að tapa áttum og vita ekki hvar ég er… er mér og líklega mörgum öðrum ótrúlega erfið og óþægileg tilfinning og mér líður oft illa ef ég sé ekki fjöll eða haf.
Fjöll sem ég þekki og get tekið mið af og áttað mig á hvar ég er staddur. Því ef maður veit ekki hvar maður er, þá veit maður ekki heldur hvert maður á að fara.
BARA EIN ÁTT
Að vera fæddur í þröngum einangruðum firði sem í rauninni hefur bara eina átt…
… HÁ NORÐUR..
… og að vera uppalinn með að vera alltaf umkringdur háum fjöllum, er eitthvað sem situr í mér enn í dag.
Oft þegar ég verð áttavilltu á ferðalögum, þá verð ég alltaf að spyrja:
Hvar er NORÐUR?
Þegar ég veit það, þá líður mér strax betur, því þá næ ég aftur áttum og í huga mér vaknar innbyggður og meðfæddur Siglfirskur áttaviti sem hjálpar mér að vita hvað er upp og niður, út og suður í heiminum.
Þarna heima á milli Siglófjallanna fögru líður mér vel og mér finnst eins og að þessi fjöll faðmi mig.
Ég er í tryggum faðmi móður náttúru sem ég þekki frá blautu barnsbeini.
Öðrum sem koma til Siglufjarðar líður eins og að þessi fjöll séu við það að detta ofan á þá og vilja helst forða sér sem fyrst frá ímynduðum ósýnilegum háska sem liggur í loftinu alla daga.
ÁTTARHAGARORÐ!
Á Siglufirði eru líka til mörg sérstök orð um áttir og staðsetningu. Eins og t.d:
- Skreppa yfrum fjörð…
- Fyrir handan fjörð…
- Suðrá firði…eða frameftir og jafnvel framá fjörð segja sumir.
- Uppá Brekku…
- Niðrá Eyri…
- Útí Bakka…
- Útá Nes…
- Út í Ólafsfjörð…
- Inní Hólsdal…
- Uppí Skarð…
- Uppá Hofsós..
- Inná Ketilás…
Og svo - Úteftir…
- Inneftir...
- Uppeftir…
- Niðreftir…
og ýmis önnur Á og Í staðsetningar orð í viðbót.
Það getur vel verið að þetta með að vera oft áttavilltur sé ættgengt, eða svo er þetta einkennilegt meðfætt “sér-Siglfirskt” fyrirbæri, því amma Nunna (Unnur Möller) sagði t.d. alltaf…
“Ég þarf að skeppa NORÐUR á Akureyri… ” Hún sagði aldrei INNÁ Akureyri.
Þó svo að hún vissi mikið vel að hún bjó í firði norðan við Akureyri en mér skilst reyndar að margir innfæddir eldri Siglfirðingar segi þetta enn í dag.
Að sjá ekki fjöll eða HAF
Þetta með að sjá fjöll og haf er mér mikilvægt og mér var sagt í barnæsku að mávar geti ekki flogið, ef þeir sjá ekki sjó og þegar ég var 12 ára gamall á skakinu á litlu Freyju SI 33 trillunni hans afa Péturs Bald, þá kippti ég einu sinni um borð tveimur stykkjum og henti þeim ofan í opna lestina á trillunni. Mikið rétt, þeir gátu ekki flogið, urðu bara sjóveikir og ældu hver yfir annan með tilheyrandi lýsislykt og afi skipaði mér að hjálpa þessum illalyktandi bjargar- og fluglausu útældu fuglum aftur út í víddir hafs og himins.
Eina siglingahjálpartækið sem var til um borð í Freyjunni var áttaviti og afi var einstaklega duglegur við að kenna mér að taka mið af fjöllum og öðru og fræða mig um nöfnin á því sem við sáum í landi og oftast fylgdi með saga um hina og þessa staði. Þegar það kom þoka og við misstum landsýn, þá sigldi hann bara heim á klukkunni og kompásnum og við fengu alltaf aftur landsýn á réttum stað, heima við þröngan Siglufjarðarkjaftinn.
HRÍSEY
Mínar fyrstu minningar af þessari óþægilegu „ég er áttavilltur“ tilfinningu koma úr heimsókn út í Hrísey þegar ég var 7-8 ára. Ferðalagið var fallegt, en því fylgdi hræðileg sjóveiki í langri bátsferð með Drang.
Flóabáturinn Drangur fór með mig frá Sigló og út í Grímsey og gott ef ekki þar á eftir til Ólafsfjarðar, Dalvíkur og síðan loksins til Hríseyjar.
Það sem ég man úr þessari vikulöngu dvöl á þessari fallegu eyju var að mér fannst að sjálft Hríseyjarþorpið væri á vitlausum stað á eyjunni og þetta með að sjá ekki til norðurs var alveg ótrúlega óþægileg tilfinning.
Að öðru leyti fannst mér ég næstum vera heima á Sigló hjá ömmu Nunnu, því við gistum heima hjá tvíburasystur ömmu, henni Alvildu Friðrikku Maríu Möller og þær voru svo líkar og svo var ég sjálfur svo líkur Almari yngsta syni hennar sem var bara tveimur árum eldri en ég.
Eftir nokkra yndislega daga til viðbóta inní Eyjafirði hjá barnabörnum afa Péturs á Dalvík kom ég loksins aftur heim á Sigló með sama bát og í þetta skiptið var bara komið við á Ólafsfirði, Guði sé lof… minnir mig.
Mér fannst ég nú vera orðin veraldarvanur maður og vissi fyrst núna að það voru víst til fjórar áttir í heiminum.
GRINDAVÍK
Aðrir staðir í barnæsku þar sem ég hef fundið fyrir ákafri áttavilluvanlíðan koma úr minningarmyndum frá t.d. heimsóknum til Söllu frænku í Grindavík. Þarna er allt galopið og bara eitt sjáanlegt alvöru fjall. Þorbjörninn er svo sem flott gamalt eldfjall en hann einn og sér veitir ekkert skjól fyrir verðri og vindi sem kemur úr öllum áttum og gott ef það rignir ekki neðanfrá þarna líka.
Það er aldrei logn þarna heldur og ég leyfi mér að efast um að orðið LOGN sé til í sunnlensku tungumáli.
Hmm…
Allur þessi Reykjanesskagi er galopið vindrassgat og ég skil ekki af hverju fólk vill búa þarna… (já ég veit, þetta er Landsbyggðafordóma grín) …en ég skildi eftir þessa Grindavíkur heimsókn af hverju maður talar um að það sé:
„FISKUR UNDIR STEINI“ (1) í Grindavík.
Já einmitt!
Ef fiskarnir væru ekki undir steinum myndi allt og ekkert…
… og líklega hugsanir þínar líka, hreinlega fjúka út á ballarhaf.
Salla frænka og fjölskylda komu oft í heimsókn til okkar í fjallafjörðinn fagra og eitt sumarið hafði hún með sér sléttlendisvinkonu frá Grindavík, en þau urðu síðan að drífa sig strax úr bænum, því vinkonunni leið svo illa og henni fannst hún vera svo innilokuð og leið eins og að fjöllin vildu ráðast á sig eða vera hreinlega alveg við það detta yfir hana.
Mér sjálfum er títt hugsað til elsku Söllu frænku og fjölskyldu þessa dagana sem þurfa að lifa með alla þessa jarðskjálfta og hræðslu við yfirvofandi eldgos.
AÐ HEFNA SÍN Á FJÖLLUNUM!
En svo er líka hægt að snúna þessari fjallaárásar tilfinningu við, eins og unga aðkomulistafólkið sem tók þá í Reitaverkefninu í Alþýðuhúsinu gerðu sumarið 2015.
“… SVO GERÐU ÞAU LÍKA TÖLVULEIK UM HEFND SIGLUFJARÐAR Á FJÖLLUNUM SEM SENDA SNJÓFLÓÐ Á BÆINN….”
Sjá meira hér á Sigló.is:
Þau komu, sáust, heyrðust og sigruðu hjörtu Siglfirðinga
sksiglo.is | Reitir | 07.07.2015 | 21:00 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 2253.
AKRANES
Áttarvilluveikin mín var aðeins skárri í heimsóknum hjá Brynju frænku á Akranesi, þar eru fleiri sjáanleg fjöll en þau eru í óþægilegri fjarlægð frá manni. Akrafjallið er reyndar nokkuð fallegt fjall, en sama þar aftur, það veitir ekkert skjól eða þessa „fjöllin faðma og vernda mig Siglufjarðartilfinningu.“
INN Í LANDI OG LANGT FRÁ SJÓ
Sautján vetra gamall fór ég í fyrsta skiptið á ævinni í langtíma utanfjarðar skólaheimavist á Laugarvatn og ég get vart í orðum lýst hvað mér leið illa þarna inn í miðju landi þar sem ekki sást til sjávar.
Ég varð eins og mávarnir í lestinni í trillunni hjá afa.
Vængbrotinn sjávarsjónarlaus maður og alveg ferlega áttavilltur.
Hér var allt galopið í allar áttir og mér leið hreinlega illa, lengi vel… fannst ég vera eitthvað svo fjallamunaðarlaus, einn og yfirgefinn og agalega langt í burtu frá mömmu minni. En það var gaman þarna og ég kynntist mörgum öðrum dreifbýlisbörnum sem söguð mér sögur úr sínum fjörðum, víkum og eyjum.
Ég tók fyrst eftir því þarna upp á Laugarvatni, af öllum stöðum. Hvað t.d. Dalvíkinga bekkjarfélagar mínir tala hrikalega fallega og harða norðlensku.
Mummi herbergisfélagi minn var að vestan og hann var alveg jafn áttavilltur og ég. Það var hann sem kenndi mér að skilja hvað vestfirska orðið SVARTALOGN þýðir.
En það útskýri ég vel í pistlinum: SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI
MAÐUR SÉR OFT EKKI SKÓGINN FYRIR TRJÁM…
… Segja sænskir vinir mínir í gríni þegar ég segi þeim hvað ég varð hræddur þegar ég týndist í fleiri klukkutíma í „innanbæjarskóginum“ hér í Gautaborg fyrstu vikuna eftir að ég flutti hingað haustið 1990.
Sjálfur svara ég þessum húmor með Íslenskum túristabrandara:
Veistu hvað þú átt að gera ef þú ert villtur í íslenskum skógi?
Rétt svar:
Maður stendur einfaldlega upp, kíkir í kringum sig og labbar síðan heim.
GAUTABORG HEFUR LÍKA BARA EINA ÁTT
Stokkhólmarar segja í sínum borgarrígsbrag að það sé fiskifýla af öllum sem búa í Gautaborg.
Já, segi ég bara og mér sem Siglfirskum Íslendingi líður mjög vel hér, finnst ég passa inn, því það er líka síldarfiskifýla af mér og mér líður í rauninni eins og ég sé heima á Sigló, sem er líka gömul fræg Síldarhafnarhöfuðborg.
Gautaborgarar hafa líka einstaklega gaman af orðaleikja bröndurum og viðurnöfnum eins og við Siglfirðingar og „Göteborgs mállýskan“ með sínum einstaka málhreim, sem hljómar eins og að fólkið sem býr hér sé alltaf glatt og í góðu skapi er alveg einstaklega skemmtilegt eigið tungumál. Dæmi: „E du go eller?“
Hér í Gautaborg er ég aldrei áttavilltur, því ég hef Götaälvs ánna stóru sem viðmið, en hún klífur borgina í tvennt og rennur út í haf beint í vesturátt og ef manni leiðist þá getur maður skroppið í dagstúr yfir hafið til Fredrikshamn í Danmörku.
FLATLENDISFÓLK OG FJALLAHRÆÐSLA
Talandi um fjallalaust flatlendi eins og t.d. Danmörku, þá verð ég að að fá að segja ykkur stutta sögu sem Siglfirðingurinn Sólveig Jónsdóttir, fósturmóðir mín sagði mér hér um daginn um einmitt hræðslu og innilokunarkennd sem fjarðarfjöllin okkar fögru geta vakið í þeim sem eru ekki fæddir og uppaldir í svona umhverfi.
Hún var í sinni æsku að vinna sem beinastúlka á Hótel Hvanneyri heima á Sigló, nokkur sumur og einu sinni kom danski forsætisráðherrann og hans fríða föruneyti í heimsókn.
Einn Daninn kynnti sig sem sálfræðing og Sólveigu fannst það merkilegt að til væru svoleiðis fræðingar… en alla veganna… þá spyr sálfræðingurinn hina ungu Sólveigu hvort henni finnist það ekki erfitt að búa í svona þröngum firði.
Verður ekki stundum hrædd, umkringd svona ógnvekjandi og háum fjöllum?
Sólveig varð auðvitað hissa á þessari einkennilegu sálfræði spurningu en svarar hiklaust.
“Nei, aldrei. Mér líður bara vel hér og mér finnst að fjöllin haldi utan um mig, verndi mig og vilji mér vel….“
Hún heyrir seinna að danski flatlendis sálfræðingurinn talar mikið um þetta svar Sólveigar við aðra virðulega ferðafélaga sína og að hann segir líka frá sin eigin vanlíðan og hræðslu við þessi fjöll, sem vissulega eru falleg en honum líður alls ekki vel hér.
Ég get alveg skilið þessa fjallaóþæginda tilfinninguna hjá Dananum. Því ef þú elst upp í fjallalausu flötu landi, þá verður það afstætt hvað er hátt og hvað er lágt. Ég hef keyrt bíl upp á „Himmelbjergs fjallið“ sem er frægur 147 metra hár hóll í Danmörku og það tók mig bara tvær mínútur.
SKÓGUR, HAF OG HÖFN Í VÄRMLANDINU GÓÐA…
Það var mér mikið happ að kynnast Siglfirsk ættuðu dætrum Sólveigar Jónsdóttur og Jósefs Sigurgeirssonar sama haust og ég flutti hingað út til Svíþjóðar.
Sólveig og Jósef sáu hvað ég var fjalla og fjarðarmunaðarlaus og áttavilltur í þessu Sænska fallega skógarlandi. Þau skildu mig svo vel sem brottfluttir Siglfirðingar og hreinlega ættleiddu mig. Ég hef alla tíð síðan, keyrt mörgum sinnum á ári, í fleiri klukkutíma til þess að heimsækja þau í Kristinehamn sem er staðsett í hinni skógarþéttu Värmlands sýslu.
Þetta er eini staðurinn í heiminum þar sem mér líður vel, þrátt fyrir að ég nái engum áttum þarna en það er reyndar höfn þarna inn í miðju landi, því Vänern stöðuvatnið risastóra er miklu meira innhaf en stöðuvatn.
ALVÖRU FJÖLL OG ALPADALIR
Mér leið líka vel þegar ég áttavilltur fór í Alpaheimsókn til Báru dóttur Sólveigar og Jósefs. En þar eiga Solveig og Jósef tvö ítölsk/sænsk/íslensk barnabörn.
Bára og hennar fjölskylda búa í 1.300 metra hæð inní þröngum fjalladal í Sviss og þegar maður horfði á útsýnið af svölunum þá var um einn kílómetri til viðbótar eftir upp á fjallstoppana.
En djúpir Alpadalir hafa greinilega sömu róandi áhrif á mig eins og þröngir Íslenskir fjallafirðir.
TRÖLLASKAGAFJÖLL OG NÆSTUM HEIMA…
Mér hefur alltaf einhvern veginn fundist að ég sé alveg að koma heim þegar Tröllaskaga fjöllin birtast mér á blindhæðinni í Fljótunum, en svo er það mér ætíð stórkostlegur léttir að koma út úr Strákagöngunum og finna að nú er ég í tryggum og góðum faðmi fjalla sem ég þekki…
…. og þau þekkja mig.
ÁTTAVILLTUR OG STUNDUM EKKI
Heima á Sigló er ég aldrei ÁTTAVILLTUR, hvorki í sál eða líkama.
En svo geta auðvitað samt allir verið allmennt áttavilltir í lífinu. Hálf týndir í sjálfum sér stundum. Í stórborgarlegu umferðaröngþveiti hversdagsleikans og sinna eigin hugsana og þá getur þessi heimþráar tilfinning gripið mann með skrítnum spurningum eins og t.d:
Hvar á ég heima og í hvaða átt er HEIM?
Ég hélt lengi vel að ég væri eini brottflutti Siglfirðingurinn í heiminum sem væri svona áttavilltur en það er ekki rétt því ég hef fengið það staðfest frá mörgum öðrum og þegar ég bað Siglfirskan vin minn, Kidda Matt ( Kristján Matthíasarson) að lesa yfir þessar áttavilltu pælingar mínar með tilheyrandi spurningu um hvort hann kannaðist við sig í þessum texta.
Ó Já, hann þekkir þessa tilfinningu vel og hann sendi mér þessa skemmtilegu vísu sem svar:
Hjartað slær!
Hugur grætur!
Í söknuði syngur
SIGLUFJARÐAR
SÁLIN:
Hvar eru fjöllin?
Faðmurinn og æskan?
Týndir á sléttlendis
stórborgarmöl
og í lífsins áttarvillukvöl
spyrjum við..
Nonni!
Hvar erum VIÐ?
Í hvaða átt er
NORÐUR?
En þrátt fyrir að
minningastraumar
lífsvilltra vina
vafri í allar
ÁTTIR
Liggur hjarta okkar ALLRA
bundið við sömu fögru
Fjalla-fjarða-bryggju
Og í Nonna ÁTT-hagaorðum
opnast okkur
Siglufjarðar minninga
himnagáttir…
Takk Kiddi minn, fyrir þessi fallegu orð.
… og að lokum
bara svona að gamni…
Bestu Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra
Nonni Björgvins.
Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmynd:
Siglufjörður 21. desember 2018.
Ljósmyndari: Ingvar Erlingsson
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar og frá ættingjum.
Heimildir:
(1) Fiskur undir steini.
Kvikmyndavefurinn,
Þakklætiskveðjur fyrir yfirlestur og góðar ábendingar sendi ég:
Sólveigu Jónsdóttur.
Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:
TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA
GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA
MARGRÉT SI 4 OG FYLLERÍ ALDARINNAR SEM LEIÐ
RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI. 60 MYNDA-SYRPUSAGA
RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG Í FRAMTÍÐINNI… 2 HLUTI. MYNDA-SYRPUSAGA
SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR
UM SIGLFIRSK VIÐURNEFI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…
FÁEIN ORÐ UM ÞORMÓÐ EYJÓLFSSON
SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“
SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS
MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)
MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. SEINNI HLUTI (54 MYNDIR)