Til að mæta þörfum námsmanna vegna afleiðinga COVID-19 hefur ríkisstjórnin ákveðið að auka sérstaklega stuðning við námsmenn í háskólum. Heimsfaraldurinn hefur haft viðamikil áhrif á fjölbreyttan hóp stúdenta og þegar hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir. Ætlað er að kostnaður ríkissjóðs vegna þessa viðbótarstuðnings geti numið allt að 500 milljónum kr.

Aðgerðirnar eru tvískiptar:
• Tímabundin hækkun grunnframfærslu námsmanna: Vegna tímabundinna aðstæðna í þjóðfélaginu er fyrirhugað að bjóða námsmönnum viðbótarlán vegna skólaársins 2021-2022. Lánið getur numið 6% álagi á grunnframfærslu framfærslulána, nái áætlaðar tekjur námsmannsins ekki heimiluðu frítekjumarki (sem er í dag 1.410.000 krónur vegna tekna ársins 2020).
• Sumarlán: Á skólaárinu 2019-2020 var boðið upp á sumarlán fyrir námsmenn hjá Menntasjóði námsmanna þar sem lánað var niður í 1 ECTS einingu. Ákveðið er að sambærileg ráðstöfun verði í boði fyrir námsmenn vegna sumarannar nú. Þá verður áfram gert ráð fyrir því að þeir námsmenn sem sækja um námslán og koma af atvinnumarkaði eða hafa ekki verið á námslánum síðustu 6 mánuði fái fimmfalt frítekjumark til lækkunar á launatekjum ársins sem hefðu annars skert lánið.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt skref fyrir ákveðinn hóp námsmanna og kemur til viðbótar öðrum stuðningi sem fjölbreyttum hópi stendur til boða í gegnum Menntasjóð námsmanna. Við höfum unnið að því ötullega síðustu misseri að bæta stöðu námsmanna í íslenskum háskólum, meðal annars með hækkun frítekjumarks og sanngjarnara námslánakerfi sem betur styður við fjölskyldur og stuðlar að minni skuldsetningu. Þá hefur ríkisstjórnin tryggt framlög vegna sumarstarfa og sumarnáms líkt og vel mæltist fyrir í fyrra. Með þessum aðgerðum teljum við að staða námsmanna á Íslandi verði ein sú besta á Norðurlöndunum og því ber að fagna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Þúsundir starfa fyrir námsmenn
Ríkisstjórnin hefur jafnframt ákveðið að skapa þúsundir starfa fyrir námsmenn og verja 2,3 milljörðum kr. í launagreiðslur til þeirra sem ráðast í vinnu. Þá er einnig búið að tryggja að sumarnám hefjist í framhalds- og háskólum landsins. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur verið stækkaður vegna aðstæðna og styrkveitingar úr honum munu opna tækifæri fyrir námsmenn með góðar hugmyndir og drifkraft til að framkvæma þær.

Sértækar aðgerðir Menntasjóðs námsmanna vegna COVID-19
– Sumarlán fyrir námsmenn (vegna náms sem frá 1-20 ECTS-eininga).
– Fimmfalt frítekjumark fyrir lánþega sem eru að koma af vinnumarkaði.
– Viðbótarframfærsla í þeim löndum þar sem verulega munar á íslenskri framfærslu og framfærslu í öðru landi (staðaruppbót).

Skoða á vef Stjórnarráðsins