Fá bæjarfélög hafa útlitslega breyst jafn mikið og Siglufjörður. Það sem við sjáum með okkar fullorðnu augum í dag er eitthvað svo ótrúlega mikið öðruvísi…

… en samt fallegt.

FORMÁLI:

Þessi forsíðuljósmynd sem hann Steingrímur Kristinsson tók sumarið 1961 hefur ætíð verið mér kær.
Hún er nefnilega tekin á Hverfisgötunni þar sem ég fæddist 20 jan. ’62. Myndin sýnir það sem ég sá með mínum barnæskuaugum.

Það sem við sjáum er spennandi heimur sem er allur á iði. Þetta er heimur sem börnum langaði að skoða betur, en lengi vel mátti maður ekki “fara niður á bryggju”. Það eina sem barst til mín uppá Hverfisgötu 27 var það sem ég gat séð og heyrt úr fjarlægð. Síldarvinnu hávaða og sterka bræðslu og slóg lykt
Í logninu á kvöldin heyrði maður meira glaðlyndar raddir, harmonikkur síldarvalsa og söng og stundum óskalög sjómanna úr bátaútvörpum sem lágu við bryggju.

ATH. (Þegar Siglfirðingar segja “niðrá bryggju” þá meina þeir enga sérstaka bryggju í rauninni. Bara allar eða hverja sem er.)

Þessi merkilega ljósmynd frá (1937 – 39+/-) sem Steingrímur Kristinsson setti saman úr tveimur glerfilmum frá Kristfinni Guðjónssyni segir okkur mikla sögu. Þarna sjáum við að plássleysið á eyrinni og sandfyllt grunn syðri höfnin þvingar fram lausnir eins og langar bryggjur og jafnvel bryggjueyjur með húsum. (Annlegg)
Fyrir miðri mynd liggja sænskir reknetabátar í röð við sænsku
staurana svokölluðu. Við sjáum líka einhverskonar byrjun á Leirutanga lengst til hægri, uppfyllingar koma seinna á svæðinu kringum smábátahöfnina lengst til vinstri og það er jafnvel skorið úr Hafnargötubakkanum til að skapa pláss fyrir byggingar og vinnsluplön.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Í þessum myndasögu pistli minnumst við í myndum horfins tíma. Myndirnar eru sérstaklega valdar og allar endurunnar af pistla höfundi svo þið lesendur getið rýnt betur í bakgrunninn og kannski séð betur það sem myndasmiðurinn oft á tíðum ætlaði í rauninni EKKI að mynda, en myndin segir samt okkar nútímaaugum svo mikið í dag.

Í rauninni verður þetta ómeðvitað kafli númer 5 í þessari götusögu.

Furðulegar götur 1. Hluti

Það vantaði myndir af horfnum götuhúsum í þessa greinaseríu. Sýnileg, sorgleg sögusár, sem stinga okkur í hjartað þegar við minnumst horfna húsa á göngutúrum um bæinn… þá sérstaklega á eyrinni.

Fimmti hluti átti reyndar að fjalla um horfna stíga og gönguslóðir sem við notuðum daglega hér áður fyrr. Eins og t.d. Stutta Leiðin og Vennastígur o.fl.

ATH. Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla söguna í heild sinni. Ef þú, lesandi góður, villt skoða myndirnar betur með því að stækka þær er best að fara beint inn á vefinn trolli.is og finna greinina þar. Ef slóðin er opnuð í gegnum Facebook getur verið lokað á að skoða myndirnar í stærra formi.

VORBOÐINN LJÚFI Á SIGLUFIRÐI…

… kom ekki bara með fuglasöng, heldur líka með sterkri tjörulykt af óteljandi stórum trévirkis plönum og bryggjum.
Spenna og væntingar um ævintýri komandi síldarsumars lá í loftinu… og í lyktinni. Sagan segir að ef maður gekk á bryggjukantinum frá suður til norðurs að þá yrði það yfir 6 km göngutúr.
Engum hefur hins vegar tekist að reikna út samanlagðan fermetrafjölda bryggja og síldarplana.

Þetta sama ævintýralega útsýni frá Hverfisgötunni sýndi okkur líka seinna, hæga rotnun og grotnun á bryggjum, brökkum og bátum.

Síldin hætti að mæta í vinnuna og engin kom með tjöruna niðrá bryggju, önnur ömurleg lykt og vonleysi lá í loftinu lengi vel.
Æskuminninga sagan okkar molnaði sundur.

Sjá meira hér:

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)
sksiglo.is | Greinar | 21.04.2017 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1496 |

Barnæskuvinirnir Bóbi Þóris og Nonni Björgvins. (Björn Þórisson og greinarhöfundur.) Það hurfu ekki bara hús, heldur mikið af vinum og ættingjum sem fluttu úr bænum.
Vorljósmynd, tekin uppi á Hverfisgötu líklega 1968. Sama umhverfi í bakgrunninum og á forsíðumyndinni. Þórir og Nína, foreldrar Bóba bjuggu á Suðurgötu 30 með börn sem voru á sama aldri og við Björgvins börnin sem bjuggu á neðri hæðinni á Hverfisgötu 27. Við lékum okkur daglega á hallandi túninu á milli húsanna. Við fluttum síðan báðir lengra framá fjörð og fundum okkur ný leiktún. Ég og fjölskylda mín fluttum í nýbyggt hús við Hafnartún 6 og hann í annað nýbyggt hús við Suðurgötu 76.
Þau fengu á sig tvö snjóflóð og ég minnist þess að hafa séð mynd af okkur vinunum að moka snjó inní stofu heima hjá Bóba. Þau fluttu síðan til Vestmannaeyja og misstu síðan annað hús og heimili þar í gosinu 1973. Fluttu í Garðabæ þar á eftir það og eru þar enn. Ljósmyndari: Salbjörg Jónsdóttir.

Á þessum sorgatímabili hurfu mér og okkur öllum ekki bara vinir, heldur líka, hús og heill æskuheimur, en við getum ekki verið að rúlla okkur upp úr biturð og eftirsjá.

Já, víst við hefðum viljað geta bjargað meiru… en hver vildi eða átti svo sem að borga það???

Við höfum hins vegar efni á, að ókeypis, leyfa okkur að minnast, því þessi horfni heimur er varðveittur í ljósmyndaformi á Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

HORFIÐ OG EKKI HORFIÐ

Já. Margt og mikið er horfið og þegar við skoðum næstu þrjár myndir þá sjáum við ákveðinn þéttleika og húsalitadýrð sem ætíð hefur einkennt Siglufjörð. Ef þið rýnið í myndirnar, þá sjáið þið þetta horfna, en líka ýmislegt sem hefur bara breyst. Hús sem hafa fengið nýja klæðningakjóla og aðra liti og jafnvel ný hlutverk.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Í þessari myndasyrpusögu fáið þið mest að sjá yfirlitsmyndir (The Big picture) og nokkur einstök stór virðuleg hús sem pistlahöfundur saknar sárt, en líka myndir af skúrum, bryggjum og brökkum.

Sá sem hefur tekið flestar myndirnar í þessari sögu er Steingrímur Kristinsson og hann hefur áður tekið saman skemmtilega syrpu í fjórum hlutum sem sýna okkur 124 myndir af einstökum horfnum húsum.

ATH. Steingrímur safnaði saman þessum Siglfirsku mannvirkjamyndum og setti á netið fyrir meira en 20 árum. Ástæðan fyrir því að myndirnar eru svona smáar, var hár kostnaður Símans á hýsingu heimasíðunnar, en á þeim tíma var síminn okkar notaður til að komast á Internetið og ekki hægt að nota símann til símtala á meðan.

Sjá meira hér:

Horfin mannvirki 1 (30 myndir

Horfin mannvirki 2 (30 myndir)

Horfin mannvirki 3 (30 myndir)

Horfin mannvirki 4 (4 myndir).


En svo kemur þetta ótrúlega … að ég sem sit úti í Gautaborg sem er að dunda mér við að skrifa og taka saman ljósmyndir sem passa inn í minningasöguna, get enn og aftur lánað þessa sömu sjón og 👀 AUGUN sem skráðu mína/OKKAR minningarsögu.

Sæll Steingrímur, ég er í undirbúningsvinnu fyrir nýja myndasyrpu sögu sem á að heita: Horfin eru hús og heill æskuheimur.
Elsku vinur! Getur þú skroppið upp á Hverfisgötu og tekið mynd á nákvæmlega sama stað og þessi mynd af mínu æskuminninga útsýni ??

SVARIÐ kom eins og skot:

Ekkert mál vinur, ég get gert það, vona bara að það verði enn þá sól þegar ég kem frá Akureyri seinnipartinn, sólin er núna á austri eins og venjulega á þessum tíma, en ég er að fara til Akureyrar, núna eftir nokkrar mínútur. Spurningin er hvort hægt sá að taka frá sama stað, mig minnir að þar sé hús komið fyrir, en ég geri mitt besta.”

Hér undir sjáið þig ljósmynd, tekna á sama stað og forsíðumyndin, 59 árum seinna , með sömu skörpu, í dag 87 ára gömlum ljósmyndaaugum.

Siglufjörður 27 apríl 2021. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Dásamleg samansett mynd frá Steingrími Kristinssyni, sami staður og stund og forsíðulitmyndin. Sumarið 1961. Ég sé fjögur aukaömmuhús sem voru mér kær í barnæsku. Sjá meira hér: GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR
Forsíðumyndin aftur í fullri stærð. Siglufjörður sumarið 1961. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Sunna og smábátahöfnin. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Vert er að minna á að hægt er að skoða fleiri myndir af horfnum og tíndum húsum kringum Ráðhústorgið í þessari myndasyrpu sögu í tveimur hlutum.

RáðHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 hluti. 60 MYNDA-SYRPUSAGA
Hús á milli Lindargötu og Suðurgötu. Húsið Hólar með sínu sérkennilega bogadregnu þaklínum í bakgruninum. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.
Gamla Sjómannaheimilið og Pokahöllin fræga við Suðurgötu. Húsið Hólar í bakgrunninum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sjá meira hér:

“Hallargarðurinn” á Siglufirði
Sunnubrakkinn og smábátadokkin. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

EYRIN OKKAR…

… er sá bæjarhluti sem hefur breyst mest, örar og miklar breytingar áttu sér stað þar á síldarárunum, en af því ævintýri loknu, hvarf mikið af allskyns mannvirkjum sem er sárt saknað sem í dag er sýnilegt í sorglega tómum lóðum á eyrinni.

Eyrin 2021. Mynd frá Kortasjá Fjallabyggðar.
Á þessari mynd sem er tekin 1976 sést ennþá mikið af bryggjum og stórum síldarplönum, margt og mikið er samt þegar horfið. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

TJARNARGATA

Séð norður Tjarnargötuna. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Húsið Amsterdam stóð við Tjarnargötu 11 á Siglufirði. “Valgeir Sigurðsson sendi inn upplýsingar 15. desember 2008.
Amsterdam var aðsetur Verkstjórans hjá Óskari Halldórs. Húsið var flutt suður á Stokkseyri og stendur þar á sjávarkambinum undir sama nafni, og er til sóma. og eigandi þess er fyrrverandi bæjarstjóri á Siglufirði, Þórður Vigfússon.”
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Sóðasund! Söltunarstöð Henriksen. “Olaf Henriksen söltunarstöð og húsið Baldur við hliðina til hægri, einnig sést í íshús Ásgeirs Péturssonar (seinna Hrímnir HF) lengst til hægri. Sundið á milli húsanna var kallað Sóðasund. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Síldarsöltun! Takið eftir bogadregnu þaki Dr. Paul bræðslunnar. Ljósmyndari: Gísli Halldórsson.
Séð upp Aðalgötu frá Henriksens planinu. Ljósmyndari: Guðlaugur Henriksen.
Risa stórt söltunarplan beint fyrir neðan Aðalgötu Siglufjarðar. Úr safni Guðbrands Magnússonar. Ljósmyndari óþekktur. ATH. Húsið Staðarhóll sést fyrir handan fjörð.
Sama plan. Ljósmyndari: Guðlaugur Hinriksen.
Hrímnir Hf – Jarlsstöð – Óskarsstöð. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Sami staður og ofan séður sjávarmegin. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Tjarnargata og núverandi bensístöð. Slökkviliðsæfing, gamla Enco húsið brennt. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Þau hús og brakkar sem við ekki brenndum sjálf, tók snjóþungi og stormaflóð og.fl. eins og sjá má á þessari mynd. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Annað fúnaði sundur og lagðist sjálfviljugt á hliðina. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Beðið eftir Mogganum við Aðalbúðina. Takið eftir steypumótunum á þakinu, byrjun á hæðinni sem aldrei var byggð. Gamla Pósthúsið og fleiri horfin hús þar fyrir neðan. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Gamla Pósthúsið áramótin 1958. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.
Á horni Aðalgötu og Vetrarbrautar. Brunaskemmdir á húsi. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Bakhlið, sama götuhorn og ofan. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Bakgarður á eyrinni. Ljósmyndari óþekktur.

SÍLD ER EKKI FISKUR OG FL…

Síld er EKKI fiskur! Ljósmyndari óþekktur.
Það er hægt að flytja heil hús á sleða ef maður vill! Þetta hús stóð við Túngötu og gekk undir nafninu “Brandarhúsið” Þarna er verið að flytja það til Norðurgötu og þar var því breytt í Áhaldahús bæjarins.Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Norðurhluti Grundargötu (Gamla Bæjarskemman og.fl. við Norðurgötuna. Geymslur og fjárhús í bakgörðum. Ljósmynd tekin úr SR strompinum af Steingrími Kristinssyni.
Færsethúsið, að framan, tekinn af mér líka 1962. “Færseth-húsið ,eins og við kölluðum það, var víst við Norðurgötuna á Siglufirði, en var síðar rifið. Heimild : Guðlaugur Gunnlaugsson” ATH. Takið eftir þessari fallegu bárujárnsklæðningu.
Hvíta Húsið! Fyrrverandi Bæjarskrifstofur og fl. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

GRÁNUGATA

“Alfonshús” við Gránugötu, sem hýsti síðar Bæjarfógetaskrifstofu, lögreglustöð og bæjarskrifstofur. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Sama hús aftur og óþekktur/óþekkur strákur að glenna sig… miklar steypuskemmdir á húsinu fyrir ofan. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

GRUNDARGATA

Fanney Sigurðardóttir á Grundargötunni. Aðalgatan í bakgrunninum. Ljósmyndari er Haraldur Sigurðsson, (Halli á Eyri) bróðir hennar.
Örtröð á Sérleyfisstöðinni á horni Eyrargötu og Grundargötu. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Séð norður Grundargötu frá Eyrargötunni. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

VIÐ ENDA AÐALGÖTU

Helgi Björnsson, kallaður Helgi í Skútu á vappi fyrir framan gamla kaupfélagshúsið. Ljósmyndari óþekktur.
Hvanneyrarbraut 1. Stóð þar sem kirkjutröppurnar eru í dag. Ljósmyndari óþekktur.

Sjá meira hér undir um einkennilega byrjun Hvanneyrarbrautarinnar og myndir af gömlum bæjarskipulagskortum og.fl.

Furðulegar götur 3. hluti

LÆKJARGATA

Horfið hús og lýsistankur við Lækjargötu. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Blöndalshúsið stóra og mikla skyldi eftir sig stórt og mikið opið sár við Lækjargötuna. ATH. Takið eftir hvítmáluðum köntum á jarðhæð og stórum lýsistönkum í bakgrunninum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

ÝMSILEGT AF EYRINNI

Hannes Garðarsson (Bególín/Boj) hallar sér að glæsilegum brunahana á horninu á Aðalgötu og Norðurgötu. Ljósmyndari óþekktur.
Gamla Slökkvistöðin á horni Gránugötu og Vetrarbrautar. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Horfið hús við Ránargötu. “Pólstjörnubrakkinn, bækistöð breska hernámsliðsins á stríðsárunum, síðar nefndur Hvíti brakkinn á tímabili, eign Vigfúsar Guðbrandssonar.” Ljósmyndari : Steingrímur Kristinsson.
Óþekktur maður með hendur í vösum á milli tveggja flottra bogadregna TURN-húsa sem standa enn á horni Aðalgötu og Vetrarbrautar. Ljósmyndari óþekktur.

VETRARBRAUT

Vetrarbrautin séð úr SR Strompinum. Æskulýðsheimilið horfna fyrir miðri mynd. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
ÆSKÓ! Gamla Hertevigs bakaríið við Vetrarbrautina. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Óþekkt amma með barnabörn við Hótel Hvanneyri. Horfin hús eins og hið stóra FRÓN hús í bakgrunninum tilheyrandi Vetrarbrautinni. Ljósmyndari óþekktur.
Frón húsið ásamt risastórum snjóhúsum. Séð frá Barnaskólabalanum. Ljósmyndari Hinrik Andrésson.
Jónína Egilsdóttir við Frón húsið.

Í seinni hluta Horfin eru hús og heill æskuheimur kíkjum við meðal annars á Hafnarbryggjuna og nágrenni, Túngötuna, Vetrarbraut og út í Bakka og svo skrekkum við framá fjörð og förum jafnvel yfrum líka.

HORFIN ERU HÚS OG HEILL ÆSKUHEIMUR! 2 HLUTI. 60 MYNDIR

Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra.
Nonni Björgvins.

Höfundur og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðuljósmynd:
Steingrímur Kristinsson

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfir frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Þakklætiskveðja til Steingríms Kristinssonar fyrir aðstoð, góð ráð og yfirlestur.

Aðrar sögur, myndasyrpur og pistlar eftir sama höfund finnur þú hér á trölli.is:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:

MINNINGAMYNDASAGAN SEM ALÞÝÐA ÍSLANDS SAFNAR OG SMÍÐAR

ÓSKABJÖRN OG MÚKKAR (AFASAGA)

SIGLÓ SÍLD! ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS VERKSTJÓRA. 60 MYNDIR

FERÐIN UPP Í HAFNARFJALL

ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 MYNDIR)

SUNNUDAGSPISTILL: ÖÐRUVÍSI SIGLFIRSKT FÓLK OG… SÖGUR

LABBAÐ UPP Í SKOLLASKÁL

HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR

HAUGASUND Á SIGLUFIRÐI VAR EITT AF HÚSUNUM Í HJARTA BÆJARINS

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

GÚSTI OG KLEINURNAR

1993 – ÞÖKK SÉ FÁUM, GETA ALLIR DRAUMAR RÆST!

DRAUGASAGA STEINGRÍMS

DRAUGAGANGURINN Á AÐALGÖTUNNI

ERT ÞÚ ÁTTAVILLTUR SIGLFIRÐINGUR?

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

MARGRÉT SI 4 OG FYLLERÍ ALDARINNAR SEM LEIÐ

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 60 MYNDA-SYRPUSAGA